Ég hélt þegar ég var unglingur að fáir aðrir en við vinirnir værum jafn stolt af uppruna okkar. Já ég kem úr Efra-Breiðholti nánar tiltekið úr Fellahverfinu, af því hef ég alltaf verið stolt og mun rökræða um ágæti hverfis míns fram í rauðan dauðan. Ég var oft vör við fordóma gegn hverfi mínu þegar ég var yngri og ef ég sá eitthvað sem ósanngjarnt var í umfjöllun fjölmiðla gagnvart mínu hverfi lét ég í mér heyra.
Þegar ég hóf framhaldsskólagöngu mína komst ég að því að fordómar gagnvart hverfinu mínu voru meiri en ég hélt, þeir fordómar sem eins og aðrir fordómar eru á engum rökum reistir. Ég man eftir að heyra að í Fellunum væru bara brostnar fjölskyldur, alkar, dópistar, útlendingar og skrítið fólk. Ég benti fólki nú ávallt á það að ég teldi mig ekki passa inn í neinn af þessum hópum nema kannski að ég væri smá skrítin en eru það ekki allir? Ég man líka eftir frösum á borð við „Ojj, það er Fellalitur á þessu“ „Býrðu í Ghettoinu?“og svo margir aðrir. Ekki hef ég enn þá skilið þennan Fellalit en frasanum um ghettóið er ég orðin alvön. Eins og flestir sem er strítt er vaninn að snúa vörn í sókn og vera á undan með brandarann. Vegna þess eru margir sem koma úr fellunum sem segja sig koma úr ghettóinu (greinarhöfundur hefur gerst sekur um slíkt) vandamálið við það er samt að það viðheldur stimplinum á hverfinu mínu.
Vegna rannsóknar sem nýlega var gerð kom í ljós að 11,5% af íbúum Fellahverfissins í Breiðholti eru af erlendum uppruna. Sumir segja þetta vera sláandi tölur og segja að lágt íbúaverð sé ástæða þess að fólkið þyrpist í Fellana. En ég velti því einmitt fyrir mér, er það ástæðan? Ég tel ástæðuna vera frekar að í Fellahverfinu er mikið um fólk frá mismundandi löndum þar af leiðandi er t.d. grunnskólinn tilbúinn fyrir það að taka á móti börnum frá mörgum heimshornum, samfélagið er einnig undir það búið. Ég tel að þessar fjölskyldur séu að gera það sama og við myndum gera ef við værum að flytja til ókunnugra landa, við myndum fara þangað sem börnunum okkar mun líða hvað best, við förum þangað sem við teljum að börnin okkar eignist vini og geti lært í skólanum.
Íbúðaverð er einnig mjög hagstætt í fellunum. Margar fjölskyldur sem flytjast hingað vilja kaupa sér íbúð á hagstæðu verði á og það er líklega það sama og við Íslendingar myndum gera ef við værum að flytjast til útlanda. Við myndum ekki ráðast í að kaupa rándýra íbúð á meðan við værum að kynnast landinu og koma okkur inn í menningu landsins. Því er vel skyljanlegt að innflytjendur velji að búa í fellahverfinu.
Vegna fjölda nýrra Íslendinga í Fellahverfi er talað um að hætta sé á að alvöru „Ghettó“ geti myndast þar, „ghettó“ eins og við sjáum í bíómyndunum. Ég vísa þessu á bug, með þessum fjölda af nýjum Íslendingum mun líklegast myndast aðeins öðruvísi menningarheimur en hann þarf ekki að vera eitthvað „Ghettó“ þvert á móti. Í grunnskóla hverfisins Fellaskóla er reynt eftir bestu getu að taka vel á móti börnunum og eru kennarar undir það búnir. Börnin taka þátt í daglegu lífi skólans, hvort sé um að ræða frímínútur eða dansleiki hjá þeim eldri.
Ég hef séð hverfið mitt breytast á undanförnum árum, sumar góðar og sumar ekki og það er bara eins og gengur og gerist. En ég tel að það sem mér þótti vænst um í mínu hverfi skólinn, félagsmiðstöðin, vinirnir og Elliðarádalurinn er allt enn til staðar fyrir börnin sem búa þar núna. Það sem ég finn þegar ég tala við krakkana í Fellunum er að þau taka ekki eftir því frá hvaða landi vinir þeirra koma, það skiptir bara ekki máli.
Ég vil því biðja þá sem fordóma hafa gagnvart mínu hverfi að taka smá túr um hverfið í fylgd með einhverjum sem þekkir til og ég er sannfærð um að tilfinning þín á Fellunum mun breytast til hins betra.
- Óður til Dollýar - 29. júlí 2021
- Aðförin að heilbrigðisþjónustu landsmanna - 9. júní 2021
- Þegar mennskan hverfur - 26. apríl 2021