Að gefa til góðgerðarmála er ekkert grín, og að mörgu að hyggja þegar menn taka sér slíkt fyrir hendur. Fyrir einstaklinga snýst valið yfirleitt um hvaða fyrirtæki eða stofnun á að styrkja, en það val getur haft mikil áhrif á hversu vel fjármunirnir nýtast þeim sem minna mega sín. Margir eru tilbúnir að taka við peningunum – til eru tugir íslenskra góðgerðarsamtaka og þúsundir erlendra.
Það sem er mikilvægast að kanna er að samtökin geri það sem þau segjast gera við peningana – og geri það vel. Dæmi eru um safnanir hér á landi, til dæmis þar sem geisladiskar voru seldir í símasölu til styrktar góðu málefni, þar sem stærstur hluti peninganna rennur til fyrirtækisins sem sér um söluna. Það ber því að varast loðnar fullyrðingar, til dæmis að „með því að kaupa þessa bók styrkir þú fátæk börn“, þar sem ekkert er tekið fram um upphæð styrksins. Jafnvel orðalag eins og „allur ágóði“ getur verið varasamt, því það eru margar leiðir til að skilgreina ágóða. Ef þjónustan er þess virði sakar auðvitað ekki að kaupa bækur eða að fara á skemmtanir á vegum fyrirtækja sem ekki treysta sér til að gefa skýrari upplýsingar. En ef meginmarkmiðið er að styrkja gott málefni ætti fólk frekar að gefa peningana sína á annan hátt.
Nánast öll góðgerðarsamtök birta nú ársreikninga á heimasíðum sínum og flest birta einnig einfaldar skýringarmyndir þar sem sjá má hversu stór hluti tekna fer í yfirbyggingu, hvað fer í fjáröflunarkostnað og hvað fer í raunveruleg góðgerðarverkefni. Það er sjálfsögð krafa þeirra sem gefa fjármuni sína til slíkra félaga að slíkar upplýsingar séu greinargóðar, skýrar og aðgengilegar, og engin ástæða til að styrkja samtök sem láta undir höfuð leggjast að birta slíkar upplýsingar. Fyrir erlend samtök eru jafnvel til heimasíður þar sem hægt er að bera saman mismunandi góðgerðarsamtök á staðlaðan hátt. Því miður eru upplýsingar um rekstur íslenskra félaga ekki alveg jafnvel framsettar, svo oft er nauðsynlegt að eyða svolitlum tíma í að átta sig á hvað tölurnar þýða. Það ætti þó ekki að vera neinum ofviða, og auðvitað er alltaf hægt að hringja beint í samtökin ef upplýsingarnar eru óskýrar.
Þegar búið er að ganga úr skugga um að samtökin geri það sem þau segjast gera er vel þess virði að velta fyrir sér hvort þau séu að gera það sem maður vill að þau geri. Ótal samtök eru til í heiminum sem vinna að góðum málefnum – málefnum sem betra er að unnið sé að en ekki. Í heiminum eru sveltandi börn, stúlkur í kynlífsþrælkun, börn með niðurgang eða krabbamein, einstæðar mæður, fíkniefnaneytendur, þolendur kynferðisafbrota og svo má lengi telja. Að sama skapi eru til góðgerðarsamtök sem leitast við að hjálpa þessum hópum fólks og vinna starf sitt af heilum hug, án þess að bruðla með peningana. Einstaklingar í öllum þessum hópum hafa það slæmt, og í öllum tilvikum er betra að hjálpa þessum einstaklingum en að hjálpa engum.
En fyrir þann sem hefur ákveðið að gefa tíu þúsund krónur til góðgerðarmála er valið erfiðara. Fjármunir sem varið er til einnar góðgerðarstofnunar munu ekki renna til annarrar stofnunar, og því er valið jafnmikilvægt og það er erfitt. Enn erfiðara er að veita ráðleggingar til annarra um hvernig þeir eiga að verja sínum peningum. Margt mælir með því að styrkja sjóði sem vinna erlendis frekar en innanlands, þótt innlend málefni séu oft góð. Það er til dæmis hægt að leggja fram peninga svo að krabbameinsveik börn geti farið í vikuferð til Disneylands, og líklega er það ógleymanleg lífsreynsla fyrir fjölskyldur sem kljást við erfiðan sjúkdóm. Gallinn er að vikuferð til Disneylands fyrir fjögurra manna fjölskyldu kostar um eða yfir hálfa milljón króna. Vikulöng vökvameðferð við niðurgangi, sem getur bjargað lífi barns í fátæku landi, kostar aftur á móti innan við fimm hundruð krónur.
En þótt leitun sé að Íslendingum sem hafa það jafnslæmt og fólk í mörgum þróunarlöndum eru eflaust margir sem finna til meiri samkenndar með Íslendingum. Þá er auðvitað hið besta mál að styrkja íslensk málefni. En verra er þegar fólk styrkir ákveðinn málstað án þess að hafa nokkurn tíma hugleitt hvort það sé sá málstaður sem það helst vildi styrkja. Ákvörðun um gefa til góðgerðarmála er stór og göfug ákvörðun. Hana ætti að taka meðvitað og að vel athuguðu máli.
- Kostirnir við erlent eignarhald - 9. júní 2020
- Ertu til í að gera mér greiða? - 13. febrúar 2020
- Bambustannburstar til bjargar? - 20. janúar 2020