Í vikunni var kynnt frumvarp til nýrra jafnréttislaga. Ber þar ýmislegt á góma en grundvallarhugsunin og það sem mestu máli skiptir er að allir eru á einu máli um það að kynbundinn launamunur upp á 15,7% er óásættanlegur í lýðræðisríki á 21. öld. Þá virðast flestir sammála um það að réttlætanlegt sé að ríkið láti til sín taka til þess að jafna stöðuna.
Markmið frumvarpsins eru um flest mjög góð, svo og öll ákvæði þess sem snúa að upplýsingaöflun, rannsóknum og fræðslu á þessu sviði. Í umræðunni undanfarna daga hefur hins vegar borið langhæst umræða um svokallað „afnám launaleyndar“.
Það þykir rétt að leiðrétta tvö atriði sem virðast hafa verið misskilin í þessari umræðu. Það er í fyrsta lagi eins og einhvers staðar hafi sagt í lögum að „launaleynd“ gilti í landinu og nú verði hún afnumin. Svo er að sjálfsögðu alls ekki og er þetta einungis eitt af þeim atriðum sem sumir launamenn semja um við vinnuveitanda sinn þegar þeir ráða sig til vinnu. Hitt er að „afnám launaleyndarinnar“ feli það í sér að Jón eigi nú rétt á því að vita hvað Gulli á næsta borði er með í laun. Svo er að sjálfsögðu ekki heldur. Hér er einungis um það að ræða að það má ekki reka Jón fyrir það að segja Gulla hvað hann er með í laun.
Það er erfitt að sjá fyrir sér að þetta muni hafa mikil áhrif í átt til jafnréttis. Það hefur aldrei verið neitt sérstaklega til siðs hér á landi að tala um hvað þú ert með í laun, hvað þú átt mikinn pening á sparireikningum þínum eða hvaða stjórnmálaflokk þú kýst. Lagasetning mun engu breyta þar um. Að sama skapi er ekki heldur hægt að taka undir það sjónarmið að atvinnurekendum standi einhver sérstök ógn af þessu ákvæði. Ef það er almennt ekki til siðs eða illa séð á einhverjum vinnustað að ræða opinskátt um laun þá mun lagaákvæði ekki breyta því neitt.
Hitt er sínu verra ákvæði frumvarpsins um að hlutfall kynja í stjórnum, nefndum og ráðum á vegum ríkis og sveitarfélaga skuli vera jafnt. Það er algjör samstaða og einhugur um það í kerfinu að reyna eftir fremsta megni að jafna hlut karla og kvenna í nefndum og ráðum – og það er að miklu leyti gert. Má til marks um það nefna að þessi leið sem lagt er til að lögbinda er nú þegar farin í framkvæmdaráætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum. Það þarf ekki lagasetningu til og það lög sem munu klárlega leiða til þess í einhverjum tilvikum að karl eða kona verður valin í viðkomandi starf bara vegna kynferðis og þá er þetta nú búið að fara í einhvern undarlegan hring.
Það sem kannski er ekki síður markvert í þessum lögum eru þær miklu stjórnsýslulegu heimildir sem jafnréttisstofa og kærunefnd jafnréttismála fá. Má þar nefna að úrskurðir kærunefndarinnar verða nú bindandi og að ef kærandi hefur unnið mál fyrir nefndinni en gagnaðili vill ekki una úrskurðinum og höfðar mál til ógildingar fyrir dómstólum þá skal kærandi njóta gjafsóknar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Einu skyldu menn heldur ekki gleyma í allri þessari umræðu, en það er að allt kostar þetta sitt og skal það greitt af skattpeningum landans, sem skulu nú fjármagna rekstur jafnréttistofu, kærunefndar jafnréttismála, jafnréttisráð, jafnréttisþing og jafnréttisfulltrúa. Það er eðlilegt að grípa til sértækra aðgerða á kostnað skattborgaranna þegar markmiðin eru skýr og færa má sterk rök fyrir því að þegar þeim er náð hafi það skilað samfélagslegum og fjárhagslegum árangri. Jafnvel þótt jafnréttisfulltrúunum og jafnréttisráði hefði verið sleppt og verkefnum allra ofangreindra aðila hagrætt frekar er erfitt að ímynda sér að það mundi hafa mikil áhrif á baráttuna, ein nefndin eða einn fulltrúinn enn mun ekki jafna laun kynjanna.
- Farsæld barna - 28. apríl 2021
- Barnavernd og efnahagskreppur - 23. mars 2021
- 165 lögverndaðar starfsgreinar - 25. nóvember 2020