Ný skýrsla um áhrif fæðingarorlofslaganna var kynnt á blaðamannafundi sem haldinn var á miðvikudaginn síðastliðinn. En á fundinum var einnig kynnt hið nýja frumvarp um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla sem vakið hefur mikla athygli.
Ingólfur V. Gíslason sviðstjóri Jafnréttisstofu og höfundur skýrslunnar kynnti hana á blaðamannafundinum. Hann ræddi hin jákvæðu áhrif feðraorlofsins. En strax fyrsta árið sem fæðingarorlofslögin gengu í gildi tóku 82,4% karlmanna fæðingarorlof og árið 2004 var þetta hlutfall komið upp í 89,8%. Áður en lögin gengu í gildi tóku aðeins örfáir karlmenn fæðingarorlof hér á landi. Fæðingartíðni hefur að sama skapi aukist á Íslandi í kjölfar laganna. En áður en lögin tóku gildi var fæðingartíðni hér á landi 1,9 barn á konu en var komið upp í 2,1 barn á konu árið 2004.
Þetta vekur mikla athygli í Evrópu þar sem fæðingartíðni fer lækkandi. Hefur þessari lækkandi fæðingartíðni verið líkt við sameiginlegt sjálfsmorð í Evrópu. Getgátur hafa verið uppi um hvort aukið menntunarstig kvenna hafi þar áhrif. En á Íslandi eru 80% kvenna á vinnumarkaði og hefur menntunarstig kvenna verið í mikilli uppsiglingu. Í ýmsum löndum Evrópu hefur verið brugðið á það ráð að breyta lögum í átt við það sem er á Íslandi.
Í Danmörku er lág fæðingartíðni mikið áhyggjumál ráðamanna þar og stefna þeir að því að lagabreytingum sem geri fólki auðveldara að sameina einkalíf og vinnu. Þar í landi er fæðingarorlof eitt ár en níu mánuðir á Íslandi. Þetta er athyglisvert í ljósi umræðu stjórnmálaflokka á Íslandi um lengingu fæðingarorlofs í eitt ár, þar sem hvort kynið um sig eigi rétt á sex mánaða fæðingarorlofi. Reynslan á hinum Norðurlöndunum er þó ekki í takt við þær væntingar sem eru af lengingu fæðingarorlofs. Hlutfall barna yngri en eins árs á dagvistunarstofnunum hefur ekki minnkað í Danmörku þrátt fyrir lengingu fæðingarorlofsins. Skýringar eins og skortur á vinnuafli og aukið menntunarstig sem þrýsti á fólk að taka sér ekki of langt frí frá vinnumarkaðnum hafa verið haldið á lofti þar í landi.
Á Íslandi stöndum við framar hinum Norðurlöndunum varðandi hlutfall fæðingarorlofs sem bundið er körlum. En mikið er þó einblínt á þessa lengingu fæðingarorlofsins sem er lengri á hinum Norðurlöndunum. Nærri lagi væri að flagga því betur hversu frábært við höfum það hér á landi og einbeita sér frekar að lausnum eins og að skapa millistig í dagvistunarmálum ungra barna en ekki skyndilausnum. Einnig getum við státað okkur af því að við séum á réttri leið varðandi launajafnréttið með mikilli atvinnuþátttöku kvenna og þeirri staðreynd að íslenskir karlmenn fara í feðraorlof.
Heimild: Mbl.is
- Áður en ég dey… - 10. júlí 2008
- Góðmennskan og hjálpsemin uppmáluð í 80 ár - 25. júní 2008
- Öfgar og áróður - 12. apríl 2008