Hollusta kaffi og sígó

Í nýlegri rannsókn á reykinga- og kaffidrykkjuvenjum Parkinsons sjúklinga og ættmenna þeirra kemur fram að þessir tveir ósiðir sem hafa staðfest slæm áhrif á heilsuna virðast engu að síður draga úr líkum á því að Parkinson sjúkdómurinn brjótist fram.

Parkinsons er sjúkdómur sem leggst á fólk þegar það tekur að eldast, og er meðalaldur þeirra sem greinast um 60 ár. Einkenni hans koma fram við það að framleiðsla boðefnisins dópamíns minnkar í heilanum. Allir verða fyrir því að dópamínframleiðsla minnkar með aldrinum, og sýnt hefur verið fram á að ef við yrðum 170 ára er líklegt að allir væru með einkenni Parkinsons sjúkdómsins. Hinsvegar gerast þessar breytingar hraðar í þeim sem greinast með sjúkdóminn, sem koma í fyrst fram í stirðleika í líkama, og skjálfta í útlimum en ágerist síðan mishratt þaðan í frá.

Langt er síðan vísindamönnum varð ljóst að ýmislegt bendir til þess að reykingafólk sé ólíklegra til að þróa með sér þennan sjúkdóm heldur en þeir sem ekki reykja, án þess þó að staðfestar sannanir liggi fyrir því af hverju það er. Rannsóknir á Parkinsons sjúkdómnum hingað til hafa þó að langmestum hluta verið gerðar á þátttakendum sem hafa verið óskyldir og því ekki verið hægt að taka erfðafræðileg líkindi með í reikninginn.

Í niðurstöðum nýlegrar rannsóknar þar sem að rannsakaðar voru reykinga- og kaffidrykkjuvenjur 356 Parkinsons sjúklinga og 317 náinna ættingja þeirra kemur í ljós að þessir tveir ósiðir sem hafa staðfest slæm áhrif á heilsuna, sér í lagi reykingarnar, virðast engu að síður draga úr líkum á því að Parkinson sjúkdómurinn brjótist fram.

Þannig var um 40% ólíklegra að Parkinsons sjúklingarnir hefðu reykt heldur en heilbrigðir ættingjar þeirra, og 50% ólíklegra að þeir væru langtímareykingamenn.
Af heilbrigðu ættingjunum voru um 40% sem að drukku meira en þrjá bolla af kaffi á dag að meðaltali, meðan að Parkinsons sjúklingarnir voru 40% ólíklegri til að drekka svo mikið magn af kaffi.

Ekki er með vissu vitað hvað það er sem veldur þessu en vísindamenn telja jafnvel að hér sé um einhvern tengsl reykinga og kaffineyslu við boðefnið dópamín að ræða. Þannig er að dauði fruma í heilanum sem framleiða dópamín virðist valda framgangi Parkinsons sjúkdómsins, en bæði reykingar og kaffidrykkja geta einmitt hækkað dópamínmagn í heila. Vísindamenn hafa líka fundið út að eitthvert efni í tóbaksreyk geti hækkað magn dópamíns með því að blokka framleiðslu efna sem að eitra fyrir dópamínframleiðandi frumum.

Hinsvegar hefur líka verið bent á þann möguleika að sambandið milli reykinga og Parkinsons sé einfaldlega spurning um orsök og afleiðingu. Þannig séu heilar sumra sem þróa með sér Parkinsons sjúkdóminn þannig líffræðilega úr garði gerðir að þeir eru ólíklegri til að ánetjast sígarettum.

Skýrt skal þó tekið fram að niðurstöður þessar ættu ekki að gefa neinum afsökun fyrir því að byrja reykja – eða halda áfram að reykja, þar sem að augljósar og staðfestar afleiðingar reykinga, svosem lungnakrabbamein eða hjartaáfall skáki algjörlega þeirri vörn gegn Parkinsons sem mögulega gæti falist í því að reykja.

Heimildir:
Vísindavefurinn
New Scientist

Latest posts by Ásdís Rósa Þórðardóttir (see all)

Ásdís Rósa Þórðardóttir skrifar

Ásdís Rósa hóf að skrifa á Deigluna í janúar 2003.