Um þessar mundir deila landeigendur á áhrifasvæði Kárahnjúkavirkjunar og Landsvirkjun um verðmæti vatnsréttinda og hvert sanngjarnt endurgjald ætti að vera. Eðlilegt er að aðilar málsins hafi mismunandi skoðun á réttu verði. Það sem er óeðlilegt er að landeigendur áttu í raun ekki val um hvort þeir vildu selja vatnsréttindin og eru neyddir til að fá úrlausn um verð eftir að framkvæmdir hófust.
Á frjálsum markaði getur enginn einn aðili neytt annan aðila til að selja eitthvað. Ef vilji fyrir viðskiptum er til staðar verða aðilar að auki að ná samkomulagi um verð. Ríkisvaldið hagar sé nokkuð á annan hátt þegar kemur að viðskiptum við landeigendur. Ef landeigendur vilja ekki selja getur ríkið gripið til þvingunarráðstafana og tekið landið eignarnámi gegn greiðslu samkvæmt úrskurði matsnefndar eignarnámsbóta.
Þegar kemur að virkjunum og sölu raforku lætur ríkið ekki þessa yfirburðarstöðu sína nægja. Ríkið, í hlutverki löggjafans, setur lög um umhverfisvernd og náttúrunýtingu. Í hlutverki framkvæmdavaldsins tekur ríkið ákvörðun um virkjun og er þá á sama tíma eftirlitsaðilinn og virkjunaraðilinn. Ofan á þetta allt saman leggst pólitísk stefna um byggðarmál og atvinnumál auk fullvissu stjórnmálamanna um að best sé að nýta raforkuna í áliðnaði. Ríkið er þannig ekki bara beggja megin borðsins heldur situr við allar hliðar þess.
En þetta er ekki allt. Eftir að stjórnmálamenn hafa ákveðið að reisa skuli álver er ýmislegt gert til að fá álframleiðendur til landsins með tilboðum um skattaívilnanir, lóðaúthlutanir og raforkukaup. Í þessu samhengi má benda á að sjárvarútveginum, einn atvinnuvega, er gert að greiða sérstakan auðlindaskatt til ríkisins. Það er óásættanlegt að ríkið skuli gera upp á milli atvinnugreina á þennan hátt. Stjórnvöld eru ekki bær til að meta hvaða atvinnugrein eða starfsemi sé hagkvæmi eða skynsamleg. Krafa um stóriðjustopp af hálfu ríkisins er alveg jafnvitlaus og krafa ríkisins um meiri stóriðju. Afskipti stjórnmálamanna af umhverfinu og einstökum atvinnugreinum minnkar ekkert við tilviljunarkennt stopp hér og einstaka start þar.
Stóriðja er ekkert frábrugðin, verri né betri en hver önnur hagkvæm atvinnugrein. Aðalatriðið er að fyrirtæki séu vel rekin og skili arði. Skiptir þá engu hvort um er að ræða rekstur einyrkja eða stóriðju. Fólk á að ráða sér sjálft án afskipta stjórnvalda. Hið opinbera á ekki að skemma fyrir og trufla einstaklinga og fyrirtæki í því að koma upp frjálsum markaði á öllum sviðum þjóðlífsins.
Mikil verðmæti felast í náttúrunni en verðgildið getur verið mismunandi hjá fólki. Hjá einum landeiganda geta verðmætin falist í möguleikum á skógrækt meðan annar metur ósnortna landauðn meira en allt annað. Hvað kostar þá að kaupa land þar sem finna má fallegan foss? Sumir vilja meina að landið allt sé þeirra eign og enginn jarðareigandi megi selja neitt nema spyrja þá leyfis. Slíkur sósíalismi virkar sem betur fer ekki í dómsal gegn þeim sem eiga þinglýst afsal jarðar.
En hvað kostar einn foss? Greiða verður einfaldlega það verð sem sett er upp. Landeigendur við Kárahnjúka krefjast nú hátt í 100 milljarða fyrir vatnsréttindin sem Landsvirkjun fékk. Hver annar en landeigendur ætlar að segja að það verð sé fjarstæða? Hefði Landsvirkjun getað greitt slíka upphæð án aðstoðar ríkisins áður en ráðist var í framkvæmdir og hefði álframleiðandinn verið tilbúinn að greiða fyrir slíkan kostnað í formi hærra raforkuverðs?
Skynsamlegt jafnvægi milli náttúruverndar og auðlindanýtingar fæst þannig á frjálsum markaði einstaklinga þar sem virða verður eignarrétt og taka mið af heildarkostnaði þegar arðsemiskrafan af auðlindinni er reiknuð út. Eina hlutverk ríkisins er setja lagalegan ramma um nýtingu og vernd náttúrunnar og tryggja að farið sé eftir leikreglum. Einkaaðilar eiga svo að hafa heimildir til að starfa innan þessa ramma og nýta náttúruna og auðlindirnar eins og þeir telja hagkvæmast. En mestu skiptir að stærsti og versti umhverfisspillirinn, ríkisvaldið, hætti að taka ákvarðanir um hvaða auðlind megi nýta og hvaða náttúruverðmætum eigi að fórna.
- Stjórnarhættir sjávarútvegsfyrirtækja - 26. maí 2021
- Dokkan og Ríkið - 18. febrúar 2021
- Villuljós og vinnuleit - 15. desember 2020