Er ekki bara nafn á skemmtilegu leikriti heldur raunhæft markmið, raunhæft markmið fyrir næstu eina til tvær ríkisstjórnir. Staða Íslands í efnhags- og atvinnumálum, grunndvallarstoðum hvers samfélags, er þannig að við getum raunverulega stefnt að því að verða best í heimi.
Hér á að vera besta grunnmenntakerfi í heimi, besta heilbrigðiskerfi í heimi, mesti kaupmáttur, hæsti meðalaldur, lægsta glæpatíðni, hæsta menntunarstig og síðast en ekki síst mesta hamingja. Ísland er nú í öðru sæti á lífskjaralista sameinuðu þjóðanna (the Human Development Index) sem mælir lífslíkur, lestrarkunnáttu, menntun og lífskjör alls staðar í heiminum.
Grunnurinn að því að verða best í heimi hefur nú þegar verið lagður en næsta stóra skref mun verða byggt á menntun, vísindum og rannsóknum.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur á undanförnum árum staðið fyrir stórfelldum breytingum á menntakerfi þjóðarinnar og þá sérstaklega háskólastiginu. Þegar fyrstu rammalögin um íslenska háskóla voru sett árið 1997 voru 8.381 einstaklingar skráðir í nám við íslenska háskóla, þar af 5549 við Háskóla Íslands. Nú áratug síðar hefur þessi fjöldi meira en tvöfaldast. Síðastliðinn vetur voru yfir 16.500 við nám í íslenskum háskólum og á þriðja þúsund við erlenda háskóla. Það er hollt að hafa hugfast í þessu sambandi að í meðal fæðingarárgangi eru tæplega 4.500 einstaklingar.
Við sjáum þessa breytingu endurspeglast í þeim framlögum sem varið er til fræðslumála á Íslandi. Samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar voru útgjöld til fræðslumála 6,56% af vergri landsframleiðslu árið 1998 en þetta hlutfall er komið upp í 7,56% árið 2005. Enginn önnur þjóð í heimi ver hærra hlutfalli af landsframleiðslu til menntunar.
Næsta framfaraskref á þessu sviði verður að stíga á grunn- og menntaskólastigi. Líkt og á háskólastiginu verður að stuðla þar að aukinni fjölbreytni, samkeppni og faglegum metnaði. Nemendur, foreldrar, kennarar og skólastjórnendur eiga að hafa frelsi til að velja, frelsi til að velja námsleiðir, kennsluhætti, rekstrarform og svo framvegis. Þetta verður ekki gert nema með því að auka sjálfstæði og frjálsræði skólanna.
Gríðarlega vel menntuð þjóð á að geta staðið undir öðru eins hagvaxtarskeiði á næstu áratugum og við höfum séð á síðastliðnum áratug.
Við vitum það öll hvílík forréttindi það væru ef persónulega hvert og eitt okkar ætti möguleika á því að vera „best í heimi“ í einhverju. Saman sem þjóð er þetta hins vegar raunverulegur möguleiki og við eigum ekki að sætta okkur við neitt minna. Næsta skref yrði svo að vera í leiðandi forystuhlutverki á heimsvísu með kerfið okkar að vopni og með þá von í brjósti að það gæti nýst fleiri þjóðum til að komast nær okkur í lífskjörum.
- Farsæld barna - 28. apríl 2021
- Barnavernd og efnahagskreppur - 23. mars 2021
- 165 lögverndaðar starfsgreinar - 25. nóvember 2020