Fylgi vinstri grænna rýkur upp þessa dagana og auknar líkur á að vinstri stjórn taki við völdum í vor. Hvernig stendur á því að kjósendur hneigjast til vinstri á einu mesta hagvaxtar- og velmegunarskeiði íslandssögunnar? Er það vitundarvakning í umhverfismálum eða orðræðan um meiri jöfnuð í samfélaginu sem veldur? Nú keppast stjórnmálaflokkarnir við að kortleggja og skilja huga kjósenda og stilla kúrsinn.
Fimm prósenta fylgi Íslandshreyfingar Ómars Ragnarssonar í fyrstu skoðanakönnunum sannar aukna áherslu á umhverfismál hjá kjósendum. Íslandshreyfingin, sem skilgreinir sig sem “hægri græna” frekar en “vinstri græna”, virðist fá fylgi sitt að stórum hluta frá Vinstri grænum sem gefur vísbendingu um hvaðan nýleg fylgisaukning þeirra kemur. Umhverfismál geta þó varla útskýrt alla aukninguna og telja má að aukin áhersla á jöfnuð og vinstri gildi séu farin að telja í þjóðfélaginu og fróðlegt er velta fyrir sér ástæðum þess.
Undirritaður telur að aukin áhersla á jöfnuð sé að hluta til fram komin vegna öfundar, svo það sé sagt hreint út. Þjóðin hefur núna í nokkur ár borðað milljarða í morgunmat því varla líður sá dagur að forsíður dagblaðanna beri ekki fram milljarðasamninga og ofurlaun. Áhrifin sjálst í miklu launaskriði og nokkuð fíflalegri gremju í þjóðfélaginu því skyndilega telur fimmti hver maður að hann eigi skilið margar milljónir í mánðalaun fyrir það eitt að vera Íslendingur. Þetta þarf hins vegar ekki að koma algerlega á óvart því rannsóknir sýna að ánægja fólks með eigin lífskjör byggir ekki á veraldlegum gæðum þess heldur samanburði við nágranna. Sú þekkta staðreynd hefur auðvitað töluverð áhrif á skoðanir fólks á jöfnuði núna í þessu litla samfélagi okkar þar sem allir eru nágrannar.
En er það endilega merki um öfund að vilja meiri jöfnuð í samfélaginu? Ekki endilega, en svarið er já ef að markmiðið er að tryggja að allir hafi það jafn skítt frekar en allir hafi það nokkuð betra en áður. Ef áhersla á að allir verði jafnir verður ofan á eftir kosningar í vor með tilheyrandi skattahækkunum og sjóðasukki er það skammsýni hjá kjósendum, því hin raunverulega samkeppni um lífsgæði er ekki við nágranna okkar í Íslandi heldur nágranna okkur úti í heimi. Við lifum á tímum alþjóðavæðingar, tímabili sem sagan mun dæma sem jafn áhrifaríku í mannkynssögunni og iðnvæðingin. Og líkt og iðnvæðingin mun alþjóðavæðingin hafa afgerandi áhrif í dreifingu auðs á jörðinni.
Hlutverk íslenskra stjórnmálamanna er að tryggja okkur og börnunum okkar bjarta framtíð og öruggan sess í samfélagi þjóðanna – um það eiga kosningarnar í vor að snúast en ekki algeran jöfnuð. Sem betur fer virðist samkomulag vera í sjónmáli um að nú sé ekki tími iðnvæðingar og áframhaldandi stóriðjuuppbyggingar hér á landi, þó að uppgangur hægri grænna hafi tekið sinn tíma. Enn hefur hins vegar ekki náðst samkomulag um að nú sé tími aþjóðavæðingar en það mun gerast fyrr eða síðar. En hversu langan tíma það tekur fer eftir úrslitum kosninga í vor – og því fyrr sem samkomulag næst því betra. Því hvað sem sem okkur kann að finnast um alþjóðavæðingu er ljóst að Íslendingar eiga engra kosta völ en að taka þátt í henni, ella snúa aftur í moldarkofana.
- Af lumbrum og lymjum - 13. júní 2009
- Lausn VG er að slíta samstarfinu við AGS ! - 24. janúar 2009
- Skynsemin verður að þola grjótkastið - 23. janúar 2009