Nýtt pólitískt landslag hefur orðið til undanfarna daga á Íslandi eins og flestum ætti að vera orðið ljóst. Þótt hin nýja ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar hafi fengið mesta athygli er ekki síður ástæða til að gefa hinni nýju stjórnarandstöðu gaum. Hún samanstendur af þremur flokkum; Frjálslynda flokknum, Vinstri grænum og Framsóknarflokknum en síðastnefndu flokkarnir tveir hafa hingað til frekar verið þekktir fyrir að leggja beinlínis fæð hvor á annan, heldur en að vera samherjar í stjórnmálum. Þó hefur sú breyting orðið á undanfarna daga að flokkarnir bera af öðrum í fýlu og leiðindum í garð hinnar nýju ríkisstjórnar og hafa þannig hugsanlega skapað sér ákveðinn snertiflöt fyrir frekara samstarf.
Það þarf ef til vill að kafa nokkuð djúpt í upphaf og hugsjónir hvors flokks til þess að átta sig á því hve ólíkir þeir eru. Framsóknarflokkurinn á að baki langa sögu og rekur uppruna sinn til landsbyggðarinnar og sveitanna. Grundvallargildi hans eru manngildi og hann hefur alltaf lagt áherslu á að hér sé næg atvinna og að náttúruna eigi að nýta til að tryggja bætt lífskjör í landinu. Það mætti með nokkurri einföldun segja að Framsóknarflokkurinn sé eins konar praktískur lífskjaraflokkur, þar sem unnið er með beinum hætti að því að bæta hag fólksins í landinu.
Vinstri grænir byggja hins vegar á allt annars konar grunni. Flokkurinn berst fyrir því að búa til betri og réttlátara heim og leggur þar siðferðislegan mælikvarða til grundvallar. Kynjajafnrétti og umhverfisvernd eru leiðarstef flokksins en að sama skapi er minni áhersla lögð á að bæta í pyngjur landsmanna og knýja hjól atvinnulífsins. Ekki svo að skilja að VG vilji beinlínis litla atvinnu eða meðalgóð lífskjör, hvað þá að Framsókn sé á móti umhverfinu eða jafnrétti kynja – flokkarnir velja hins vegar að setja ákveðin mál á oddinn og önnur ekki. Þannig lenda Vinstri grænir yfirleitt í vandræðum í kosningabaráttu þegar þeir eru látnir útskýra hvernig eigi að tryggja hagvöxt og búa til störf, ef ekki sé fyrir stóriðju og skattalækkanir, á sama hátt og Framsóknarflokkurinn á ekki auðvelt með að sjóða saman sannfærandi ræður um að hann sé grænn umhverfisverndarflokkur, þegar þeir höfðu forystu um að keyra í gegn stærstu virkjun sinnar tegundar í Evrópu.
En nú sitja þessir flokkar saman í súpunni. Það væri efni í annan pistil að fara að rekja ástæður og aðdraganda þess að þeir lentu í stjórnarandstöðu, en þó má geta þess að talsmenn Samfylkingarinnar töldu einfaldlega ekki í það leggjandi að mynda þriggja flokka vinstri stjórn vegna tortryggni milli VG og Framsóknarflokksins. Það ætti þó enginn að ætla að Samfylkingin hefði ekki haft áhuga á slíkri stjórn.
Sé horft til einstakra mála, er ljóst að leiðir Framsóknarflokks og VG liggja ekki svo gjörla saman. Það er einna helst í landbúnaðarmálum sem flokkarnir tala sama máli – þ.e. að standa vörð um óbreytt ástand. Í alþjóðamálum er VG alfarið á móti inngöngu í Evrópusambandið á meðan Framsóknarflokkurinn er mun Evrópusinnaðri, þótt málið sé umdeilt innan flokksins. Í umhverfismálum boðaði VG algert stopp í stóriðjumálum og að rannsóknar- og virkjanaleyfi yrðu innkölluð, á meðan Framsóknarflokkurinn lagðist alfarið gegn slíkum hugmyndum og byggði raunar kosningabaráttu sína á að hér yrði sko ekkert stopp. Í efnahagsmálum er sama staða uppi. Framsóknarflokkurinn hefur alltaf haft mikinn skilning á því að búa atvinnulífinu hagfelld skilyrði, t.d. með skattalækkunum og lágmarks ríkisafskiptum en Vinstri grænir hafa á hinn bóginn barist gegn skattalækkunum á fyrirtæki og einkavæðingu stórra ríkisfyrirtækja, á borð við ríkisbankana og Landssímans. Þar að auki hafa forystumenn flokksins sent bönkunum og fjármálalífinu tóninn og jafnvel talað um að réttlætanlegt væri að fleygja fjármálaliðinu úr landi til þess að tryggja félagslegt réttlæti. Á meðan lykilorð í stefnu Framsóknarflokksins eru atvinna og hagvöxtur, setja talsmenn Vinstri grænna ákveðin spurningarmerki við að lögð sé slík ofuráhersla á efnahagslega uppbyggingu og hafa talað um að hagvöxtur sé ekki eini mælikvarðinn á hvernig til takist í samfélaginu.
Nú bíður þessara ólíku flokka það verkefni að veita hinni nýju og öflugu ríkisstjórn aðhald og andstöðu á komandi kjörtímabili á trúverðugan og samstilltan hátt. Til þess þurfa flokkarnir að stilla saman strengi og útkljá persónulegan ágreining sín á milli, sem hefur magnast upp undanfarin ár og náði hámarki í kosningabaráttunni. Sú aðlögun gæti verið hluti af þeim breytingum sem framundan eru hjá Framsóknarflokknum, en forsvarsmenn hans hafa lýst því yfir að flokkurinn muni nú fara yfir sín mál og freista þess að ná aftur fyrri styrk og stöðu á miðju íslenskra stjórnmála. Til að byrja með geta flokkarnir allavega náð saman yfir því hve illa var farið með þá í eftirmálum kosninganna – að eigin mati að minnsta kosti.
- Hröð en ekki óvænt stefnubreyting í málefnum hælisleitenda - 20. febrúar 2024
- Fjölmiðlaóð þjóð - 22. janúar 2021
- Skiljanleg en hættuleg ritskoðun tæknirisanna - 14. janúar 2021