Hugtakið sjálfstæð utanríkisstefna birtist af og til í skrifum hinna og þessara. Hvað eigi að felast nákvæmlega í slíkri stefnu fylgir hins vegar ekki allaf sögunni. Hér á eftir verða færð rök fyrir því að utanríkisstefna geti aldrei verið sjálfstæð.
Friðsamningarnir í Vestfalíu árið 1648 marka upphaf þess ríkjaskipulags og alþjóðakerfis sem við búum við í dag. Meginprinsipp samninganna urðu að grundvallarreglum alþjóðakerfisins. Meginreglan um fullveldi ríkja og sjálfákvörðunarétt þeirra, reglan um jafnræði ríkja og meginreglan um að ríkjum sé óheimilt að skipta sér af málefnum sem koma í aðalatriðum undir eigin lögsögu ríkis voru festar í sessi með samningunum.
Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan. Á þeim tíma sem Íslendingur voru að fagna því að Ísland skyldi vera komið í hóp sjálfstæða ríkja voru þau ríki sem fyrir voru að gefa eftir hluta af fullveldi sínu. Grunnur var lagður að Bretton Woods stofnunum, Sameinuðu þjóðirnar taka við af Þjóðarbandalaginu auk þess sem Evrópusamruninn hefst fyrir alvöru. Það væri of djúpt í árina tekið að fullyrða að það hrikti í stoðum hins Vestfalíska kerfis. Hins vegar er ljóst að nokkrar breytingar hafa átt sér stað og að ríki eru talsvert veikara fyrirbæri nú á tímum en áður fyrr einkum í þeim skilningi að aðrir gerendur svo sem alþjóðastofnanir og stórfyrirtæki spila stóra rullu í alþjóðastjórnmálum auk þess sem fjarskiptabyltingin hefur minnkað vægi tíma og rúms í samskiptum manna og erfiðara er fyrir ríki að stjórna upplýsingastreymi til almennings.
Í nútímanum er tóm tjara að tala um sjálfstæða utanríkisstefnu. Utanríkisstefna getur ekki verið sjálfstæð. Hún er flókið samspil margvíslegra þátta og er oft á tíðum viðbragð við utanaðkomandi atburðum. Landfræðileg lega, hernaðarstyrkur, efnahagsmáttur, vinaþjóðir, hernaðarlegir bandamenn, aðsteðjandi ógnir, viðskiptahagsmunir, þrýstingur hagsmunahópa, almenningsálit, persónuleg tengsl o.fl. eru þættir sem hafa áhrif á stefnuna. Það er því hrein ímyndun að tala um sjálfstæða utanríkisstefnu. Þeir sem gera það virðast fyrst og fremst pirraðir yfir nánu sambandi Íslands og Bandaríkjanna í gegnum tíðina.
- Fara fyrirætlanir E.C.A. Program gegn samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar? - 24. mars 2010
- …að vera eða vera ekki herloftfar… - 23. mars 2010
- Friðlýsingahugmyndir stangast á við hafréttarsamning SÞ - 19. maí 2009