Það þarf ekki að hafa mörg orð um stórbrunann í miðbænum á miðvikudaginn enda eflaust allir landsmenn fylgst með honum. Eyðileggingin var mikil og ljóst að rífa þarf nokkur hús sem gjöreyðilögðust, m.a. húsið sem skemmtistaðurinn Pravda var í. Í gær lýsti Vilhjálmur Vilhjálmsson borgarstjóri því svo yfir að Reykjavíkurborg hefði áhuga á því að kaupa upp húsin á svæðinu, aðallega í þeim tilgangi að tryggja hraða uppbyggingu á svæðinu og til að núverandi götumynd myndi halda sér.
Spurningin er hvernig eigi að standa að enduruppbyggingu á svæðinu. Af hverju eru allir svona fastir í því að viðhalda þessari gömlu götumynd? Að mati pistlahöfundar er þetta gott tækifæri til að blása lífi í steingelt Lækjartorg og lífga hressilega upp á götumyndina á þessu svæði. Hús héraðsdóms og strætó húsið, ásamt þeim byggingum sem brunnu girtu af Lækjartorgið og að mati pistlahöfundar eru t.am. þær fyrrnefndu ákaflega misheppnaðar og ýkja upp kalt viðmót Lækjartorgs.
Lækjartorg hefur nefnilega aldrei virkað almennilega sem torg og sem dæmi þegar gott er veður er Austurvöllur sneisafullur af fólki en Lækjartorgið ávallt galtómt. Vissulega má benda á það að lítið skjól er á Lækjartorgi og veðurfarslegar aðstæður þar því ekki upp á það besta. Hins vegar má eflaust reyna að bæta úr því með t.a.m. frekari gróðursetningu hárra trjáa við Lækjargötuna.
Við uppbyggingu á Íslandi virðist sá hugsunarháttur vera ríkjandi að viðhalda upprunalegu útliti sem allra lengst og best. Í því sambandi má einnig nefna fyrirhugaða uppbyggingu á neðanverðum Laugavegi en mikil barátta hefur staðið um það hvort rífa megi gömul timburhús á svæðinu til að rýma fyrir nýbyggingum. Þessi kofahugsunarháttur mörbúans er alltof ríkjandi í þjóðarsálinni og endurspeglar óttann við breytingar, hvers eðlis sem þær eru. Líklega er þetta ótti af sama tagi og kemur árlega í veg fyrir að sala áfengis verði leyfð í matvöruverslunum, en það er önnur saga.
Að mati pistlahöfundar er þetta einfaldlega kjörið tækifæri til að færa götumynd miðborgar Reykjavíkur nær nútímanum. Nota á tækifærið og hugsa stórt og hátt. Lífga upp á miðbæinn með djörfum og hugmyndaríkum byggingum og hressa upp á Lækjartorg í leiðinni. Miðbærinn þarf framúrstefnulegar byggingar sem vekja athygli út fyrir landsteinana og eru þess verðar að berja augum eigi menn leið um Reykjavík. Til að friða friðunarsinna má vel ímynda sér gamalt útlit á neðri hæðum í bland við nýtt ofar enda getur slík blanda gengið upp samanber vel heppnaðar nýbyggingar við Alþingishúsið.
Fyrir hverjar borgarstjórnarkosningar tala allir flokkar um nauðsyn þess að færa meira líf í miðborgina. Nú er tækifærið til að standa við stóru orðin. Borgin þarf á því að halda.
- Eru skuldir heimilanna ofmetnar um 70 milljarða? - 23. febrúar 2009
- Augun full af ryki og nefið af skít! - 8. janúar 2009
- Reið framtíð? - 6. desember 2008