Það er hverjum Íslendingi hollt að rifja upp að lágmarki einu sinni á ári af hverju Ísland er sjálfstætt ríki, og þjóðhátíðardagurinn sjálfur er kjörið tækifæri til þess. Það verður þó ekki gert að þessu sinni heldur verður litið á dagsetninguna 17. júní með augum heimsborgarans og tímaflakkarans, auk þess sem að í tilefni dagsins verður íslenskri tungu haldið hátt á lofti.
Þó nokkrir markverðir atburðir hafa átt sér stað á þessum degi í heimssögunni. Til að mynda eignaði landkönnuðurinn Sir Francis Drake sér árið 1579 það landsvæði sem nú kallast Kalifornía, og árið 1773 varð Kolumbía til. Fyrir áhugamenn um blóðsúthellingar má nefna að á þessum degi árið 1775 fór fram orrustan um Sandgryfjuhæð, sem var reyndar háð á allt annarri hæð fyrir mistök, en hver er að festa sig í svoleiðis smáatriðum?
Af helstu atburðum 20. aldarinnar á þessum merka degi, má nefna að Vatnshliðshneykslið hófst með handtöku fimm starfsmanna Hvíta hússins (ekki þó auglýsingastofunnar) fyrir að brjótast inn í skrifstofur hins bandaríska Lýðræðisflokks. 1991 var aðskilnaðarstefnan afnumin í Suður-Afríku, og í Bandaríkjunum árið 1994 var bæði stórleikarinn O.J. Simpson (ranglega) handtekinn fyrir tvö morð og heimsmeistarakeppnin í knattspyrnu hófst.
Í mannkynssögunni eru ekki mörg mikilmenni sem hafa fæðst á þessum degi, og kunnum við þeim góðar þakkir að vera ekki að draga athygli frá sjálfum Jóni okkar Sigurðssyni, sem kom í heiminn árið 1811. Þó voru þrír menn sem fæddust í miðri heimsstyrjöld og hafa náð árangri á ólíkum sviðum, en eiga það sameiginlegt að vera nógu merkilegir til að vera nefndir í þessum þjóðhátíðarpistli. Þetta eru herramennirnir Mohamed ElBaradei (1942), yfirmaður Alþjóða kjarnorkumálastofnunarinnar, Newt Gingrich (1943), fyrrum leiðtogi Lýðveldisflokksins á Bandaríkjaþingi, og Barry Manilow (1943), sem að mati Bandaríkjamanna (og engra annarra) hefur samið fjölmörg úrvals dægurlög.
Að lokum vil ég svo óska Íslendingum öllum, og íbúum Vestur-Þýskalands, til hamingju með þjóðhátíðardaginn.
- Svarta gullið - 26. maí 2010
- Frumvarpið sem mun breyta Bandaríkjunum - 6. apríl 2010
- Kafbátarnir á kaffistofunum - 29. janúar 2009