Af ríkjum

Yfirvofandi innrás í Írak hefur valdið blendnum viðbrögðum. Kenningar alþjóðastjórnmála geta að miklu leiti útskýrt deiluna enda er hún klassískt dæmi um baráttu ríkja fyrir ákveðnum skoðunum og gildum. Hver og einn verður að meta hvort vænlegra er að semja við Saddam eða að steypa honum af stóli með valdi.

Þegar Bandaríkjamenn eru spurðir að því hvort steypa eigi Saddam Hussein af stóli svara þeir nær undantekningarlaust játandi. En þegar spurningin snýst um það hvort hætta eigi bandarískum hermönnum í erfiðu stríði þá fjölgar þeim sem eru í vafa. Reyndar hafa fjölmargar kannanir sýnt að almenningur vill frekar að kröftunum sé eytt í baráttu gegn hryðjuverkamönnum áður en ráðist er inn í Írak. Stjórnvöld með Bush í broddi fylkingar reyna nú að sýna almenningi hvers vegna grunnurinn að því að stöðva hryðjuverkamennina sé einmitt að stöðva Saddam og líklega mun þeim takast það að lokum.

Ríki Evrópu hafa nálgast vandamálið á annan hátt. Tony Blair hefur gengið lengst í stuðningi við stefnu Bandaríkjanna og kemur það fáum á óvart. Frakkar hafa líst því yfir að innrás gangi ekki nema að undan fari að minnsta kosti tvær yfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna um hættuna sem stafi af Saddam og í Þýskalandi gætu efasemdir Schröders tryggt Græningjum nægilegt fylgi til að stjórnin haldi velli. Aðrar þjóðir hafa ekki haft sig mikið í frammi enda er þetta að lokum barátta stórveldanna fyrir mismunandi skoðunum og gildum, barátta sem staðið hefur í margar aldir.

Þegar hugmyndin um fullvalda ríki kom fyrst fram í friðarsamningunum eftir Þrjátíu ára stríðið 1648 markaði hún ákveðin tímamót í sögunni. Breytingin fólst í því að andlegt vald var minnkað og þjóðir flykktu sér um ákveðna tungu, sögu og menningu í meira mæli en áður hafði þekkst. Auðvitað var þetta að mestu einskorðað við hinn Vestræna heim enda áttu samningarnir að tryggja stöðugleika í stríðshrjáðri álfu. Við þekkjum öll söguna og þá endalausu uppsprettu deilna sem ríki og þá sérstaklega landamæri og þjóðarbrot innan þeirra hafa haft í för með sér.

Samt sem áður geta flestir tekið undir þá fullyrðingu að ríki sem stjórnunareiningar eru ennþá valdamestu aðilarnir í alþjóðakerfinu. Með kenningum alþjóðastjórnmála um ríki, aðgerðir þeirra og baráttu, má að mörgu leiti útskýra mismunandi afstöðu manna til innrásar í Írak. Kenningarnar gefa einnig góða mynd af þeim deilum sem verða ávallt uppi um heimildir ríkja til að verja eigin landamæri.

Þeir sem aðhyllast realisma vilja nær undantekningalaust losa sig við menn á borð við Saddam enda veldur hann óstöðugleika í heiminum. Öryggi þjóða snýst ekki eingöngu um að verja eigin landamæri heldur að viðhalda valdajafnvægi. Í kalda stríðinu voru fáir stuðningsmenn þess að ráðast á Sovétríkin enda var það ekki eingöngu öryggishætta heldur hefði jafnvægi kerfisins raskast það mikið að betra var að lifa í skugga Bjarnarins. Alþjóðlegir samningar og stofnanir geta aldrei komið ofar hagsmunum ríkja og réttlætanlegt er að ganga gegn þeim ef öryggi ríkisins er í hættu. Bandarísk stjórnvöld hafa tekið þá stefnu að öryggi ríkisins verði ekki tryggt nema Saddam fari frá völdum enda telja þau að hann sé einn helsti stuðningsmaður hryðjuverkahópa í heiminum. Bregðist Sameinuðu þjóðirnar er það beinlínis skylda stjórnarinnar að taka einhliða ákvörðun um valdbeitingu.

Liberalistar eru fjölmennari í Evrópu og meðal fræðimanna en þeir taka nær undantekningalaust hagsmuni alþjóðakerfisins fram yfir hagsmuni einstakra ríkja. Kerfið sem slíkt verður lifandi heild og ríki eru aðeins hluti gerenda en ekki einu gerendurnir líkt og realistar vilja meina. Samningar og ályktanir þjóða eru því grundvöllur þess að Saddam verði steypt af stóli. Einhliða aðgerðir Bandaríkjanna eða annarra ríkja eru þyrnir í þeirra augum. Mannréttindi, lýðræði og friður eru mikilvægustu hugtökin en oft vill brenna við að meira sé lagt upp úr því að tala við harðstjóra með litlum árangri heldur en að bregðast við gegn þeim.

Þriðji hópurinn eru radikalar sem fylgja marxískum kenningum um heiminn. Í augum þeirra eru aðgerðir Vesturlanda gagnvart þriðja heims ríkjum enn eitt dæmið um heimsvaldastefnu og kapítalisma. Innrás í Írak snýst fyrst og fremst um það að vernda olíuhagsmuni og treysta gripið á kúguðum þjóðum. Aldrei er hægt að réttlæta innrás í annað ríki. Saddam hefur í rauninni ekki gert neitt rangt því hans skoðanir má útskýra með tilvísun í þær aðstæður sem við höfum skapað bæði honum og öðrum á svæðinu. Samþykkt Sameinuðu þjóðanna dugir ekki til því alþjóðastofnanir eru allt of oft kúgaðar af stórþjóðunum í krafti fjármagns.

Það er aldrei auðvelt að taka ákvörðun um það að fara í stríð. Mögulegur ávinningur er sjaldnast meiri en væntanlegt tap í efnahagslegum skilningi og ávallt má gera ráð fyrir óvissuþáttum. Realistar og liberalistar sameinast í þeirri afstöðu sinni að bregðast eigi við gegn Saddam en greinir á um hvernig. Radikalar eru hins vegar alfarið á móti því og sjá reyndar ekki að hann hafi gert neitt rangt. Hver og einn verður að vega og meta kosti og galla þess að ráðast á Írak. Stríð ætti alltaf að vera síðasta úrræðið. Því má hins vegar ekki gleyma að grípa verður til þessa úrræðis áður en það verður of seint.

baldvin@deiglan.com'
Latest posts by Baldvin Þór Bergsson (see all)