Kosið verður til Alþingis þann 12. maí næstkomandi. Mikill fjöldi nýrra kjósenda mun þar ganga að kjörkassa og greiða þeim flokki atvæði sitt sem hann telur að muni sinna hagsmunum sínum og samfélagsins einna best á komandi kjörtímabili.
Það er því eflaust drjúgur hópur ungs fólks sem að velta þessu fyrir sér öllu saman í fyrsta skipti. Flokkunum, málefnunum, loforðunum og svo framvegis. Þessi sami hópur er eflaust einnig að gera það upp við sig hvort höfði betur til þeirra: frjálslyndi, frjálshyggja, jafnaðarstefna, sósíalismi, vinstri, hægra og hvað þetta heitir nú allt saman.
Hvað er ég? Hvað á ég að kjósa í vor? Er ég vinstrimaður eða hægrimaður? Ég – FYI – vil bara að allir séu góðir hver við annan. Djísss.
Hver sá sem hefur upplifað það að standa frammi fyrir vali sem þessu í fyrsta skipti hefur þurft að ganga í gegnum innhverfa íhugun sem þessa. Það eru því ansi margir sem gætu haft gagn af stuttri samantekt á því um hvað stjórnmál snúast og hvar áherslurnar liggja. Hér á eftir fylgir ein stutt, sem vonandi gagnast ungu fólki í andans glímu.
Megininntak í stjórnmálum er umfang og hlutverk ríkisins. Umgjörð samfélagsins. Ríkið er samfélagslegt fyrirbæri sem fer með vald yfir ákveðnu landssvæði. Í lýðræðisríki skiptist það í dómsvald, löggjafarvald og framkvæmdavald. Þjóðþingið setur lögin, löggæslan framkvæmir þau og dómstólarnir skera úr um lögmæti og ákveður refsingar í samræmi við forskrift laganna. Þetta er ríkið, í eins gjörstrípaðri mynd og hægt er að leggja fram. Það er varla um það deilt að þannig sé vald almennings í nútímalýðræðisríki tryggt eins vel og auðið er.
Meginágreiningurinn felst síðan í því hvaða aukalega hlutverki ríkið – hið opinbera, rammi samfélagins – gegnir í samfélaginu. Og það er þar sem aðgreiningin milli hægri og vinstri fer að greina í sundur. Og stundum allmikið.
Hægristefnan – stundum nefnd frjálslyndi eða frjálshyggja (liberalismi) – telur að ríkið hafi afar takmörkuðu hlutverki að gegna fyrir utan það sem nefnt var hér að ofan. Semsagt að setja lög, sjá að þeim sé fylgt eftir og refsa fyrir brot á þeim. Mjög einörð frjálshyggja afneitar hvers kyns afskiptum hins opinbera af samfélaginu. Hún setur allt sitt traust á gagnvirkni milli einstaklinga samfélagins svo fremi sem hún sé innan ramma laganna og hafi ekki óæskileg áhrif á þriðja aðila. Þessi gagnvirkni skili útkomu sem sé í eins miklu samræmi við vilja og óskir einstaklinganna sem saman mynda samfélagið og tilheyrandi verðmæta- og hagsmunamarkað. Ef einstaklingarnir vilji bara hugsa um sig sjálfa, þá geri þeir það. Ef þeir vilji hjálpa hinum sem minna mega sín, þá muni þeir, sem það kjósa, bregðast við og hjálpa þeim. Hvort sem það er á formi frjálsra félaga- og líknarsamtaka eða einhvers annars. En ríkið á ekki að koma nálægt slíkum viðskiptum. Frjálshyggjumenn geta þó flestir sætt sig við að rekin sé sameiginleg utanríkisstefna og sameiginlegur her sem verndar umrætt ríki yfir utanaðkomandi ógnum.
Meginástæða þess að hægrimenn fallast ekki á afskipti ríkisins af viðskiptum einstaklinga samfélagsins og tilfærslu fjármagns innan þess er sú, að þannig sé mannréttindum þeirra best borgið. Enginn sé þvingaður til að gera neitt sem hann ekki sjálfur kýs að gera. Þetta er megininntakið í frelsi einstaklingsins til athafna og óskoruðum umráðarétti hans yfir eigin verðmætum og eignum. Auk þess sé einkaframtakið ætíð best til þess fallið að skapa verðmæti og hindra sóun á fjármunum þar sem skynsemi ákvarðanatöku og stjórnunar er beintengd við eigin hag þess, eða þeirra, sem að framtakinu standa. Þetta eigi jafnvel við rekstur í mennta- og heilbrigðisgeiranum, sem í langflestar þjóðir láta eftir ríkinu að reka. Frjálshyggjan telur að í besta falli sé hægt að fallast á ákveðnar niðurgreiðslur úr hendi ríkisins til handa þeirra sem minnst mega sín til afnota af þessari þjónustu. Eins konar öryggisnet. En það á ekki sjálft að standa í rekstri þess.
Almenn hægristefna víkur frá frjálshyggju að því leyti að hún viðurkennir ákveðið rekstrarhlutverk ríksisins í þágu samfélagins. Að líta megi á ákveðin kerfi sem þjónustukerfi samfélagins sem – hvort eð – er krefjist töluverðrar samræmingar og mjög líklega einhverri miðstýringu á fjármagni. Slíkur rekstur sé ekki alltaf hentugur í samkeppnisumhverfi og þess eðlis að erfitt sé – og jafnvel óæskilegt – að eftirláta hreinum markaðskröftum, sem stundum eru ekki jafn hreinir og ótruflaðir og frjálshyggjumenn vilja vera af láta. En almenn hægristefna lítur á frelsi einstaklingsins og mannréttindi sem eitt það verðmætasta sem nútímasamfélagið getur boðið þegnum sínum, og hvetur til eins lítillar miðstýringar og mögulegt er.
Vinstristefna eða félagshyggja (kollektífismi) lítur á málið öðrum augum. Hún viðurkennir mannréttindi, en á þeim forsendum að samfélagið sé jafnrétthátt einstaklingnum. Hún telur að hópurinn sé ætíð stærri en einföld summa þeirra einstaklinga sem hann mynda, Hópurinn hefur þannig mikinn eigin rétt. Kommúnismi er eins róttæk vinstristefna og unnt er að finna. Kommúnismi lítur á það sem svo að samfélagið sé mun rétthærra en einstaklingurinn, og réttlætir með því verulegt inngrip inn í frelsi hans til athafna og umráðarétt hans yfir eigin eignum og fjármagni. Undir kommúnisma er eignaréttur einstaklingsins að mestu afnuminn, og öllu fjármagni og viðskiptum miðstýrt í gegn um ríkið. Gerðar voru tilraunir sem ríkisskipun eftir hugmyndafræði kommúnisma á síðustu öld. Flest þeirra eru dáin drottni sínum og önnur í dauðateygjunum. Kommúnismi og frjálshyggja teljast vera algerar pólitískar andstæður.
Jafnaðarstefna (stundum nefnd sósíalismi) fellur undir félagshyggju. Hún er þó eitthvað vægari, og leggur fyrst og fremst áherslu á það að einstaklingurinn hafi óskoraða skyldu að gegna í þágu samfélagins sem hann geti ekki vikið sér undan með einum eða öðrum hætti. Þessi óskoraða skylda hans er á formi þeirra skatta sem hann þarf að reiða af hendi tilneyddur, til að ríkið geti rekið umfangsmikla þjónustu í þágu samfélagsins. Jafnaðarstefnan reynir – eins og nafnið bendir einatt til – að jafna skiptingu fjármagns milli einstaklinga samfélagins. Þessi jöfnun á sér einnig stað í gegn um innheimtu skatta af fyrirtækjum og einstaklingnum. Og þá yfirleitt þannig að ef þeim gengur vel skuli borga meira. Þar sem það er hinum tekjulægri í hag (að eigin mati) að fluttar séu tekur úr hönum hinna efnameiri í þeirra eigin, þá er jafnaðarstefnan yfirleitt hlutfallslega vinsælust í hinum tekjulægri hópum samfélagins.
Jafnaðarstefnan lítur á það sem svo að ríkið óumdeilanlega best til þess fallið að sinna viðamiklum rekstri í þágu samfélagins, þar sem þannig sé best tryggt að enginn verði útundan. Hún semsagt vantreystir skynsemi og hæfni einstaklinganna til að virkja einkaframtakið þannig að fjármagnsdreifingin eigi sér stað utan ramma ríkisins og hefur ekki trú á að slíkt geti mögulega átt sér stað án þess að einhverjir beri óeðlilega skertan hlut frá borði.
Og hvað telur þú – lesandi góður? Telur þú, eftir þetta stutta yfirlit, að einstaklingum samfélagsins sé treystandi til að sinna sínum minnsta bróður utan ramma ríkins eða innan hans? Og þá að hve miklu leyti? Hefur hópurinn rétt til jafns við einstaklinginn, meiri eða minni, eða er hugmyndin um rétt hópsins bara einfaldlega gufan ein?
Hér á landi er einungis einn flokkur sem getur talist raunverulegur hægriflokkur. Flokkur sem brynjar sem með mannréttindum og setur skynsemi og frelsi einstaklingsins í ökumannssætið. Flokkur sem treystir einstaklinunum til að bera eigin hag, og hag meðbræðra sinna, fyrir brjósti og virkjar þannig hugmyndaauðgi og kraft hans í þágu samfélagsins alls. Þegar litið er yfir farinn veg síðustu 16 árin þarf ekki frekari sannana við. Einstaklingnum og einkaframtakinu er best treystandi til að knýja áfram lifandi hagkerfi og gæta sín minnsta bróðurs á sama tíma. Á þeirri braut skulum við halda áfram.
- Hálendisfrumvarpið er dautt, lengi lifi hálendisfrumvarpið - 10. júní 2021
- Gamalt vín á nýjum belgjum - 7. apríl 2021
- Borgarlína á toppnum - 20. febrúar 2021