Arthúr Björgvin Bollason, fréttaritari Ríkisútvarpsins í Þýskalandi, flutti landsmönnum apistil um efnahagsmál í Þýskalandi í fréttum útvarps á dögunum. Trúlega æsir umfjöllun um fréttir sem þessar lesendur Deiglunnar ekki neitt gífurlega upp. Hafandi búið í Þýskalandi eitt sinn lagði ég þó við hlustir og hlustaði á Artúr Björgvin lýsa helstu hagstærðum í Þýskalandi, t.d. auknum útflutningi vinnuvéla og aukinni eftirspurn eftir verkfræðingum.
Þessi litli pistill Artúrs er þó ef til vill ekki jafn óspenanndi og hann kynni að hljóma. Þeir atburðir sem hann lýsir eru hluti af þeim miklu breytingum sem eiga sér stað í Þýskalandi núna. Þar er allt að glæðast og hjólin farin að snúast. Það sem svo mestu skiptir er að atvinnuleysi, sem hefur lengi verið landlægt mein í þýsku þjóðlífi, er að minnka.
Í mörg ár hafa þýsk stjórnmál snúist um spurninguna hvernig hægt verði að minnka atvinnuleysi og fyrir kosningar hafa stjórnmálamenn þar í landi ekki rætt margt annað. Enda er atvinnuleysi ekki afmarkað vandamál heldur hefur það áhrif um allt samfélagið. Það þýðir að tækifæri fólks eru færri og hvatinn til þess að taka áhættu og skapa eitthvað nýtt í atvinnulífinu er minni en ella.
Ein stærsta ástæða þess hve atvinnuleysi hefur verið mikið vandamál er hve mikil og íþyngjandi yfirbyggingin í atvinnulífinu þar er. Nú hefur hins vegar verið ráðist í ákveðnar breytingar sem eru að skila sér. Það er þörf áminning um að breytingar í frjálsræðisátt í efnahagsmálum snúast ekki eingöngu um krónur og aura heldur hafa þau áhrif á þjóðfélagið allt.
Nú eru kosningar framundan hér á landi. Það átta sig kannski ekki allir á því hve það breytir umræðugrundvellinum ótrúlega að hér séu ekki stærstu verkefnin í stjórnmálunum framundan að takast á við að rífa upp efnahagslífið eða takast á við atvinnuleysi. Þessi mál hafa verið leyst og fyrir vikið höfum við tækifæri til að einbeita okkur að öðrum málum. Þessu sést merki í umræðunum fyrir kosningarnar núna. Þar eru aðalmálin annars eðlis. Þau snúast um framtíðina og nýsköpun og hvernig samfélagi við viljum búa í. Svörin sem flokkarnir gefa upp og kostirnir sem þeir bjóða upp á eru eflaust misgáfuleg. Aðalatriðið er að við sjáum það í raun á kosningabaráttunni og baráttumálunum þar hve vel við stöndum. Framtíðin er björt.
- Hröð en ekki óvænt stefnubreyting í málefnum hælisleitenda - 20. febrúar 2024
- Fjölmiðlaóð þjóð - 22. janúar 2021
- Skiljanleg en hættuleg ritskoðun tæknirisanna - 14. janúar 2021