Skollið hefur á hálfgert áróðursstríð milli 365-miðla og Egils Helgasonar vegna meints samningsbrots hins síðarnefnda. Egill hafði ráðið sig yfir á RÚV til þess að vera með þátt sinn Silfur Egils næsta haust en því er hins vegar haldið fram af hálfu 365-miðla að hann hafi verið búinn að semja við fyrirtækið til tveggja ára í viðbót. Brot á því geti þýtt að sett verði lögbann á þáttinn á RÚV. Bloggarar og álitsgjafar hafa tekið upp hanskann fyrir Egil og réttilega bent á að hvað sem öllum lagaflækjum líði, geti það ekki verið 365 til framdráttar að hneppa Egil í vistarbönd á stöðinni. Á hann að halda úti þætti á Stöð 2, sem er í þokkabót eign hans og sköpunarverk, þvert gegn vilja sínum? Það yrðu ekki beinlínis mjög eðlilegar eða frjálsar stjórnmálaumræður – þegar þáttastjórnandinn sjálfur er neyddur til að vera þar!
Þetta kemur manni óneitanlega undarlega fyrir sjónir utan frá. Af hverju er Stöð 2 að hamast svona mikið í Agli og reyna að pína hann til að vera áfram þegar hann virðist hafa gengið frá því að fara yfir til RÚV? Þegar rýnt er í bréf fyrirtækisins til Egils, sem birt er á Vísi.is, verður þó ekki betur séð en að fyrirtækið hafi nokkuð til síns máls.
Þar er málavöxtum lýst eins og þeir horfa við fyrirtækinu og fram kemur að samningur Egils við fyrirtækið hafi runnið út 31. maí sl. og að í lok mars hafi viðræður milli þeirra um frekara samstarf hafist. Ari Edwald, forstjóri 365-miðla, og Egill hafi náð saman um meginatriði nýs samnings og það samkomulag hafi m.a. byggst á minnisblaði sem Egill sendi honum nokkrum dögum áður um breytingar sem hann vildi gera. Stuttu síðar hafi Egill sent tölvupóst og staðfest að hann væri til í að gera þennan samning, hann og Ari hafi rætt saman í síma þennan dag og loks sendi Ari Edwald tölvupóst um að staðfest væri að komist hefði á samningur til tveggja ára en að þeir skyldu klára skriflega útgáfu síðar. Egill svaraði um hæl: „Ok, móttekið, ég fer á laun 1. sept. – kv. Egill“.
Í bréfinu er ennfremur rakið að í maílok hafi Ari og Egill enn talað saman og þar hafi Egill verið spurður út í orðróm sem var í gangi um að hann væri á leiðinni yfir á RÚV. Þessu hafi Egill hafnað alfarið og sagt að allt væri klárt. Þann 1. júní hafi hins vegar borist tilkynning þess efnis að Egill væri farinn yfir á RÚV. Í bréfinu heldur 365 því fram að fyrirtækið hafi upplýsingar um að hann hafi gengið frá ráðningunni þremur vikum fyrr og því verið búinn að ganga frá sínum málum þegar Ari hafi hringt í hann til þess að staðfesta að samningurinn væri í gildi.
Það er í stuttu máli dreginn upp nokkuð dökk mynd af framgöngu Egils í bréfi 365-miðla og jafnvel fullyrt að hann hafi beitt blekkingum. Í pistli á heimasíðu sinni fer Egill yfir sína hlið málsins en athygli vekur að hann rengir ekki frásögn bréfsins af samskiptum sínum við fyrirtækið. Þótt ekki hafi verið kominn á skriflegur samningur í málinu, þ.e. ekki verið skrifað undir endanlega útgáfu af samningi, er það að sjálfsögðu rétt sem bent er á í bréfi 365 að munnlegur samningur er jafngildur skriflegum í íslenskum rétti, sé unnt að sýna fram á tilvist hans. Sé rétt með farið virðast kröfur 365 studdar nokkuð traustum gögnum, m.a. tölvupóstum þar sem staðfest er að báðir aðilar telji samning vera kominn á. Egill raunar viðurkennir strax í upphafi yfirlýsingarinnar að „mér datt aldrei í hug að það sem fór á milli mín og forstjóra 365 væri samningur“.
Hann bendir á að ef til vill kunni að koma til krókur á móti bragði: „Ef í gildi er samningur milli mín og 365 (sem ég tel ekki vera), þá er uppsagnarfresturinn umræddir þrír mánuðir. Ég get semsé sagt upp samningnum núna og þá er hann útrunninn eftir þrjá mánuði. Það er í september eða í síðasta lagi í byrjun október. Silfrið hefur vanalega hafið göngu sína á svipuðum tíma og þingið byrjar í október.“
En jafnvel þótt þetta gengi eftir væri 365 í lófa lagið að fara í mál við Egil fyrir að hafa ráðið sig til samkeppnisaðila, sem er bannað sérstaklega í ráðningarsamningi Egils við fyrirtækið, skv. því sem fram kemur í bréfi lögmanns 365. Það virðist því sem fjölmiðlamaðurinn knái hafi farið fullbratt í brotthvarfi sínu úr Skaftahlíðinni.
Þótt reglur sem þessar kunni að virka ósanngjarnar og það líti út fyrir að 365 sé að tuddast á eftirlætis fjölmiðlungi þjóðarinnar, verður að hafa í huga að reglur um að samninga skuli halda, og að samningar geti komist á með munnlegum hætti eru mikilvægar. Það væri á ansi fáu byggjandi á vinnumarkaði eða í viðskiptum almennt ef munnlegt loforð hefði ekkert gildi og skuldbinding myndaðist ekki fyrr en við formlega undirritun samninga.
Það er hins vegar vonandi að þessi mál leysist sem fyrst, því Silfur Egils er mikilvægur hluti af stjórnmálaumræðunni. Það væri hálffúlt ef þættirnir yrðu sendir út hjá sýslumanni næsta vetur.
- Hröð en ekki óvænt stefnubreyting í málefnum hælisleitenda - 20. febrúar 2024
- Fjölmiðlaóð þjóð - 22. janúar 2021
- Skiljanleg en hættuleg ritskoðun tæknirisanna - 14. janúar 2021