Þó nokkur umræða hefur verið undanfarið um þá nýjung sem nokkrir framhaldsskólar eru að bjóða upp á, sem gerir krökkum kleift að hefja nám strax að loknum 9.bekk. Skiptar skoðanir eru meðal manna, en hver er rétta leiðin í þessu?
Nú hafa Menntaskólinn í Reykjavík og Verzlunarskóli Íslands ákveðið með leyfi menntamálaráðaráðuneytisins að innrita nemendur sem lokið hafa 9.bekk í grunnskóla. Til stendur að taka inn einn til tvo bekki næsta haust sem munu samanstanda eingöngu af nemendum sem lokið hafa 9.bekk. Reyndar hefur Menntaskólinn á Akureyri verið með slíkt verkefni í gangi í um það bil tvö ár. Gagnrýnisraddir hafa bent á að engin útttekt hafi verið gerð fyrir norðan um hvernig þetta verkefni hefur komið út. Sú gagnrýni á að vissu leyti rétt á sér þar sem það væri skynsamlegt að komast að því hvernig krakkarnir hafa spjarað sig, sérstaklega í ljósi þess að þetta er stór hópur sem MR og VÍ eru að fara að taka inn.
Margir virðast hins vegar sammála um að stytta beri leiðina til háskólanáms. Umræðan fram að þessu hefur að mestu leyti snúist um styttingu framhaldsskóla. Í þessu samhengi þyrfti því ekki síður að ræða styttingu grunnskólans. Nokkuð hefur skort hefur upp á í grunnskólum landsins að afburðanemendur fái að spreyta sig á erfiðara námsefni. Markmið grunnskólans á að vera að hver og einn nemandi fái námsefni við hæfi og geti eftir fremsta megni þroskað eigin hæfileika og getu. Oft hefur verið bent á að grunnskólinn miði um of við miðlungsnemendur þannig að bæði verr staddir nemendur sem og afburðanemendur verði útundan.
Með skipulagningu og hraðari yfirferð væri án efa hægt að klára grunnskólanámið á 9 árum en ekki 10 eins og nú er gert. Skiptar skoðanir eru þó um hvort gott sé að senda svo unga krakka upp í framhaldsskóla og er það rétt að mikil viðbrigði geta verið fyrir krakka að koma inn í framhaldsskólana þar sem lífið gengur allt öðruvísi fyrir sig en í grunnskólunum.
Hugsanlegt er að best væri að endurskipuleggja grunnaskólakerfið þannig að 10.bekkurinn hefði frjálsari hendur og þannig væri að einhverju leyti hægt að flytja fyrsta árs framhaldsskólanámsefnið ofan í 10.bekk. Þannig ættu krakkar sem það kjósa, möguleika á að sleppa fyrsta árinu í framhaldsskóla og fara beint á annað ár. Einnig væri þá hægt að nota 10.bekkinn til að undirbúa betur krakkana sem eru verr staddir undir framhaldsskóla.
Í þessari umræðu hafa jafnframt komið fram hugmyndir um að skólaskylda hefjist við 5 ára aldur. Þessar hugmyndir eru vel þess virði að skoða nánar. Þó að reyndar megi vel styrkja leikskólakerfið og undirbúa börn betur undir skóla án þess þó að almenn skólaskylda hefjist við 5 ára aldur. Það þarf ekki endilega að vera rétta leiðin að hefja skólaskyldu fyrr, heldur þarf skilvirkara skólakerfi.
Því er ánægjulegt að sjá þessa tilraunastarfsemi fara af stað og er þetta gott framtak. Mikilvægt er að bæði grunnskólar og framhaldsskólar leggi sig fram við að mæta ólíkum þörfum einstaklinga og getur breyting sem þessi verið einn þáttur í því. Forvitnilegt verður að fylgjast með því hvernig til tekst og vonandi verður niðurstaðan úr því málefnalegt innleg í umræðuna um styttingu námsleiðar að háskólastigi.
- #FreeBritney - 22. júlí 2021
- Næstu skref í fæðingarorlofsmálum - 6. júlí 2021
- Hvað tökum við með okkur úr faraldrinum? - 23. júní 2021