Í prófatíð er vinsæll siður að stytta sér stundir milli lestrarlota með því að slaka á yfir uppáhaldsþættinum sínum. Síðustu vikur hafa því þættir á borð við Beðmál í borginni (Sex and the City), Aðþrengdar eiginkonur (Desperate houswives) og Ally Mcbeal verið tíðir gestir í sjónvarpi pistlahöfundar. En í þessari prófatíð fór ég að velta fyrir mér ímynd kvenna í vinsælum sjónvarpsþáttum. Gegnumgangandi í þessum þáttum er þörf kvenna fyrir karlmenn til að gera lífið fullkomið. Er þetta eitthvað sem við nútímakonur göngumst við? Eru karlmenn nauðsynlegir til að fullkomna líf okkar?
Ally Mcbeal voru vinsælir þættir á sínum tíma en þar er aðalsögupersónan Ally, ungur lögfræðingur sem er á sífelldum bömmer yfir því að vera einhleyp og finnst hrikalegt að verða þrítug. Þrátt fyrir að vera forfallinn Ally Mcbeal aðdáandi þá hefur þetta alltaf truflað mig við þættina. Hvað er svona slæmt við það að vera einhleyp? Hún er í fínni vinnu, á fína íbúð, á góða vini og gengur allt í haginn. Hvað er málið? Þetta á víst að segja okkur ungu konunum að lífið geti ekki verið fullkomið nema það sé karlmaður í því. Einhvern veginn er ég ekki alveg tilbúin til að samþykkja það. Þó ég hafi nú ekkert á móti karlmönnum sem slíkum þá neita ég að gleypa við þeirri hugmynd að lífið sé fyrst og síðast fullkomnað þegar hinn eini rétti birtist sem og þeirri goðsögn að sönn ást verði á vegi þínum aðeins einu sinni á lífsleiðinni.
Susan í Aðþrengdum eiginkonum er annað dæmi um konu sem getur ekki á sér heilli tekið nema hafa karlmann sér við hlið. Þó að örvæntingarfullar tilraunir hennar til að ná sér í karlmann séu oft á tíðum verulega fyndnar þá eru skilaboðin eitthvað svo röng. “Náðu þér í karlmann sem fyrst, annars verðurðu ein að eilífu og það er það versta sem getur komið fyrir þig!”
Beðmál í borginni voru með vinsælustu sjónvarpsþáttum í heimi en nokkuð er síðan þeir þættir runnu sitt skeið. Þegar þeir hófust voru kynntar til leiks fjórar sjálfstæðar konur sem voru sko allt annað en háðar karlmönnum. Það hafði örugglega eitthvað með vinsældirnar að gera. Frábær nýjung að sjá þætti þar sem konur höfðu einhver önnur markmið í lífinu en að finna sér karlmann og giftast. Carrie Bradshaw, aðalpersóna þáttana, var holdgervingur hinnar nýju konu í heimi þar sem konur sjá um sig sjálfar og karlmenn eru einnota. En eftir sex seríur, mikið drama og mikil læti enda hinar fjóru sjálfstæðu konur allar með karlmönnum. Er þá þessi nútímakona, sem er einhleyp og sjálfstæð, ekki til?
Ég bíð spennt eftir vinsælum sjónvarpsþáttum þar sem aðalsögupersónan endar ein og er eiturhress með það, en er ekki bjargað af einhverjum líkt og Carrie var bjargað af Mr. Big. Þangað til get ég svo sem tekið það á mig að vera kyndilberi hinnar nýju kynslóðar einhleypra og sjálfstæðra kvenna þar sem karlmenn eru lítið annað en flottur fylgihlutur.
Stelpur, hver er memm?
- #FreeBritney - 22. júlí 2021
- Næstu skref í fæðingarorlofsmálum - 6. júlí 2021
- Hvað tökum við með okkur úr faraldrinum? - 23. júní 2021