Í þessu tilfelli borguðu menn tiltölulega lága upphæð fyrir að taka þátt, mótshaldari græddi ekkert á þessu en notaði aðgangsféð í verðlaun. Reyndar var spilað með spilapeninga, sem voru fyrst og fremst táknrænir til að sýna stöðu manna, en höfðu ekkert peningalegt virði. Sá sem vann hirti einfaldlega allan pottinn.
Lögreglan hafði vitað af þessu en þegar málið komst í hámæli var ákveðið að stöðva mótið, og það var gert í einum grænum. Enginn hefur hins vegar verið kærður vegna málsins, og óvíst að af því verði. Lögfræðingur sem fjallaði um þetta á einni útvarpsstöðinni, taldi að þetta væri á gráu svæði og láta þyrfti lögreglu vita á undan (sem var gert í þessu tilfelli). Ef lögreglan ætlar hins vegar að eltast við alla sem eru með aðgangseyri og bjóða vinning má hún hefjast handa við að leita að hinum fjölmörgu gólfmótum og bingóum sem eru haldin reglulega víða um borgina.
Tap hvers og eins var takmarkað við þáttökugjaldið, sem var nokkrir þúsundkallar. Ekki var í boði að leggja undir hvern leik annað en þá spilapeninga sem hver og einn fékk úthlutað í upphafi og hafði unnið sér inn. Á sama tíma reka hálfopinberir aðilar spilakassa hér í bæ, þar sem hægt er að leggja undir mörg hundruð krónur í hverjum leik. Þessir aðilar eru í þeirri skrýtnu stöðu að eyðileggja líf fólks til að byggja upp líf annarra. Fjölmörg dæmi er um að fólk hafi komist í hann krappan eftir að hafa lent í vítahring spilakassanna, jafnvel misst allt eða tekið sitt eigið líf.
Sé raunverulegur vilji löggjafans að stöðva fjárhættuspil hér á landi, þarf að sjálfsögðu að stöðva þessar vélar. Þetta er hins vegar ótrúlega gjöful tekjulind, sjálfvirkra kassa sem gefa ákveðið hlutfall af hverjum hundraðkalli sem settur er í kassann. Engin heppni í því, engin útsjónarsemi spilara bara einfaldur hlutfallsúrreikningur kassans.
Það virðist hafa verið fljótræði af lögreglunnar hálfu að ráðast á þetta pókermót, bara sú staðreynd að spilið sem var í gangi var póker og það voru verðlaun í boði. Menn hljóta að endurskoða þessa hluti í kjölfarið eða gera breytingar á lögum. Eins og áður segir er kröftum lögreglunnar betur varið á öðrum vígstöðum og ef þeir virkilega vilja koma í veg fyrir fjárhættuspil væri fyrsta stopp að spjalla við hina hálfopinberu aðila sem stunda þetta fyrir allra augum.
- Það er njósnað um þig - 24. febrúar 2021
- Nútímamaður - 11. júlí 2020
- Langa dimma vetur - 10. júlí 2020