Samgöngumál voru býsna áberandi við lok þingstarfa í vikunni sem leið. Ný vegalög voru samþykkt undir lok þinghalds í gær sem og þingsályktunartillaga um samgönguáætlun 2007-2010. Hún byggir á annarri þingsályktunartillögur fyrir samgönguáætlun 2007-2018, sem þó náði ekki samþykki á lokasprettinum.
Hin nýsamþykktu vegalög fela í sér ýmis nýmæli. Ein merkasta nýjungin er heimild til gjaldtöku af umferð m.t.t. beinnar notkunar. Eigendur umferðarmannvirkja mega þar með mæla afnotin á formi ekinna kílómetra, tíma dags, umhverfisáhrifa og stærð ökutækis. Ef ríkið tæki upp beina gjaldtöku myndi það væntanlega þýða afnám bensíngjaldsins, sem í dag er notað til uppbyggingar og reksturs vegakerfisins. Þetta er ánægjuleg þróun. Breytingin táknar ákveðna markaðsvæðingu sem líklegri er til að koma í veg fyrir ytri áhrif við afnot af vegamannvirkjum. Hún er sérlega mikilvæg á höfuðborgarsvæðinu þar sem óbein tenging afnota við rekstur og uppbyggingu ýtir undir ofnotkun á umferðarrýmd og lítilli samkeppnishæfni fjöldaflutningakerfa.
Aðrar góðar breytingar eru gerðar, s.s. ýmsar breytingar á flokkun og veghaldi á vegum og aukið frelsi sveitarfélaganna við skipulagningu vega innan marka þeirra. Þá eru ýmis nýmæli varðandi skipulag, hönnun og öryggi í umferð og skýrari aðgreining milli sveitarfélaga og ríkis þegar kostnaði er skipt upp vegna aðgerða til að draga úr áhrifum frá hávaða frá umferð.
Í nýjum vegalögum verður Vegagerðinni auk þess heimilt að veita fjármagn til gerðar almennra hjólreiða- og göngustíga meðfram umferðarmestu þjóðvegum í tengslum við framkvæmdir á vegum þess. Skortur á þessari heimild í eldri lögum hefur oft staðið í vegi fyrir því að unnt sé að gera ráð fyrir sérstökum hjólastígum við skipulag nýrra umferðarmannvirkja sem fjármögnuð eru af ríkinu. Þetta ætti að hljóma vel í eyrum hjólreiðamanna, sem lengri hafa barist fyrir jafnræði í samgöngum. Vonandi verður þessari breytingu vel tekið af bæði sveitarfélögum og Vegagerðinni, og átak hafið í gerð slíkra stíga á næstu árum.
Samgönguáætlun 2007-2018 hefur einnig athyglisverð nýmæli í för með sér. T.a.m. er stefnt að því að nýta hinu nýju heimild í Vegalögum til beinnar gjaldtöku af afnotum og að farið verði að rukka fyrir afnot af vegamannvirkjum með beinum afnotagjöldum áður en tímabilinu lýkur. Stefnt er að því að nýta tækni, sem byggir á staðsetningarbúnaði, í þeim tilgangi. Gengið er út frá því að við lok annars tímabils áætlunarinnar greiði öll ökutæki í samræmi við ekna vegalengd þar sem tillit verði tekið til ytri kostnaðar. Þetta er almennt nokkuð jákvætt, þótt margir kunni að efast um ágæti og raunhæfni þess að skylda bíla til að hafa GPS staðsetningartæki um borð í hverjum bíl. En slíkt er þó á döfinni í Bretlandi um þessar mundir, og margar aðrar þjóðir með svipað uppi á teningunum.
Samgönguáætlun leggur áherslu á virkjun einkaframtaksins og markaðsaflanna almennt við uppbyggingu og rekstur samgöngukerfisins, m.a. með einkaframkvæmd. Það er sjálfsagt og jákvætt að einkaframtakið komi í auknum mæli inn í samgöngugeirann, enda ekkert sem mælir gegn því. Samgöngur eru í eðli sínu viðskipti, og þótt ríkið komi til með að hafa rík afskipti af samgöngum, þá er eðlilegt að einkaaðilar fái að njóta sín og reyna að hámarka eðli og virkni markaðskraftanna sem samgöngurnar mynda. Hvalfjarðargöngin er gott dæmi um slíkt, og fleiri góð dæmi í farvatninu, s.s. Vaðlaheiðargöng.
Sett eru athyglisverð markmið um umhverfislega sjálfbærar samgöngur í samgönguáætlun. Það táknar að notkun á endurnýjanlegum auðlindum verði undir endurnýjunarhraða þeirra og ekki sé gengið hraðar á óendurnýjanlegar auðlindir en svo að unnt sé að skipta yfir í endurnýjanlegar áður en þær þrýtur. Markmiðið er sett fram í samræmi við alþjóðlega stefnumörkun um lágmörkun á losun gróðurhúsalofttegunda og loftmengun almennt. Þetta markmið er góðra gjalda vert. Það tekur mið af þeirri almennu trú manna um þessar mundir að hækkun hitastigs á jörðinni megi rekja til útblásturs gróðurhúsalofttegunda. Auk þess tekur markmiðið á mengun almennt, m.t.t. lýðheilsu, ekki síst í þéttbýli, enda loft- og hljóðmengun stórir þættir sem draga úr heilsu og lífsgæðum. Það vaknar þó sú spurning af hverju ekki séu sett markmið um sjálfbærar samgöngur almennt? Markmið um beina gjaldtöku af afnotum eru í t.a.m. í samræmi við almennt viðteknar skilgreiningar á sjálfbærum samgöngum, svo í raun er fátt sem stendur í vegi fyrir því að svo sé gert.
Helsta einkenni samgönguáætlunar er þó hið mikla fjármagn sem ætlað er til samgöngumála á þessu 12 ára tímabili. Heilir 380 milljarðar króna. Vegamálin krefjast meirihluta þessa fjár, og athygli vekur hve miklu á að veita í framkvæmdir strax á næsta kjörtímabili. Markaðar tekjur duga skammt, og gert er ráð fyrir verulegum framlögum úr ríkissjóð, og einhverju sem kallast sérstök fjármögnun. Þessi sérstaka fjármögnun virðist þó ekki skilgreind mikið nánar. Einkafjármögnun og sérstök lántaka nefndir sem hugsanlegir tekjustofnar. Þessi sérstaka fjármögnun er síðan eyrnamerkt hraðbrautavæðingu vega úr frá höfuðborgarsvæðinu, sem óhætt er að skilgreina sem einhverjar óarðbærustu hugmyndir um fjárfestingar í samgöngumannvirkjum á landinu fyrr og síðar, nú þegar góð reynsla er komin af snjallari og mun ódýrari lausnum við aðskilnað akstursstefna milli akbrauta. Það eru því litlar líkur á að einkafjármögnun verði einhvern tímann vænlegur kostur í því tilfelli. Sérstök lántaka þyrfti væntanlega að koma til. Vonandi verður fallið frá þessum heimskulegu áætlunum þegar komið verður fram yfir kosningar, skattgreiðendum til heilla. Lengi hefur mátt segja það sem svo að aldrei verði of miklu eytt í samgöngur. Það er kannski að breytast.
Ný vegalög
Tillaga að þingsálytkun um samgönguáætlun 2007-2018
Prófessor Rodrigue um sjálfbærar samgöngur
- Hálendisfrumvarpið er dautt, lengi lifi hálendisfrumvarpið - 10. júní 2021
- Gamalt vín á nýjum belgjum - 7. apríl 2021
- Borgarlína á toppnum - 20. febrúar 2021