Til allrar hamingju fór betur án á horfðist þegar ekið var á karlmann á þrítugsaldri í miðborg Reykjavíkur aðfaranótt laugardags. Maðurinn stóð hamstola af bræði eftir samstuðið og blótaði Neyðarlínunni í sand og ösku. Manngreyið hringdi látlaust í Neyðarlínuna, enda var hann hjálpar þurfi eftir samstuð við bifreið.
Að endingu þurfti maðurinn að koma sér hjálparlaust á bráðamóttöku slysadeildar. Hann sagði farir sínar ekki sléttar af samskiptum við neyðarþjónustu höfuðuborgarsvæðisins. Hann hefði gert allt rétt en enginn svaraði kalli hans þegar hann var hjálpar þurfi. Þegar bráði af honum var skýringin einfaldari en hann hefði nokkurn tíma órað fyrir.
Hann hringdi í 211 í stað 112.
Þessi sakleysislega frétt á meira erindi í íslenska þjóðmálaumræðu en nokkurn grunar. Ef marka má nýlega skoðanakönnun Capacent GALLUP eiga íslenskir kjósendur margt sameiginlegt með þessum óheppna og ölvaða manni. Niðurstöður kannana benda til þess að fleirum en áður hugnist að prófa nýja samsetningu á þekktum stærðum. Ríkisstjórnin á undir högg að sækja.
Gott og vel, ef við lítum í baksýnisspegilinn er kannski alveg skiljanlegt að menn geti fundið ríkisstjórninni sitthvað til foráttu. Umhverfisvernd er þannig mörgum ofarlega í huga, aðrir eru tilbúnir að kasta búvörukerfinu fyrir róða, þriðju vilja kanna ESB-aðild, fjórðu vilja afnema launamun kynjanna og þeir fimmtu vilja draga harðlínu gagnvart erlendu vinnuafli.
Kosturinn við baksýnisspegla er hins vegar sá að þá er eiginlega bara að finna í bílum. Og kosturinn við bílaeign er að hún er mælikvarði á kaupmátt. Og kosturinn kaupmátt er sá að hann er mælikvarði á lífsgæði. Og kosturinn við lífsgæði er að þau fást með vinnu. Og kosturinn við vinnu er uppskera. Og kosturinn við uppskeru er sú að hún gerir okkur kleift að kaupa okkur bíl með baksýnisspegli.
Við erum góðu vön.
Dægurmálaumræðan hefur hins vegar að síðustu verið svona annað hvort eða umræða í upphrópunarstíl. Mönnum er einhvern veginn stillt upp við vegg og eru bara annað hvort grænir eða gráir. (Sumir eru hvorki annað hvort eða. Jón Magnússon og frjálslyndir eru t.d. bara að tapa.)
Vitundarvakning í umhverfismálum er frábær en það er fásinna að hún sé eina kosningamálið. Eins málefna stjórnmál duga skammt. Þannig hefur sá grunur alltaf læðst að mér að kosningar snúist fyrst og fremst um kaupmátt og almenn lífsgæði. Um þessi órómantísku hugtök verður líka kosið í vor. Hingað til sem endranær.
Auðvitað eru menn einlægir í umræðu um umhverfismál, um það er enginn að efast. Slík umræða er hins auðveld þegar bara er kosið um slík mál á afmarkaðan máta, eins og Hafnfirðingar fá t.d. að kjósa um næstu helgi.
Málin verða hins vegar flóknari þegar umræðan snýst samstundis um efnahagsmál, menntamál, utanríkismál, heilbrigðismál, umhverfismál og alla aðra anga samfélagsins. Þá duga ekki lengur eins málefna stjórnmál heldur þarf að kalla eftir heildstæðri stefnu sem hefur svör á reiðum höndum í öllum málefnaflokkum.
Umræða um efnahagsmál, menntamál og utanríkismál er kynþokka og hugsjónalítil í samanburði við rómantíska náttúruvernd, það skal fúslega viðurkennt. Valröðun kjósenda mun hins vegar breytast þegar nær dregur kosningum.
Kjósendur eru góðu vanir.
- Vonin og óttinn - 20. október 2008
- Ný ríkisstjórn á næstu 90 leiki - 19. september 2007
- Launaskrið á Kalkofnsvegi er gott mál - 12. júlí 2007