Sumir eru seinheppnari en aðrir. Um þetta þarf víst ekkert sérstaklega að deila , enda þekkja flestir til einhvers/einhverra sem eru bara ekki eins heppnir í lífinu og aðrir. Hver á sér ekki frænda sem virðist geta slasað sig og meitt á öllu því sem ekki virðist vera hættulegt við fyrstu sýn, eða frænku sem lætur fólk plata sig í sífellu um atriði sem ekki á að vera hægt að plata með.
Seinheppni virðist vera eins konar karaktereinkenni á sumu fólki. Iðulega er það þá þannig að gerðir þess hafa engin áhrif á seinheppni þess, heldur lendir fólk í hinu og þessu, jafnvel þótt um mótaða ákvörðun hafi verið að ræða. Hver kannast ekki við frásagnir um að einhver hafi lent í gjaldþroti, eða í því að sparka í einhvern mann í leigubílaröð, eða í árekstri. Stjórnmálamenn lenda líka stundum í þessu. Hver man nú ekki Steingrím þegar hann sagðist bara hafa verið plataður.
Reyndar mætti rannsaka seinheppni samfélagsins mun betur og meira heldur en nú hefur verið gert. Gæti hér verið ágætis sóknarfæri til þess að koma upp nýrri rannsóknarmiðstöð á landsbyggðinni á sviði seinheppni, til dæmis í Búðardal. Væri hugsanlega þörf á því að 15 stöðugildi ynnu að því í sífellu að rannsaka seinheppni og tengsl hennar við sjálfráða og ósjálfráða taugakerfið. Yrði þá horft hátt ofan heim alls til Búðardals sem miðstöðvar á þessu sviði.
Seinheppnasta saga samtímans birtist hins vegar í fjölmiðlum nýverið um innbrotsþjófa sem brutust inn í raftækjaverslun til þess að stela flatskjám. Gekk þeim vel að komast inn í verslunina og ná í þýfið, en þegar þeir ætluðu aftur út uppgvötuðu þeir sér til mikillar skelfingar að þeir hefðu læst sig inni. Voru góð ráð dýr-í bókstaflegri merkingu-þar sem þeir ákváðu að brjóta sér leið út um rúðu og notuðu til þess annan flatskjáinn. Í einhverju óðagoti gleymdu þeir síðan að taka hinn með sér og stóðu uppi slyppir og snauðir í kjölfarið og án þess að hafa nælt sér í flatskjá. Síðan var innbrotið að sjálfsögðu allt tekið upp á eftirlitskerfi verslunarinnar, svo þessir seinheppnu innbrotsþjófar gætu átt það líka á hættu að verða teknir fyrir innbrotið-sem mistókst með svo hrikalegum hætti.
Gæti hér verið komið fyrsta rannsóknartilfelli nýrrar miðstöðvar um rannsóknir á seinheppni í Búðardal vestur.
Góða helgi!
- Kveikt er ljós við ljós – burt er sortans svið - 24. desember 2020
- Hæstivirtur forseti,Royal Straight Flush! - 21. febrúar 2008
- Má Kaupþing þetta? - 7. nóvember 2007