Mið-Austurlandapókerinn er í fullum gangi. Við borðið sitja Bandaríkin, Bretland, Sameinuðu þjóðirnar og Íran. Bandaríkin eru auðvitað kúrekinn, ríkur og hávær. Leggur mikið undir og tekur mikla áhættu. Bretinn, aðeins varkárari, kannski meiri smóking-týpa með hristan Martini í annarri og smávindling í hinni og dáist að kananum fyrir sjálfstraust og risastóra hrúgu af spilapeningum. Íraninn er nýsestur að spilaborðinu eftir langt hlé, kannar hversu langt hann kemst og er ólmur í að vita hvenær andstæðingar hans eru í raun og veru með fullt hús. Sameinuðu þjóðirnar sitja oftast hjá og leggja lítið undir ef þær spila með.
Kaninn og Bretinn eru í smá vandræðum. Þeir spila á tveimur borðum. Við fyrra borðið eru þeir búnir að sitja í allt kvöld og mótherji þeirra, sem þeir gerðu ráð fyrir að væri byrjandi í póker, er slungnari en þeir héldu. Því eru spilapeningarnir sem þeir mættu með á seinna borðið mun færri en ella og erfitt að einbeita sér að tveimur spilum í einu, ekki síst þar sem ógnvekjandi peningahrúgan hefur hingað til verið þeirra sterkasta vopn. Þetta vita mótherjarnir og mæta því tvíefldir til leiks.
Nýjustu fréttir af handtöku breskra hermanna við eftirlitsstörf í Írak gefur til kynna að Íranir telji vesturveldin vera að blekkja. Segja má að þetta sé svar við handtöku íranskra embættismanna fyrir nokkru og stöðuga viðvera bandarísks árásarflota við hafsvæði Íran.
Öllum má vera ljóst að þessa deila verður flóknari með degi hverjum og mikið er húfi. Þó að ótrúlegt megi virðast eru til þeir aðilar hér vestan hafs sem telja miklar líkur á því að Bandaríkin ráðist inn í Íran til að koma í veg fyrir að þeir geti komið sér upp kjarnavopnum. Jafnvel þó að það myndi án efa skapa fleiri vandamál en það myndi leysa.
Kjarni deilunnar snýst um áhrif í Mið-Austurlöndum og þau auðæfi sem landsvæðið hefur að geyma. Báðir deiluaðilar gerast sekir um að fela raunverulegar hvatir og metnað með göfugri markmiðum. Íranir benda á að þeir hafa fullan rétt til að framleiða kjarnorku til friðsamlegra nota sem hlýtur að kallast sanngjörn krafa. En fram hjá því verður þó ekki litið að ef þeir hefðu áhuga á því koma sér upp kjarnavopnum væri fyrsta skrefið alltaf að vinna þróun tækninnar undir þeim formerkjum að nýta hana til orkuframleiðslu. Skrefið frá því að nota kjarnorku í friðsamlegum tilgangi og í að búa til sprengjur er mun auðveldara og styttra en að byrja frá grunni. Einnig mætti benda á að Íranir ættu ekki að vera að kljást við orkuvandamál í landi sem talið er búa yfir öðrum stærstu olíulindum heims.
Með kjarnorkusprengju í vopnabúri sínu væru Íranir komnir með mjög þungt lóð á vogarskálar sínar sem myndi gjörbreyta valdajafnvægi bæði Mið-Austurlanda og heimsins. Staðreyndin er nefnilega sú að svæðið geymir stærstu olíulindir sem vitað er um. Þjóð með næga olíu innan sinna landamæra og möguleika á því að eyðileggja olíuvinnslu annarsstaðar á svæðinu er mjög áhrifamikil. Olíuvopninu hefur áður verið beitt til að hægja á stærstu hagkerfum heims með góðum árangri og hræðast menn því að því verði beitt aftur. Því er ljóst að potturinn er stór og til mikils er að vinna fyrir Írani.
Auðvitað viðurkenna þeir ekki að þeir sækist eftir slíku vopni. Slíkt væri diplómatískt sjálfsmorð. Eins viðurkenna Bandaríkjamenn ekki að þeirra hvati sé nokkur annar en að koma í veg fyrir að ríkjum sem búa yfir kjarnavopnum fjölgi þegar öllum má vera ljóst að miklu máli skiptir hverjir eiga í hlut. Það sýndi sig einna best þegar ísraelskur ráðamaður missti klaufalega spilin á borðið og ljóstraði upp að þeir væri hugsanlega með kjarnavopn í Ísrael.
Gera má ráð fyrir að spilinu ljúki ekki í bráð og ólíklegt að núverandi leikstíll sé líklegur til árangurs. Deiluna verður að leysa á alþjóðlegum vettvangi og væri óskandi að þeir aðilar sem að málinu koma gætu talað hreint út um deiluefnin í stað þess að valsa í kringum blekkingar og popúlisma.
Það er erfitt að taka afstöðu með deiluaðilum í þessu máli og ekki augljóst hvaða leið liggur til friðar. Það hefur sýnt sig að árásir á sjálfstæð ríki eru sjaldan réttlætanleg og hafa litlu skilað. Aftur á móti hljóta allir friðarsinnar að vera á móti þróun fleiri kjarnavopna og þeim áhrifum sem annað kjarnorkuvopnakapphlaup hefði í för með sér.
Eina von okkar um að þessi deila, sem og aðrar álíka deilur, leysist, er að tekið verði á henni á sameiginlegum vettvangi. Því er algjörlega nauðsynlegt að þögla manninum við spilaborðið verði gefið það vald sem hann þarfnast til að leggja meira undir og taka af skarið. Og helst án þess að fela ásana uppi í erminni.
– BS
- Nýr 100 ára Selfoss - 20. júlí 2021
- Íslensk sumarnótt - 7. júlí 2021
- Skýrar línur í bankasölu - 24. júní 2021