Þeim, sem vilja halda því fram að efnahagsástand á Íslandi sé eitthvað annað en öfundsvert, var reitt enn eitt kjaftshöggið í gær. Þá kom út skýrsla Hagstofunnar sem sýndi fram á að kaupmáttur heimilanna hefur vaxið um næstum sextíu prósent á árunum 1994 til 2005. Að meðaltali hefur hagur heimilanna vænkast um 4,2% á ári.
Fyrir flesta Íslendinga gera svona tölur lítið annað en að staðfesta það sem þeir vita nú þegar. Sem betur fer er það nefnilega svo að langflestir Íslendingar hafa fundið velmegun síðustu ára á eigin skinni og njóta í dag betri kjara en nokkru sinni fyrr. Og það sem meira er; rannsóknir sýna einnig, svo ekki verður um villst, að hagsældin í íslensku samfélagi dreifist betur og jafnar til fólks heldur en víðast hvar annars staðar í heiminum.
Tölurnar tala sínu máli – og þótt þær staðfesti fyrir flestum þá mynd sem blasir við þeim á hverjum degi – þá hljóta þær að koma þeim á óvart sem ekki hafa enn vanið sig á að taka málflutningi vinstri flokkanna með tilhlýðilegum fyrirvara. Þeir höfðu nefnilega talið sér trú um það í aðdraganda kosninga að hægt væri að sannfæra fólk um tvennt: að hagstjórn á Íslandi væri í molum og að íslenskt samfélag einkenndist í auknum mæli af óréttlæti og misskiptingu.
Stjórnarandstaðan hefur lagt fram þessum hugarburði sínum til stuðnings ýmsan heimagerðan útreikninginn. Og þegar reikningslistinni og raunveruleikanum ber ekki saman – þá hefur stjórnarandstaðan kosið að láta útreikninga sína njóta vafans fremur en raunveruleikann. Tölur frá áreiðanlegri heimildum hafa hins vegar hrakið þessa kenningar og því stendur vart steinn yfir steini í upprunalegri hernaðaráætlun stjórnarandstöðunnar.
Nýjasta útspil hennar snýst um að einblína á þá staðreynd að vextir á Íslandi eru háir og verðbólga hefur einnig verið í hærri kantinum, svona miðað við það sem menn hafan áð að venjast í stjórnartíð síðustu ríkisstjórna. Því er haldið fram að þetta endurspegli hagstjórnarmistök – og búið er að láta Alþýðusamband Íslands reikna sig niður á að meðalheimili í landinu hafi orðið fyrir hálfrar milljónar króna skerðingu á ráðstöfunarfé á ári vegna þessa.
Hér er stjórnarandstaðan bersýnilega komin í nauðvörn. Ekkert gengur að sannfæra fólk um að það hafi það skítt og ekkert bendir til þess að sögurnar um ójöfnuðinn séu sannar. Þess vegna er leitað logandi ljósi að hagstærðum sem einar og sér gætu bent til vandamála í hagkerfinu og því haldið fram að þær sanni kenninguna um að raunveruleikinn sé rangur en hryllingssögur stjórnarandstöðunnar um hagkerfið sannar.
Að meta ástand hagkerfisins út frá einni eða tveimur hagstærðum er álíka gáfulegt eins og ef læknir mældi púlsinn á spretthlaupara eftir hundrað metra hlaup og drægi svo þá ályktun að viðkomandi væri í stórhættu, enda geti hjartað ekki þolað síkt álag til lengdar, og sendi hann beint á sjúkrahús. Ætli sjúkdómsgreining stjórnarandstöðunnar sé ekki álíka góð – og remedíurnar verði heilsusamlegar í samræmi við það.
Staðreyndin er sú að einstakar hagtölur verða skoðast í samhengi við aðrar. Hækkun verðlags segir enga sögu ef ekki fylgja upplýsingar um breytingar á ráðstöfunarfé almennings, og vaxtastigið þarf að skoðast í samhengi við virkni í efnahagslífinu. Helsta markmið efnahagsstjórnar að vera vöxtur kaupmáttar meðal almennings. Tölur Hagstofunnar sýna, svo ekki verður um villst, að hér á Íslandi er langt frá því að ríkisstjórnin hafi gerst sek um hagstjórnarmistök – nær lagi væri að kalla árangur hennar hagstjórnarafrek.
Íslendingar hafa nefnilega löngum borið ógæfu til þess að glutra niður hagvaxtarskeiðum með óskynsamlegri hagstjórn. Vera má að forystumenn vinstri flokkanna haldi að það sé náttúrulögmál að hér klúðrist alltaf allt í efnahagsmálum – en það má benda vinstri flokkunum á að þetta náttúrulögmál hefur algjörlega legið í láginni síðustu sextán árin eða svo – svona rétt á meðan hér hafa ekki setið við völd vinstri stjórnir.
- Tilviljanasúpan í Wuhan - 27. júní 2021
- Verður heimsfaraldurinn fyrsti kaflinn ímun stærri sögu? - 20. júní 2021
- Þinglokaþokumeinlokan - 13. júní 2021