Tony Blair lét af embætti sem forsætisráðherra Bretlands í gær eftir að hafa gengt embættinu í 10 ár og við tók hinn skoski Gordon Brown, fyrrum fjármálaráðherra. Litlu munaði að örlög Blair yrðu þau sömu og Margaret Thatcher varð fyrir þegar hún hrökklaðist úr embætti fyrir tilstuðlan eigin flokksmanna. En Blair tókst naumlega að ákveða eigin brottfaradag og það nokkuð stóráfallalaust miðað við það sem undan hafði gengið.
Það er útbreidd skoðun meðal almennings í Bretlandi að Tony Blair hafi staðið sig vel fyrsta kjörtímabilið en svo hafi heldur farið að síga á ógæfuhliðina næsta eina og hálfa kjörtímabilið frá 2001 til 2007. Sennilega er þessu þveröfugt farið ef sett eru upp pólitísk gleraugu. Þegar Verkamannaflokkurinn komst til valda 1997 voru væntingar um breytingar gríðarlegar og almennt hafði fólk trú á því að hinn ungi og nýi forsætisráðherra væri boðberi nýrra og betri tíma. En þegar á leið kjörtímabilið kom í ljóst að fagnaðarerindið var heldur innantómt og á fyrstu árum í embætti var erfitt að sjá að Blair hafi haft fastmótaða stefnu til að fara eftir.
Í kosningabaráttunni 1997 treysti Verkamannaflokkurinn einna mest á pólitíska rýni- og skoðanahópa um land allt og skoðanakannanir. Auk þess lagði flokkurinn mikla áherslu á að lofa því að uppfylla alls kyns hverdagslegar þarfir almennings. Útkoman var eins konar pólitískur lífstílsloforðapakki. Rýnihópar og skoðanakannanir sögðu t.a.m. ekkert til um ástanda járnbrautakerfisins og kom það þá Blair og forystu Verkamannaflokksins í opnar skjöldur þegar þeir voru gagnrýndir harðlega stuttu síðar fyrir að hafa enga stefnu í samgöngumálum. Það er vandlifað í pólitík ef engin er stjórnmálastefnan og sigur vinnst á því að hafa enga stefnu. En svo blossa upp gagnrýnisraddir almennings og stjórnmálamenn krafðir um skýra stefnu í hinu og þessu þrátt fyrir að almenningur treystir ekki stjórnmálamönnum til að hafa stefnu.
Blair naut þess framan að ástand efnahagsmála í Bretlandi var og er harla gott. Hagstefna sú sem Thatcher lagði grunn að fékk að halda sér og Verkamannaflokkurinn hélt áfram á braut einkaframtaksins og lítilla ríkisafskipta. Það var í samræmi við eitt mikilvægasta kosningaloforðið 1997 um að hækka ekki skatta. Á móti hefur Verkamannaflokkurinn ekki staðið við loforð sín um betra menntakerfi, heilbrigðiskerfi, samgöngukerfi og almannatryggingakerfi. Í raun staðið sig í illa í öllum þeim málum sem mestrar vonir voru bundnar við að ástandið yrði bætt hvað mest.
Skömmu eftir annan kosningasigur Verkamannaflokksins 2001 gerðust atburðir á heimsvísu sem breyttu rækilega ásýnd Blair í embætti. Viðbrögð Blair við hryðjuverkaárásinni þann 11. september voru á þann veg að hörðustu Churchillistar hefðu getað grátað sögufrægðarljómatárum. Við Amerísku þjóðina hafði Blair m.a. þetta að segja: „We were with you at the first. We will stay with you till the last“. Við þau orð virðist hann hafa staðið. Þátttaka Breta í stríðinu í Afganistan og Írak hefur þannig leitt til þess að Blair er einn hernaðarsinnaðasti forsætisráðherra Breta síðan á 19. öld.
Vegna stuðnings Blair við stríðið gegn hryðjuverkum mun sagan eflaust setja hann á stall með áhrifameiri forsætisráðherrum Breta. Sagan hyllir iðulega þeim stjórnmálamönnum sem lenda í hringiðju stórra átaka og beita hörku. Breytir þar litlu um að vinsældir Blair í Bretlandi hafa undanfarin ár farið sífellt minnkandi, einkum vegna innrásarinnar í Írak. En ástæðan fyrir óvinsældum heimafyrir er jafnframt sú að stjórn landsmála hefur verið slök og Bretar almennt farnir að lengja eftir breytingum.
Með skýra stefnu gegn hryðjuverkum er eins og Blair hafi fundið taktinn og eftir 2001 var hann ötulli að boða breytingar sem byggðar voru þó á einhverri pólitískri heildarmynd. Sennilega var hann aðeins ef seinn til. Farið var að gæta vaxandi andstöðu gegn honum innan hans eigin flokks og Íhaldsflokkurinn við það að ná aftur hluta af fyrri styrk. Vafalaust verður Blair þó einna mest þakkað fyrir að hafa lagt allt sitt af mörkum til að stilla til friðar á Norður Írlandi. Það er vonandi að sú reynsla nýtist honum eitthvað í nýju starfi sem friðarerindreki Kvartettsins svokallaða.
Í stóru samhengi stjórnmálanna í Bretlandi og á alþjóðavísu skiptir litlu máli að Tony Blair er hættur sem forsætisráðherra. Arftaki hans mun væntanlega fylgja sömu stefnu í megin dráttum. Fyrirheit hins nýja Brown um breytingar er svona eins boðskapur Guðna Ágústssonar um nýja tíma og önnur undur í Framsóknarflokknum. Raunverulegra tíðinda er ekki að vænta fyrr en úrslit næstu þingkosninga í Bretlandi liggja fyrir.
- Stjórnarhættir sjávarútvegsfyrirtækja - 26. maí 2021
- Dokkan og Ríkið - 18. febrúar 2021
- Villuljós og vinnuleit - 15. desember 2020