Blaðamaður Menningardeildar Deiglunnar brá sér um páskahelgina á rokkhátíð alþýðunnar, ásamt fjölmörgum öðrum 101-költurum. Hann sér ekki eftir þeirri ákvörðun.
Það er vart hægt að hugsa sér fullkomnari stað fyrir svona staðbundna rokkhátíð en Ísafjörð, þennan fámenna bæ sem hefur einhvern vegin alla burði til að vera svo miklu stærri.
Og um þessa varð Ísafjörður svo sannarlega miklu stærri en venjulega. Einn heimildarmaður blaðamanns framkvæmdi einfalda könnun á laugardagskvöldið og komst að því að 60% bíla í bænum voru ólæstir. Í einföldu máli þýðir þetta að 40% þeirra sem staðsettir voru fyrir vestan þetta kvöld voru Reykvíkingar.
Hinn opni andi hátíðarinnar gerði það að verkum áhorfendaskarinn var fjölbreyttari en maður á að venjast á íslenskum tónleikum. Leikskólabörn og unglingar skemmtu sér innan um ferðamenn, þingmenn og þingmannsefni; miðbæjarrottur sötruðu bjórinn við hlið brottfluttra Vestfirðinga, heimamanna af öllum þjóðernum og skíðalúða sem staddir voru í bænum út af skíðavikunni.
<%image(nosfell.JPG|97|174|nosfell.JPG)%>Sambærilega kaótísk skítsófrenía einkenndi tónlistina sjálfa. Hátíðin hófst kl. 19 á föstudegi, með tveimur ungum vestfirskum hljómsveitum, Kristina Logos og Xenophopia. Beint í kjölfarið fylgdi franski listamaðurinn Labyala Nosfell. Fyrsta upplifunin af Nosfell á sviðinu var sú að þar væri á ferðinni tilgerðarlegur listavitleysingur sem væri of költaður til að eiga samskipti við nokkuð annað að en sitt eigið sjálf. Hins vegar vann tónlist hans á frá lagi til lags og raddbeiting hans kom sífellt á óvart. Labyala Nosfell virtist þannig geta sungið allar nótur á píanóninu út um munninn á sér og að auki hermt eftir góðum slatta af trommusettinu líka. Á endanum fóru stælarnir, á borð við þá að standa á einum fæti, klæðast engum sokkum, eða að dansa spastískan róbóta-múmíu-dans ber ofan, að virka furðulega einlægir og maður saknaði þess helst að tónleikarnir hafi ekki verið lengri.
<%image(peturben.JPG|117|157|peturben.JPG)%>Gítarleikarinn Pétur Ben stóð sig einnig með stakri prýði. Hans frammistaða þótti undirrituðum raunar bera af á föstudagskvöldinu, allavega hvað fagmennsku og jákvætt viðmót varðar. Að öðrum böndum þetta kvöld má nefna strákana í Slugs, sem léku villt pönk, líklegast aðeins of villt því hljómsveitin datt út af sporinu í nokkur skipti. Að vanda tryllti Mínus svo liðið og uppskar mjög einlæga tilraun til uppklapps fyrir vikið. En dagskráin verður víst að ganga sinn gang og ekkert varð úr því.
Vonbrigði hátíðarinnar hljóta teljast Blonde Redhead. Þegar plötusnúðurinn Pres Bongo hafði lokið við sitt prógram, tók við 40 mínútna sándtjekk hjá þremenningunum sem vart verður flokkað sem annað en annað sándtjekk. Hljómsveitarmeðlimirnir hristu hausinn eða bókstaflega gripu um eyru sér yfir hljóðkerfi Ríkisskipageymslunnar meðan þau léku 2-3 lög, báðust síðan afsökunar á því að geta ekki spilað tónlist sína og kvöddu. Til að gæta allrar sanngirni þá er það auðvitað á ábyrgð tónleikahaldarana að svona hlutir séu í lagi og tilgangslaust er að bjóða stærri nöfnum á svona hátíðir ef ekki er hægt að þjónusta þær sæmilega. Engu að síður fanst mörgum að hljómsveitin hefði kannski mátt reyna að gera gott úr aðstæðum og spila nokkur einföld lög, með sama hljóðkerfi og allir hinir listamennirnir þurftu að búa við.
<%image(janmayen.JPG|218|173|janmayen.JPG)%>Á laugardaginn byrjaði gleðinn fyrr eða klukkan 15, með Pollapönki, frá tveimur fyrrverandi hljómsveitarmeðlimum Botnleðju sem kættu krakkana með líflegri sviðsframkomu. Hljómsveitin Jan Mayen spilaði fyrst á hátíðinni í fyrra og segir á heimasíðu hátíðarinnar að „[r]étt eins og þeim sem fara úr skónum og sulla ekki niður er boðið aftur í partý, þótti aðstandendum ekki annað hægt en að bjóða þessum fyrirmyndardrengjum aftur á hátíðina.“ Ef marka má frammistöðu þeirra nú má búast við þeim aftur að ári liðnu en lífsgleði drengjana geislaði svo sannarlega gegnum þynnkuna og smitaðist út í salinn.
Dagskráin rann svo áfram af krafti, þónokkrir heimamenn stigu á svið við góðan fögnuð: Þar á meðal Þröstur Jóhannesson, kvennahljómsveitin Skriðurnar og Grjóthrun í Hólshreppi, með bæjarstjórann og lækninn fremsta í flokki.
Hljómsveitin Ampop komst mjög vel frá sínu prógrami. Þá vakti Bloodgroup frá Egilstöðum verðskuldaða athygli. Bloodgroup spilar velútfært rafpopp og kom profesíonalismi þeirra og almennur kúlleiki undirrituðum og öðrum í opna skjöldu.
Að sjálfsögðu stóð Elvis hátíðarinnar, Mugison, fullkomlega fyrir sínu og voru tónleikar hans í hugum margra án efa andlegur hápunktur hátíðarinnar. Seinastir á svið voru svo HAM sem léku til klukkan rúmlega tvö, og héldu hita í mannskapnum.
Raunar hélt veislan áfram á sunnudag í Bolungarvík en blaðamaður Deiglunnar þurfti að halda heim á leið. Á heildina er litið var tónleikahátíðin Aldrei fór ég suður 2007 frábær upplifun. Smávægilegir hlutir fóru þó kannski í taugarnar á blaðamanninum og öðrum það er til dæmis undarlegt að heimilt hafi verið að koma með eigið áfengi og drekka á staðnum en að bjór sem seldur var á staðnum hafi þurft að drekka á lokuðum svæðum fjarri sviðinu. En líklegast er íslenskri löggjöf þar að kenna fremur en hátíðarhöldurum.
Almennt séð verður fróðlegt að sjá hvert hátíðin sé að stefna á næstu árum, hvort hún muni verða enn stærri eða hvort ákveðinni mettun sé náð. Raunar held ég að gistipláss á Ísafirði sé farið að verða takmarkandi þáttur á hátíðarhaldið, en að mér vitandi var nánast hver einasti beddi, svefnsófi eða gólfsentimeter tekinn undir hrjótandi gest að sunnan um þessa helgi.
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021