„Ef stimpilskylt skjal er ekki stimplað innan tilskilins frests skulu þeir, sem hafa á hendi stimplun skjala gera stimpilbeiðanda að greiða stimpilgjaldsálag … Álag þetta má innheimta með lögtaki.“
Fyrir þá sem ekki eru innvígðir og innmúraðir í samfélag lögfræðinga er oft kímlegt að lesa lögfræðitexta, en ofangreind klausa úr lögum um stimpilgjald er þó með þeim skrautlegri. Maður sér fyrir sér lítinn, leiðinlegan mann, sem situr í dimmu herbergi og stimplar ógrynnin öll af skjölum, og refsar fyrir stimpildrátt með lögtaki. Lítill maður með stóran stimpil.
Stimpilgjöldum var upphaflega ætlað að standa straum af kostnaði sem til fellur af ýmiss konar pappírsflóði. Hér verður einungis fjallað um stimpilgjöld af lánum, sem eru þau reiknuð sem 1,5% skattur á sérhvert skuldabréfalán sem stofnað er til. Upphaflegur tilgangur stimpilgjalda er skynsamlegur. Ef viðskipti milli manna valda kostnaði hjá ríkinu, sem nauðsynlegur er til að vernda eignarrétt og viðskiptaumhverfi, eru það neikvæð ytri áhrif sem rétt og hagkvæmt er að skattleggja.
En stimpilgjöldin virka ekki þannig. Í fyrsta lagi falla þau ekki jafnt á alla þá sem valda slíkum kostnaði. Það er ekki hundraðfalt dýrara að fyrir ríkið að skrásetja skuldabréfalán upp á tíu milljónir en upp á hundrað þúsund, og því ætti ekki að rukka hundraðfalt stimpilgjald fyrir slíkt lán.
Í öðru lagi myndast slíkur kostnaður í dag ekki nema að litlu leyti sem „jaðarkostnaður“, en að mestu leyti sem fastur kostnaður. Með öðrum orðum felst megnið af kostnaðinum í tölvukerfum, regluverki og starfsmannahaldi sem nauðsynlegt er til að geta haldið utanum skuldabréf yfirleitt. Það kostar því ekki mikið meira að stimpla hundrað þúsund lánasamninga á ári en tíu þúsund. Í slíku umhverfi er ekki rétt að líta á kostnað ríkisins sem neikvæð ytri áhrif af hverjum lánasamningi fyrir sig, heldur óumflýjanlegan kostnað ríkisins við að reka skilvirkt fjármálaumhverfi. Því er ekki um neikvæð ytri áhrif einstakra lánasamninga að ræða og skattlagning ætti að taka mið af því.
Í þriðja lagi eru stimpilgjöldin allt of há. Tekjur ríkissjóðs af stimpilgjöldum eru nokkrir milljarðar á ári. Utanumhald um útgáfu skuldabréfa er ekki ókeypis, en það er er fráleitt að ætla að kostnaðurinn sé af þessari stærðargráðu.
Eftir stendur því að stimpilgjöld eru skattur á fólk sem þarf að fá lán. Slíkur skattur er undarlegur að tvennu leyti. Í fyrsta lagi letur hann fólk til að taka lán til að kaupa sér húsnæði, stofna fyrirtæki eða gera aðra hluti sem það getur ekki fjármagnað með núverandi eignum sínum. Skilvirkur fjármagnsmarkaður er einn af grundvöllum hagvaxtar, og skattar sem auka kostnað fólks við að eiga viðskipti eru yfirleitt alltaf neikvæðir.
Í öðru lagi er það yfirleitt svo að ríki skattleggja þá sem geta staðið undir skattinum. Þeir sem eiga peninga eru skattlagðir svo þeir sem eiga ekki peninga geti engu að síður notið löggæslu, menntunar og heilbrigðisþjónustu. Skuldaskattar eru alger andstæða þess: Þeir leggjast á fólk sem ekki á peninga.
En rök gegn skuldasköttum almennt blikna þó við hliðina á rökum gegn stimpilgjöldum. Því það er ekki nóg með það að stimpilgjöld dragi úr hvatanum til að fá lán og fjárfesta, og leggist á fólk sem vantar peninga frekar en fólk sem á þá. Stimpilgjöld leggjast líka í óhóflegum mæli á fólk sem vill fá lán í stuttan tíma, því þau eru greidd einu sinni fyrir hvern samning frekar en árlega af höfuðstól. Þetta á til dæmis við um þá sem vilja geta keypt eina íbúð áður en þeir selja aðra, eða um þá sem sjá góð viðskiptatækifæri sem þarfnast skammtímafjármögnunar. Slíkir aðilar neyðast til að taka í staðinn yfirdráttarlán á himinháum vöxtum – eða hætta alfarið við að taka lán.
Til að kóróna allt saman draga stimpilgjöldin líka úr möguleika fólks til að greiða upp eitt lán með öðru – því ef fólk endurfjármagnar þarf það að greiða stimpilgjaldið alveg upp á nýtt. Þar með draga þau úr samkeppni á fjármálamarkaði, draga úr hvata fjármálafyrirtækja (og Íbúðalánasjóðs) til að hagræða, og auka lántökukostnað – umfram þá upphæð sem gengur til ríkissjóðs.
Stimpilgjaldið stingur enn meira í augun þar sem svo margir aðrir skattar á Íslandi eru skynsamlega hannaðir. Hér er auðvelt að fjárfesta, tekjuskattskerfið er einfalt, fjármagnstekjuskattur er lágur, stofnun fyrirtækja er ódýr og skattskil þeirra einfaldari en í mörgum öðrum löndum. Auðvitað er ekki allt fullkomið, en miklar og góðar breytingar hafa þó átt sér stað á undanförnum árum. Það er því löngu kominn tími til að afnema þennan vitlausa skatt. Ef markmiðið er að skattleggja fólk sem á ekki nóg af peningum, væri árlegur „skuldaskattur“ gáfulegri en stimpilgjaldið sem lagt er á lán í dag. Ekki gáfulegur, en gáfulegri.
- Kostirnir við erlent eignarhald - 9. júní 2020
- Ertu til í að gera mér greiða? - 13. febrúar 2020
- Bambustannburstar til bjargar? - 20. janúar 2020