Í nýjasta hefti Economist er fjallað um rannsókn sem sýnir fram á hversu mikilvægur skýr eignarréttur er fyrir verndun náttúrunnar. Á eynni Madagaskar eru miklir skógar sem allir eru nýttir í timbur, eldivið og sem beitiland. Rannsóknin gekk út á það að gera samanburð á sjálfbærni skóganna eftir landssvæðum en þættir eins og íbúafjöldi og eignaréttur eru mismunandi eftir svæðum. Rannsóknin var gerð af sænskum vísindamönnum í samstarfi við heimamenn á eynni.
Á 16 ára tímabili stóð skógurinn á suðurhluta eyjunnar í stað. Megnið af íbúum Madagaskar búa á suðurhluta eyjunnar, fáir búa hins vegar í norður- og vesturhluta hennar. Á norðurhluta eyjunnar uxu skógarnir en á vesturhluta eyjunnar hnignaði hins vegar skógunum. Ekki virðast því vera tengsl á milli fjölda íbúa og ástands skóganna, því bæði norður- og vesturhlutinn eru fámennir á eynni og á suðurhlutanum þar sem flestir búa hnignaðu skógarnir ekki. Megin munurinn á milli fámennu svæðanna á vesturhluta eyjunnar, þar sem skógarnir hnignuðu, og þeim nyðri, er að enginn skýr eignaréttur til staðar í vesturhlutanum. En í 20 km fjarlægð á norðurhluta eyjunnar, þar sem skógarnir uxu, er eignarétturinn hins vegar vel skilgreindur.
Af einhverjum ástæðum eru það einmitt helstu andstæðingar eignarréttarins sem hafa hæst um umhverfismál og verndun náttúrunnar. Málflutningur þeirra byggir gjarnan á þeirri forsendu að einkaframtakinu og kapitalismanum sé ekki treystandi til þess að stýra meðferð og nýtingu náttúruauðlinda. Dæmið á Madagaskar sýnir hins vegar að enn er í góðu gildi hið fornkveðna, það sem allir eigi saman hugsar enginn um.
Á Íslandi höfum við einnig dæmi um endurnýtanlegar auðlindir í sjó sem hafa verið verndaðar á árangursríkan hátt með eignarétti. Eignarétturinn tryggir verndun náttúruauðlinda sem er annað en hægt er að segja um ríkisafskipti þar sem stjórnmálamenn úhluta eftir eigin geðþótta nýttingarréttindum auðlindanna. Af hverju skyldum við vilja treysta vinstri lausnum í umhverfismálum þegar við höfum fyrir framan okkur augljós dæmi um yfirburði frjáls markaðar við verndun og viðhald náttúruauðlinda.
- Einkaframtakið er umhverfisvænna - 10. maí 2007
- Framlagið þitt - 6. desember 2005
- Skotnar snyrtivörur - 6. október 2005