Umræðan um loftslagsbreytingar er hávær þessa dagana. Í nýútkominni skýrslu Alþjóðlega vísindaráðsins um loftslagsbreytingar (IPCC) kemur fram að líkurnar á því að loftslagbreytingar séu til komnar vegna gróðurhúsaáhrifa af völdum manna séu meira en 90%.
Þegar ráðið gaf út sína fyrstu skýrslu árið 1990 kom hinsvegar fram að hækkun hitastigs á jörðinni gæti eins verið af náttúrulegum orsökum, og að loftslagsbreytingar væru innan marka sem gætu talist eðlileg. Niðurstöður þeirra skýrslna sem ráðið hefur gefið út síðan hafa verið á þá leið að áhrif manna á loftslagsbreytingar verði sífellt betur greinanleg.
Í kjölfar útgáfu nýjustu skýrslunnar hafa fjöldamörg umhverfissamtök hvaðanæva hrópað eftir aðgerðum á alþjóðavísu til þess að draga úr áhrifum vegna útblásturs gróðurhúsalofttegunda.
Á sama tíma láta efasemdarmenn í sér heyra, og telja þeir að skýrslan og sú umhverfishystería sem skapast hefur um hana sé ekkert annað en hræðsluáróður.
Nýlega var sýnd í bresku sjónvarpi mynd sem ber nafnið The Great Global Warming Swindle, og hefur hún vakið hefur mikla athygli og hörð viðbrögð margra. Á heimasíðu myndarinnar er hægt að lesa sér til um þær helstu efasemdir sem uppi eru um að loftslagsbreytingarnar séu af mannavöldum. Þar er til að mynda komið inn á það að náttúrulega fyrirbærið spúandi eldfjall láti frá sér miklu mun meira af koltvísýringi út í andrúmsloftið í heildina heldur en athafnir mannanna nokkurn tímann.
Þó að skýrslan sé sögð studd af meira en tvö þúsund leiðandi vísindamönnum í heiminum, hafa samt sem áður fjölmargir vísindamenn stigið fram sem ekki segjast geta lagt blessun sína yfir niðurstöður hennar. Þeir tala m.a. um að hækkun hitastigs á jörðinni hafi byrjað um 800 árum áður en stig koltvísýrings fóru að hækka. Sömuleiðis hefur verið bent á að í kjölfar seinni heimstyrjaldarinnar sem hafði í för með sér mikinn útblástur koltvísýrings, hafi hnattrænt hitastig fallið í fjóra áratugi eftir 1940, og virðast því margir vísindamenn á einu máli um að raunverulegar ástæður loftslagsbreytinganna megi rekja til annarra ástæðna en að þær séu af mannavöldum.
Flestir efasemdarmenn virðast sammála um það að loftslagsbreytingar í heild sinni séu of flókið fyrirbæri til að raunverulega sé hægt að kveða á um það hvort að einhverjar sértækar aðgerðir til að minnka CO2 útblástur hafi nokkuð að segja. Aðrir benda á að raunhæfast sé að eyða kröftunum í að reyna að búa mannkynið undir óumflýjanlegar afleiðingar loftslagsbreytinga í framtíðinni.
Þeir sem vilja kynna sér efnistök myndarinnar frekar geta séð hana hér:
- Afstæðar og óbærilegar raunir - 25. mars 2021
- Konan sem vissi ekki að hana vantaði jarðskjálfta - 22. október 2020
- Offita og aumingjaskapur - 15. ágúst 2007