Þetta helgarnesti er helgað vorinu 2007. Vori, sem virðist engan ætla að svíkja. Hvert hitametið á fætur öðru var slegið í apríl og nú sést annar hver maður hjólandi eins og vindurinn. Túrhestarnir rýna inn um glugga á Laugaveginum og lítil börn sulla á sig ís á Ingólfstorgi. Það færist sannarlega líf í borg og bæi um þessar mundir, og óhætt að segja að það sé meiri hiti í vorinu en stjórnmálaumræðunni fyrir kosningarnar 12. maí. Og það er gott. Enda afskaplega fátt sem ræða þarf um fyrir þessar kosningar hvort eð er. Efnahagsvélin hefur verið og er á blússandi siglingu. Með henni fylgir sjálfbær velferð og batnandi hagur allra sem kjósa að taka þátt. Það mun og halda áfram og málið er dautt.
Nei, Íslendingar geta velflestir gleymt prjáli og stressi hversdagsins og einbeitt sér að sólinni og sumrinu sem framundan er. Garðinum sem þarfnast mosatýnslu og áburðar, gasgrillinu sem þarfnast ryðmálningar og garðdvergnum sem þarfnast sápuþvotts. Að vísu er ástæða til þess að hugsa með hlýju til þess fjölda nemenda sem nú situr í svitakófi inni á bókhlöðum og bakherbergjum og lærir undir próf eða – eins og í tilfelli þessa pistlahöfundar back in the day – spilar Tetris. En flestir ættu að geta drekkt sér í ilmi vorsins nú um helgina og komið sér í sumargírinn.
Það er því ekki úr vegi að nota helgina til að drekka í sig vorkomunni og setja sig endanlega í sumargírinn. Helgarnestið ætlar því að koma með tillögu að uppskrift fyrir góðri vorhelgi þessa fyrstu helgi maímánaðar. Hún er sniðin að höfuðborgarbúum, en pinsippið gildir auðvitað fyrir landsmenn alla.
Í fyrsta lagi: Skella sér í golf síðdegis á föstudegi. Grafa upp gamla golfsettið og hreinsa úr því tómu bjórdósirnar frá því á seinasta móti í fyrrasumar. Vellirnir eru allir að komast í gott horf og flatirnar farnar að grænka. Hringja í félagana eða fjölskylduna og setja alla í gírinn fyrir klukkan fimm. Um kvöldið er upplagt að draga fram gashitarann út úr bílskúrnum og borða úti á palli með fjölskyldunni. Gott íslenskt lambakjöt og ein til tvær flöskur af rauðvíni eru nauðsyn.
Í öðru lagi: Fara í bíltúr út á land á laugardegi. Upplagt fyrir höfuðborgarbúa að renna austur á Þingvöll, Gullfoss og Geysi, enda tíu ár síðan komið var þangað síðast. Ef aðgangur er að góðum jeppa mætti renna inn í Þórsmörk, og ef menn eru á mjög góðum jeppa jafnvel ráðast á Krossána. Rifja upp kynnin við Eden í bakaleiðinni og skella sér gömlu lífsseigu leiktækin sem enn kalla fram góðar minningar úr grunnskólaferðunum. Ef bíllinn er enn ósmurður fyrir sumarið er upplagt að kíkja á fjölskylduhátíð Sjálfstæðismanna í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum, enda mikið um dýrðir. Um kvöldið er grillið tekið fram og borðað úti á palli/svölum á nýjan leik. Aðrar tvær flöskur af rauðvíni að lágmarki.
Í þriðja lagi: Taka til hendinni í garðinum. Ekkert betra við þynnku en að sitja á plastpoka í arfavöxnu gróðurbeðinu og reita gras í rólegheitunum. Stór kókflaska við höndina er þó nauðsynlegur fylgihlutur. Renna í gróðramiðstöðina nokkrum sinnum yfir daginn og kaupa plöntur, mold, áburð, hrífur og aðra fylgihluti sem vantar. Það mætti jafnvel dytta að húsi eða blokk utandyra. Í lok dagsins er upplagt fyrir fjölskylduna að skella sér í sund, og enda daginn á því að borða úti saman og skella sér í bíó. Það sofna hinir eldri værum svefni eftir góða vorhelgi 2007.
Gleðilegt sumar!
- Hálendisfrumvarpið er dautt, lengi lifi hálendisfrumvarpið - 10. júní 2021
- Gamalt vín á nýjum belgjum - 7. apríl 2021
- Borgarlína á toppnum - 20. febrúar 2021