Nú þegar formenn stjórnarflokkanna hafa lagt fram frumvarp um breýtingu á stjórnskránni í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þar að lútandi er afar mikilvægt að meðferð frumvarpsins uppfylli þær kröfur sem gera verða þegar breytingar á stjórnarskrá eru annars vegar. Þótt frumvarpið hafi borið að með óvenjulegum hætti má ekki neinum kringumstæðum víkja frá kröfum um vandaða málsmeðferð.
Deilur um kvótakerfið sem fest var í sessi með lögum um stjórn fiskveiða frá 1990 eru ástæða þess að til stendur nú að binda í stjórnarskrá ákvæði um þjóðareign að náttúruauðlindum. Leiðarahöfundur er þeirrar skoðunar að ákvæði um þjóðareign á auðlindum eigi ekkert erindi í stjórnarskrá. Það þarf ekki að taka það fram að Íslendingar eiga Ísland og sérstök yfirlýsing þar að lútandi er merkingarlaus í raun. Það er því eðlilegt að spurt sé til hvers refirnir séu skornir.
Stjórnarsáttmáli sá sem Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur gerðu með sér að loknum síðustu alþingiskosningum og samþykktur var í báðum þingflokkum er hins vegar afdráttarlaus: Ákvæði um að auðlindir sjávar séu sameign íslensku þjóðarinnar verði bundið í stjórnarskrá. Raunar var einnig sambærilegt ákvæði í stjórnarsáttmála flokkanna frá 1995 og í kjölfarið var auðlindanefnin svokallaða sett á laggirnar.
Í ályktun um sjávarútvegsmál frá síðasta landsfundi Sjálfstæðisflokksins var fjallað um stjórnarskrárákvæði um sameign þjóðarinnar að auðlindum sjávar á þann hátt að yrðu ákvæði um þjóðareign á auðlindum sett í stjórnarskrá skyldi gæta jafnræðis varðandi allar auðlindir í þjóðareigu og kveðið yrði á um rétt þeirra sem auðlindirnar nýttu. Í þessu ljósi er afar mikilvægt að sú tillaga sem liggur fyrir af hálfu formanna stjórnarflokkanna feli í sér beina tilvísun í eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar:
„Náttúruauðlindir Íslands skulu vera þjóðareign, þó þannig að gætt sé réttinda einstaklinga og lögaðila skv. 72. gr. Ber að nýta þær til hagsbóta þjóðinni, eftir því sem nánar er ákveðið í lögum. Ekki skal þetta vera því til fyrirstöðu að einkaaðilum séu veittar heimildir til afnota eða hagnýtingar á þessum auðlindum samkvæmt lögum.“
Í greinargerð með frumvarpinu kemur skýrt fram að ákvæðið hefjist á „stefnuyfirlýsingu sem minnir á mikilvægi þess að varðveita forræði Íslendinga yfir náttúruauðlindum sínum“ og að með hugtakinu þjóðareign sé lögð áhersla á þá ríku sameiginlegu hagsmuni sem allir Íslendingar hafa af því að nýting auðlinda til lands og sjávar fari fram með skynsamlegum hætti. Tilvísunin í 72. gr. er einnig mjög afdráttarlaus og fær aukinn stuðning í greinargerðinni þar sem segir:
„Eru tekin af tvímæli um að ekki sé haggað við slíkum eignar- eða afnotarétti. Með ákvæðinu er til dæmis ekki haggað við eignar- og afnotaréttindum þeirra sem hagnýta jarðir og ýmis fasteignatengd réttindi eða stunda fiskveiðar á grundvelli veiðiheimilda.“
Það eru auðvitað merk tíðindi að réttindi þeirra sem nýta auðlindir sjávar, sem valdið hafa miklum og djúpstæðum deilum í íslensku samfélagi frá árinu 1990, skuli nú fá sérstaka vernd í stjórnarskránni.
Framhjá því verður hins vegar ekki litið að ýmis atriði frumvarpsins orka tvímælis. Þess vegna er afar brýnt að vandað verði til verka við þingmeðferð málsins. Ótækt er með öllu að stjórnarskrá Íslands sé breytt í óðagoti. Tryggja verður að ákvæði hennar séu skýr og hafin yfir allan vafa. Að sama skapi skiptir miklu máli að víðtæk sátt sé um breytinguna enda löng og góð hefð fyrir því að breytingar á stjórnarskrá njóti víðtæks stuðnings kjörinna fulltrúa. Að standa öðruvísi að málum væri mikil afturför.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021