Málefni strætó er ávallt eldfimt efni í umræðunni og skiptar skoðanir eru um hvaða aðferðum sé best að beita til að strætó skili því hlutverki sem honum er ætlað. Einn ljós punktur í þessari umræðu er þó ákvörðun Reykjavíkurborgar um að reykvískir námsmenn muni fá frítt í strætó á haustönn 2007. En þar er þó ekki öll sagan sögð.
Nýlega kynnti Reykjavíkurborg hugmyndir að vistvænni borg og er það að veita reykvískum námsmönnum frítt í strætó liður í þeirri áætlun. Nú má hins vegar benda á þá mismunum sem verður gerð á námsmönnum höfuðborgarsvæðisins með þessum breytingum, þar sem einungis reykvískir námsmenn munu fá frítt. Það er á valdi nágrannasveitarfélaganna að koma í veg fyrir þessa mismunun og er óskandi að þau muni fara að fordæmi Reykjavíkurborgar og bjóða námsmönnum síns sveitarfélags einnig frítt í strætó á haustönn 2007.
Þrátt fyrir þetta góða framtak Reykjavíkurborgar sem mun koma námsmönnum mjög til góða er annað mál sem skyggir á, en það er fyrirhuguð upptaka bílastæðagjalda við Háskóla Íslands. Reiknað er með að innheimt verið gjald fyrir stæðin í svokallaðri skeifu fyrir framan Aðalbygginguna, en þá fylgja væntanlega stæðin hjá Lögbergi og Nýja Garði með.
Þörfin fyrir upptöku bílastæðagjalda er mjög óljós. Skortur á bílastæðum eru ekki veigamikil rök þar sem enginn skortur er á bílastæðum nú, þó að oft þurfi að leggja lengra frá viðkomandi byggingu en maður hefði viljað en það réttlætir ekki upptöku bílastæðagjalda. Einnig má gera ráð fyrir því að stúdentar við Háskóla Íslands muni í auknum mæli nýta sér þjónustu strætó þegar hún verður ókeypis. Í staðinn verður þeim sem ekki gera það og koma á sínum einkabílum refsað með því að láta þá borga bílastæðagjöld við skólann.
Upptaka bílastæðagjalda væri að mati höfundar afar óheppileg breyting þegar hagsmunir stúdenta eru hafðir að leiðarljósi. Það er ekkert sem bendir til þess að upptaka bílastæðagjalda muni minnka notkun stúdenta á einkabílum. Hins vegar bendir meira til þess að það að gefa frítt í strætó muni takmarka notkun á einkabílum. Í könnun sem Félagsstofnun stúdenta gerði í maí kom fram að í dag nota 9% stúdenta við Háskólann strætó en 66% koma á einkabíl. Einnig kom fram að ef gefið yrði frítt í strætó myndi 43% stúdenta taka strætó en 35% nota einkabílinn.
Því er umræða um bílastæðagjöld ótímabær þar sem þau virðast ekki til þess fallin að skila tilætluðum árangri. Einnig er óheppilegt að fara í gang með tvö tilraunaverkefni sem þessi á sama tíma. Enn hefur þessi fyrirhugaða breyting á upptöku bílastæðagjalda ekki komið til og Reykjavíkurborg hefur því enn tækifæri til að sjá að sér og stinga þessari hugmynd aftur ofan í skúffu þar sem hún er best geymd. Vonum að svo verði.
- #FreeBritney - 22. júlí 2021
- Næstu skref í fæðingarorlofsmálum - 6. júlí 2021
- Hvað tökum við með okkur úr faraldrinum? - 23. júní 2021