Á sunnudaginn greindi vefútgáfa stærsta dagblaðs Póllands frá áætlunum stjórnarflokksins um breytingar á lögum kennitölur. Samkvæmt fréttinni var fyrirhugað að láta fyrstu 6 tölustafi í kennitölum nú tákna getnaðardagsetningu en ekki fæðingardag.
Fréttinni fylgdu myndskeið með álitum lögspekinga, ræðum reiðra kvenréttindasinna og viðtölum við ánægðar ömmu í miðbæ Varsjár. Þetta virkaði meira að segja frekar trúanlega. Eins og góð aprílgöbb eiga að gera.
Það er því miður dálítið til marks um völd villta hægrisins og stöðuna í pólskum stjórnmálum að flestir lesendur þurftu að athuga nokkra aðra miðla til að vera vissir um að um grín væri að ræða. Enda er ekki við öðru að búast þegar tillaga um fjársektir á fólk sem sækir um skilnað er lögð fram daginn áður. Í fúlustu alvöru.
Hugmyndin um að kennitölur tækju mið af getnaði er raunar frekar fyndin og ef hún yrði að veruleika mundi hún varla verða mörgum til trafala. Öðru máli gegnir auðvitað um hina raunverulega stefnu pólsku öfgahægrimannanna sem sitja við stjórnvölinn. Pólverjar búa þegar við eina ströngustu fóstureyðingarlöggjöf í Evrópu, fóstureyðingar eru einungis heimilaðar ef um alvarlegan fósturskaða er að ræða, heilsa móður er í hættu eða þungunin tilkomin vegna nauðgunar. En nú eru uppi áform um að herða lögin enn frekar og setja verndun alls lífs frá getnaði inn í stjórnarskrá.
Þess ber að geta að það er ekki einu sinni kirkjan sem er hvatamaður að umræddum tillögum. Sumir hófsamari biskupar hafa meira að segja sagt að í núverandi löggjöf felist ákveðin málamiðlun og við henni ætti ekki að hrófla. Nægt er ósættið fyrir. En það eru hinir snaróðu áhangendur hinnar öfgasinnuðu útvarpsstöðvarinnar Útvarp María, sem stýra þessari baráttu fyrir því að konur fæði sem mest og sem oftast, óháð því hvort þær eða afkvæmin eigi sér lífsvon að fæðingu lokinni. Og tvíburarnir hlusta á raddir grunnfylgisins.
Þegar horft er til fordæmis annarra landa er ekki hægt annað en að vera sáttur við að ákveðin sátt hafi tekist um þessi mál á Íslandi. Í hvert skipti sem þessi mál koma upp á yfirborðið í Póllandi eða Bandaríkjunum rista þau djúp sár í þjóðarsálina. Þótt skiljanlegt sé að menn hafi sterkar skoðanir á umræddum lögum vilji vinna þeim fylgi ætti reynsla annarra að í raun að letja Íslendinga frá aukinni umræðu um fóstureyðingar. Í íslenskri löggjöf felst ákveðin málamiðlun og þótt ýmsir hefðu viljað sjá hana öðruvísi ætti er hér um að ræða mál sem þar sem frekar ætti að fagna umræðuskorti fremur en umræðu.
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021