Viacom hefur kært YouTube, hluta af Google-samsteypunni, fyrir að brjóta gegn höfundarréttarlögum og fer fram á einn milljarð Bandaríkjadala í skaðabætur. Viacom heldur því fram að YouTube hafi birt stolið efni frá fyrirtækinu, meðal annars myndbrot úr fjölda vinsælla sjónvarpsþátta. Ætli þetta marki upphafið á endanum fyrir þennan besta vin iðjuleysingjans?
YouTube, sem Google keypti í október síðastliðnum fyrir 1,65 milljarða dala, byggir gríðarlegar vinsældir sínar á því að bjóða myndefni af öllu milli himins og jarðar. Enginn greinarmunur er gerður á myndum sem skapaðar eru af notendum síðunnar eða stolnu efni frá sköpurum kvikmynda og sjónvarpsþátta.
Það er einmitt síðarnefndi þáttur starfseminnar sem að sjálfsögðu er aðal aðdráttaraflið en gerir fyrirtækið jafnframt berskjaldað gagnvart lögsóknum af þessu tagi. Í kærunni segir Viacom YouTube lítið sem ekkert gera til að koma í veg fyrir þessar birtingar því þær auki gildi auglýsinga á síðunni og eru þannig hornsteinninn að viðskiptamódeli YouTube.
Viacom heldur því fram að um 160 þúsund myndbrot sé að ræða sem höluð hafa verið niður vel á annan milljarð skipta.
Vörn YouTube felst að miklu leyti í staðhæfingu þeirra um að þrátt fyrir að myndbrotin séu ekki birt með leyfi eigendanna þá auki þau eingöngu á vinsældir sjónvarpsstöðvanna og bjóði skemmtanafyrirtækjum uppá ný og spennandi markaðstækifæri. YouTube hefur gert leyfissamninga við marga stóra aðila í skemmtanaiðnaðinum, meðal annars við BBC, og hafa jafnframt heitið því að þróa tækni sem auðveldar þeim að hafa hemil á lögvernduðu efni.
Margir, Viacom þar á meðal, segja þetta innantóm loforð hjá YouTube. Fyrirtækið hafi oft sagst ætla að stemma stigu við þessu vandamáli en lítið sem ekkert orðið ágengt. Það lítur því út fyrir að eitthvað meira þurfi að gerast að þessu sinni ef YouTube á að lifa af þessar kröfur Viacom, og þær fjölmörgu aðrar kærur sem fylgja í kjölfarið ef sú fyrsta ber árangur.
Það eru væntanlega margir sem vona að YouTube standist áhlaupið og haldi áfram að veita okkur gleði og gagnslausar upplýsingar um ókomna framtíð. Sem hreinræktuð skrifstofublók stóran hluta dagsins er ég svo sannarlega í þeim hópi og lýsi hér með yfir eindregnum stuðningi við starfsemi YouTube, þessa sannkallaða Hróa Hattar samtímans.
- Svarta gullið - 26. maí 2010
- Frumvarpið sem mun breyta Bandaríkjunum - 6. apríl 2010
- Kafbátarnir á kaffistofunum - 29. janúar 2009