Landsbankadeild karla fór nokkuð skemmtilega af stað og komu sum lið meira á óvart en önnur. Keflvíkingar lögðu K.R. á útivelli og skagamenn veittu íslandsmeisturum F.H. harða keppni þrátt fyrir að hafa ekki náð í stig. Það er þó synd að segja frá því að áhorfendafjöldi á leikjum 1. umferðarinnar var sá næstminnsti í sögu Landsbankadeildarinnar sem eru vissulega ákveðin vonbrigði fyrir alla viðkomandi. Það er því von að sumarið færi betri tíð með blóm í haga svo íslenskir knattspyrnuunnendur fari nú að drífa sig á völlinn. Á sunnudaginn fer fram heil umferð í karlaboltanum og daginn eftir fer kvennaboltinn að rúlla.
Sumarið hefur alla burði til þess að bjóða upp á lifandi og skemmtilega knattspyrnu og ætla ég benda fólki á nokkra leikmenn sem verður fróðlegt að fylgjast með í sumar.
1. Margrét Lára Viðarsdóttir (Valur) – Margrét Lára hefur fyrir löngu sannað sig sem einhver besta knattspyrnukona landsins. Í haust kvaddi hún landsmenn og gerðist atvinnumaður með Potsdam í Þýskalandi. Mikil eftirsjá var að Margréti þar sem hún bar höfuð og herðar yfir aðra leikmenn síðatliðið sumar þegar kom að markaskorun. Hún er þó komin aftur heim og mun spila með Valsstúlkum. Það verður gaman að sjá hvort hún bætir markamet sitt frá því fyrra. Aðeins einn galli er heimkomu Margrétar því erfitt er að ímynda sér hvernig nokkurt lið getur stöðvað Valsstúlkur í baráttunni um íslandsmeistaratitilinn með hana innanborðs.
2. Kolbeinn Sigþórsson (H.K.) – Án efa mest spennandi leikmaður Landsbankadeildar karla. Kolbeinn var lykilmaður í U-17 ára landsliði Íslands sem náði þeim stórkostlega árangri að komast í lokakeppni Evrópumótsins í knattspyrnu. Sá böggull fylgir þó skammrifi að óvíst er hvort Kolbeinn spili með H.K. mönnum í sumar þar sem fjölmörg evrópsk stórlið sækjast eftir að fá piltinn til sín.
3. Rakel Hönnudóttir (Þór/KA) – Rakel er kannski ekki meðal þekktari leikmanna Landsbankadeildar kvenna en hún hefur vaxið mikið sem leikmaður. Hún skoraði 5 mörk í 4 leikjum í deildarbikarnum og ljóst er að Akureyrarliðið treystir á mörk frá henni ef það á að forðast neðri hluta deildarinnar.
4. Rúnar Kristinsson (K.R.) – Það virðist aðeins vera formsatriði að Rúnar gangi til liðs við K.R.-inga eftir 13 ár í atvinnumennsku. Þrátt fyrir að vera orðinn 37 ára gamall verður Rúnar algjör lykilmaður í tilraun K.R.-inga til þess að hirða íslandsmeistaratitilinn af F.H.-ingum.
5. Anna Björg Björnsdóttir (Fylkir) – Fylkisstúlkur hafa bætt sig töluvert frá síðasta sumri og ekki ólíklegt að konur þar á bæ stefni á að enda í efri hluta deildarinnar. Ef sú verður raunin má búast við því að Anna Björg hafi skorað vel yfir 10 mörk. Anna veitir ungu Fylkisliðinu dýrmæta reynslu enda hefur hún skorað 82 mörk í 66 leikjum í öllum keppnum.
6. Hannes Þór Halldórsson (Fram) – Það mun mikið mæða á þessum 22 ára gamla markverði Framara í sumar. Hann spilaði sinn fyrsta leik í efstu deild síðastliðna helgi og komst vel frá honum. Hannes er mikið efni og það er von Framara að hann verði vandanum vaxinn og forði þeim frá því að taka þátt í fallbaráttu í haust.
Hér er aðeins að líta örfáa af mörgum mjög spennandi leikmönnum sem verður áhugvert að fylgjast með í sumar. Íslensk knattspyrna hefur vaxið stöðugt undanfarin ár og það er því okkar stuðningsmannanna að mæta á völlinn og hvetja okkar lið.
- Fimm til að fylgjast með - 17. ágúst 2011
- Raunveruleika útgáfan af FM (CM) afturkölluð af UEFA - 15. júlí 2011
- Þorláksmessa knattspyrnuaðdáenda - 10. júní 2010