Það er vel þekkt að fólk getur verið mjög lélegt í því að meta áhættu. Algengt er t.d. að fólk meti kjarnorkuver sem mjög hættuleg en hafi ekki miklar áhyggjur af radoni á heimilinu þegar sérfræðingar sjá þetta venjulega öfugt, að kjarnorka sé tiltölulega örugg á meðan radon sé eitthvað sem þurfi að hafa áhyggjur af. Eftir að ferðast um á þjóðvegum Bangladesh er erfitt annað en að velta fyrir sér þessari staðreynd.
Ég tók myndina hérna til hægri á leiðinni frá höfuðborginni Dhaka til Rangpur í norður-héruðunum. Rútur sem þessi, með fullt þak af fólki, eru sennilega góður meirihluti af rútunum á þjóðvegunum. Þeim er yfirleitt keyrt á hátt í 100km hraða á klukkustund og sveigja framjá fólki, vögnum hlöðnum kókoshnetum og öðrum bílum eins og rallíbílar á æfingabraut. Það kemur því ekki á óvart að slysatíðni er um 50 sinnum hærri en í vestur Evrópu og að samkvæmt opinberum tölum (sem eru mjög líklega vanmetnar) eru um 169 dauðsföll árlega fyrir hver 10.000 ökutæki. Samsetning ökutækja er væntanlega mjög ólík á Íslandi en til grófs samanburðar er sambærileg tala hérlendis 1.1 dauðsfall árlega.
Hvað ætli valdi því að fólk ákveður að ferðast á þaki rútu við þessar aðstæður, vanmat á áhættu eða kannski rökrétt ákvarðanataka miðað við lítil efni? Heimamenn segja mér að rútufarið sé í kring um 250 til 300kr, þ.e. fyrir að fá pláss inni í rútunni, og ef þú sættir þig við þakið sleppurðu með um 150kr. Á þakinu þarf ekki annað en að rútan snarhemli eða taki óvænta beygju. Það má því gera ráð fyrir að mörgum lesendum þykji þessi verðmiðið á lífið heldur lágur.
Hvað svosem að svarið er við þessari spurningu, er ljóst að umferðarslys eru meðal helstu heilbrigðisvandamála bæði í Bangladesh og annars staðar. WHO metur að árlega láti um 1.2 milljón manns lífið og 20 til 50 milljónir slasist í umferðaróhöppum. Afleiðingin er sú að samkvæmt flokkunarkerfi WHO eru umferðarslys 9 mesti dauðavaldur veraldar.
Malaría og vannæring eru ennþá meðal helstu heilbrigðisvandamála í mörgum þróunarlöndum. Það er auðvelt að beina öllum kröftum að þessum helstu málum og gleyma því að setja hlutina í samhengi. Það er ekki ólíklegt að í löndum eins og Bangladesh mætti bjarga mörgum mannslífum með góðri stefnumótun í umferðarmálum og með minni fyrirhöfn en á mörgum öðrum sviðum.
- Við, þau og loftslagsbreytingar - 20. júní 2007
- Veðjað á þakið - 24. mars 2007
- Kosningar í Bangladesh - 27. janúar 2007