Um helgina hratt Framtíðarlandið af stað áróðursherferð sem nefnist Sáttmáli um framtíð Íslands og er ætlað að sporna gegn frekari virkjunaráformum hér á landi. Ekki er það ætlunin hér að gagnrýna þetta framtak enda margt gott um það að segja í sjálfu sér.
Í ljósi þessarar áróðursherferðar Framtíðarlandsins vakna áleitnar spurningar um stöðu íslenskra stjórnmálaflokka gagnvart almennum félagasamtökum á borð við Framtíðarlandið. Framtíðarlandið hefur auglýst í öllum helstu miðlum hér á landi, þ.á m. eru ‘pródúseraðar’ sjónvarpsauglýsingar. Ljóst má því að vera að þessi áróðursherferð er kostnaðarsöm, jafnvel svo að hún slagar hátt í kosningabaráttu heils stjórnmálaflokks.
Um síðustu áramót tóku gildi lög um fjármála stjórnmálasamtaka. Samkvæmt þeim er einstaklingum og lögaðilum óheimilt að styrkja stjórnmálaflokka um meira en 300.000 krónur á ári en á móti kemur að stjórnmálaflokkar fá framlög úr ríkissjóði. Yfirlýstur tilgangur og markmið laganna er m.a. að draga úr hættu á hagsmunaárekstrum, auka traust á stjórnmálastarfsemi og efla lýðræðið.
Áhrif fjársterkra aðila á starfsemi stjórnmálaflokkanna voru talin svo mikil og hættuleg lýðræðinu að ástæða væri til að takmarka stjórnarskrárvarinn rétt einstaklinga og lögaðila til að fylgja sannfæringu sinni með stuðningi við stjórnmálaflokka.
Áróðursherferð sú sem Framtíðarlandið stendur fyrir varðar hápólitískt deilumál. Ljóst er að slíkri herferð er ætlað að hafa áhrif á val kjósenda í komandi kosningum, að þeir kjósi frekar þá frambjóðendur eða flokka sem taka undir sjónarmið Framtíðarlandsins. Á sama hátt geta félagasamtök á borð við BSRB, LÍU, Samtök fjármálafyrirtækja og Bændasamtök Íslands, svo dæmi séu tekin, staðið fyrir rándýrum áróðursherferðum án þess að sæta þeim höftum sem starfsemi stjórnmálaflokkanna eru sett.
Framtíðarlandið hefur nú gefið tóninn fyrir önnur félagasamtök sem greiðan aðgang hafa að fjármagni og vilja að kjósendur geri upp hug sinn á þeirra forsendum. Sú staða getur mjög auðveldlega komið upp, þótt svo kunni ekki að verða í komandi kosningum, að kosningabarátta fyrir alþingis- eða sveitarstjórnarkosningar verði að miklu leyti háð af almennum félagasamtök sem halda sínum sjónarmiðum á lofti.
Stjórnmálaflokkarnir, sem sagðir eru „hornsteinn lýðræðis í landinu og forsenda heilbrigðrar og eðlilegrar þjóðmálaumræðu“ í greinargerð með áðurnefndum lögum, verða þannig smám saman áhorfendur að hinni hugmyndafræðilegu baráttu.
Er það til þess fallið að „efla lýðræðið“?
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021