Framtíðarlandið eru meint grasrótarsamtök sem voru stofnuð á fundi í Austurbæ þann 17. Júní 2006. Hugmyndin á bak við samtökin voru þau að skapa jákvætt afl sem berðist gegn áframhaldandi uppbyggingu áliðnaðar á Íslandi.
Verkfæri samtakana áttu að vera hugmyndir og hugvit, að berjast gegn stóriðju með því að benda á betri leiðir og sniðugri lausnir.
Þetta var styrkur Framtíðarlandsins: Þekkt fólk sem lagði áhersla á að skapa hugmyndabanka auk þess að hvetja þjóðina til að líta í aðrar áttir en til byggingu álvera. Undir þennan hatt gæti fólk úr öllum stéttum og öllum flokkum sameinast við að rækta hugmyndir og koma þeim á framfæri.
Fljótlega kom í ljós að það var alls enginn áhugi hjá þessu fólki fyrir því að virða einhverjar skrítnar “lýðræðislegar” reglur. Fundir haldnir í nafni Framtíðarlandsins einkenndust af því að “elítan” hélt ræður yfir hausamótum fundarmanna. Engar umræður, engir máttu taka til máls nema hinir útvöldu.
Stjórn félagsins var loks löglega kosin á aðalfundi 14 Apríl 2007. Heilum 300 dögum eftir stofnun samtakana nennti elítan að leyfa meðlimum samtakana að kjósa sig í stjórn. Vitleysan hélt svo áfram. Eitt helsta mál þeirra á vormánuðum var að útbúa heimasíðu þar sem neyða átti þingmenn til að merkja sig sem “græna” eða “gráa”. Annaðhvort ertu með okkur, eða á móti okkur!
Á laugardaginn gekk Framtíðarlandið loks of langt. Í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu voru birtar auglýsingar sem spurðu kjósandann hvort hann vildi kjósa “grænt” í formi Vinstri-Grænna, Samfylkingarinnar og Íslandshreyfingarinnar eða “grátt” í formi Sjálfsstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Frjálslynda flokksins.
Þessi auglýsing hefur gjöreytt öllum þeim trúverðugleika sem samtökin gætu mögulega ennþá haft hjá íslensku þjóðinni. Framtíðarlandið er orðið að samansafni marklausra boðbera vinstri stefnu á Íslandi.
Sú staðhæfing auglýsingarinnar að landið verði “grátt” (hvað sem það annars þýðir) ef hægri stjórn situr eftir kosningar er í besta falli einfeldningsleg en í versta falli merkingarlaus þvæla.
Framtíðarlandið virðist halda að kjósendur séu fimm ára leikskólanemar sem þurfa litaspjöld frá gáfaða, vinstrisinnaða listafólkinu til þess að kjósa. “Muna krakkar mínir, kjósa græna litinn annars kemur Grýla og lætur ykkur vinna í Álbræðslu!” Halda þeir að kjósendur séu fábjánar?
Skoðum sína þá kenningu Framtíðarlandsins að það vilji styðja íslenskt hugvit og umhverfisvænan iðnað. Staðreyndin er sú að sá þekkingariðnaður sem hefur orðið til á Íslandi er ekki lítill Sílikondalur eins og svo marga dreymdi um. Á Íslandi hefur hinsvegar myndast lítil Wall Street.
Ef framtíðarlandinu væri alvara með því að styðja uppbyggingu þekkingariðnaðar á Íslandi þá myndi það styðja þá flokka sem hafa í stefnu sinni tillögur frá nefnd um alþjóðlega fjármálamiðstöð á Íslandi, þ.e. Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk.
Hefur það gerst? Nei! Þess í stað er stungið upp á því að kjósendur flykki sér á bak við Ögmund Jónason sem segir að bankafólki í silkifötum sé fórnandi fyrir jöfnuð í landinu!
Upphafleg hugmynd Framtíðarlandsins, að vera aflvaki hugmynda og nýrra framtíðarsýnar fyrir Ísland var góð. Með mikilli vinnu og framlagi góðs fólks hefði hér getað orðið til hugarveita sem hefði þjónað því hlutverki að efla umræður og koma fram með sniðugar lausnir.
Það eina sem stendur eftir tíu mánuðum seinna er hópur úrillra vinstrimanna sem hika ekki við að beita villandi áróðri til að aðstoða vinstri flokkana í baráttunni um völd.
Þetta er orðið aftur til fortíðarland.
- Róleg og aflslöppuð aðgerðaráætlun í loftslagsmálum - 28. júlí 2021
- Í hvernig umhverfi blómstrar nýsköpun? - 8. júní 2021
- Viðskipti á tímum Covid - 20. maí 2021