Flestir sem hafa búið erlendis, hvort sem er í Evrópu eða Bandaríkjunum, vita að það fer oft ógrynni vinnu í einfaldan hlut eins og að opna bankareikning. Það er ekki hægt að opna bankareikning fyrr en þú ert komin með heimilisfang og það er ekki hægt að skrifa undir leigusamning fyrr en þú ert komin með bankareikning – Catch 22!
Öllu einfaldara virðist hins vegar að opna banka í Evrópu en að opna bankareikning.
Á nýafstöðu sumarþingi voru samþykktar breytingar á lögum um verðbréfaviðskipti, kauphallir og fjármálafyrirtæki með það fyrir augum að innleiða tvær tilskipanir frá Evrópusambandinu (svokallaða MiFID-tilskipun og gagnsæistilskipunina). Markmið þeirra er að þróa skilvirkan sameiginlegan innri markað með fjármálaþjónstu, stytta viðbraðgstíma og efla eftirlit og neytendavernd.
Eitt af því sem innleiða á og hefur að nokkru leyti þegar verið til staðar er svokallaður „Evrópupassi“ fjármálafyrirtækja. Í honum felst að ef banki er með starfsemi í einu Evrópulandi þá þarf hann einungis að „veifa“ passanum sínum til að geta hafið starfsemi í öðru Evrópulandi. Til að hefja starfsemi í öðru Evrópulandi þarf einungis að beina tilkynningu til Fjármálaeftirlistins í heimalandinu um að bankinn hyggist hefja starfsemi á nýjum stað og þar með er málið afgreitt.
Þetta kemur þó ekki einungis evrópskum bönkum vel því bankar utan Evrópu þurfa bara að opna útibú í einu Evrópulandi til að geta líkt og hinir Evrópubankarnir fengið „passa“ og veifað honum til að hefja starfsemi í næsta landi. Það má búast við því að bankar frá Asíu og Bandaríkjunum muni í auknum mæli líta til þess í hvaða landi í Evrópu er hagkvæmast og auðveldast að setja á stofn útibú og þaðan munu þeir svo ferðast frjálst um alla Evrópu.
Skilvirkni fjármálaeftirlitsins og annarra stofnanna eins og fyrirtækjaskrár í viðkomandi löndum verður þar algjört lykilatriði. Það ætti að verða metnaður nýs viðskiptaráðuneytis og nýs viðskiptaráðherra að nýta þá möguleika sem í þessu geta falist. Þó London sé fjármálamiðstöð Evrópu eru reglurnar til að opna þar útibú og fá „Evrópupassa“ með þeim strangari og flóknari. Þannig getur verið auðveldara fyrir asískan banka að opna fyrst útibú í einhverju öðru landi, fá „Evrópupassann“ og ferðast þaðan til London.
Í öllu falli ætti að vera töluvert auðveldara að opna banka í Evrópu en fyrir óbreyttan borgara að opna bankareikning.
- Farsæld barna - 28. apríl 2021
- Barnavernd og efnahagskreppur - 23. mars 2021
- 165 lögverndaðar starfsgreinar - 25. nóvember 2020