Í Fréttablaðinu kemur fram að þverpólísk samstaða sé um að tímabært sé að endurskoða málefnaskiptingu Stjórnarráðsins, en fyrir liggur að ráðuneyti má ekki setja á stofn né leggja af nema með lögum og er greining Stjórnarráðsins í ráðuneyti því undir löggjafanum komin. Fjöldi ráðuneyta er bundin í lög um Stjórnarráð Íslands frá 1969.
Í dag eru ráðuneytin 14 talsins: Forsætisráðuneyti, dóms- og kirkjumálaráðuneyti, félagsmálaráðuneyti, fjármálaráðuneyti, Hagstofa Íslands, heilbrigðis- og tryggingarmálaráðuneyti, iðnaðarráðuneyti, landbúnaðarráðuneyti, menntamálaráðuneyti, samgönguráðuneyti, sjávarútvegsráðuneyti,umhverfisráðuneyti,utanríkisráðuneyti og viðskiptaráðuneyti – og hefur þessi skipan verið nánast óbreytt frá setningu laganna að undanskyldu umhverfisráðuneytinu sem bættist við síðar.
Mikilvægt er að Stjórnarráðið verði aðlagað að breyttum aðstæðum og taki mið af þeim samfélags breytingum sem átt hafa sér stað frá því að lögin voru fyrst sett. Á þeim tíma voru stjórnvöld beinir þátttakendur í ákveðnum atvinnugreinum og atvinnulífið einhæft, en undanfarin ár hefur ríkisvaldið verið að losa sig út úr atvinnurekstri og þar með minnkað afskipti sín af atvinnulífinu. Það skiptir höfuð máli að atvinnulífið sé laust við álögur og afskipti af hálfu hins opinbera. Hlutverk stjórnvalda á að vera að skapa atvinnulífinu hagstæð rekstrarskilyrði á jafnræðisgrundvelli, en ekki ívilna ákveðnum atvinnugreinum sérstaklega. Ríkisvaldið á ekki að hafa sértæka stefnu í atvinnumálum. Nauðsynlegt er að tryggja að atvinnulífið sé sem fjölbreyttast og hlutverki ríkisins sé haldið í lágmarki.
Sameining og fækkun ráðuneyta hefur lengi verið í umræðunni og hafa ýmsar ólíkar hugmyndir verið settar fram þessu tengdar, en svo virðist sem forystumenn stjórnmálaflokkanna séu nú loksins sammála um að atvinnuvegaráðuneytin fjögur; sjávarútvegsráðuneytið, landbúnaðarráðuneytið, iðnaðarráðuneytið og viðskiptaráðuneytið, skuli sameinuð í einu ráðuneyti atvinnuvega. Þetta er mjög jákvæð þróun, enda kostir sameiningar margvíslegir.
Ætla verður að sameining þessara ráðuneyta hafi margþætt áhrif, en ljóst er að fjárhagslegt hagræði næst fram þar sem yfirbygging minnkar og ákveðin samlegðaráhrif nást fram. Aukin skilvirkni og hagkvæmni eru lykilþáttur í einföldun stjórnsýslunnar. Eitt öflugt ráðuneyti atvinnuvega í stað margra smárra stendur sterkara að vígi gegn utanaðkomandi áhrifum og minnkar jafnframt líkurnar á því að verkefni skarist eða heyri undir fleiri en eitt ráðuneyti. Með því að sameina krafta þessara ráðuneyta í einu verður sérfræðiþekkingin betur nýtt atvinnulífinu til hagsbóta.
Í dag eru tæplega 1/5 þingmanna ráðherrar – við sameiningu fyrrgreindra ráðuneyta myndi þeim fækka úr 12 í 10. Tímabært er að lög um Stjórnarráð Íslands séu endurskoðuð í heild sinni. Fram hafa komið ýmsar aðrar hugmyndir um breytingu á málefnaskipan ráðuneytanna sem eru margar hverjar áhugaverðar, en ekki verður farið nánar út í hér. Ljóst er að þverpólitísk sátt er um eitt ráðuneyti atvinnuvega – nú er bara að vona að hugmyndin verði færð til framkvæmda sem fyrst.
- Þessi blessaða veira er fordómalaus, reynum að vera það líka - 30. mars 2021
- Má ég faðma þig? - 13. janúar 2021
- Til hamingju Frú Vigdís - 15. apríl 2020