Af nytjahámörkun hagfræðinga og annars fólks

Hagfræði fjallar um hegðun hins eigingjarna nytjahámarkara – Homo Economicus – sem stjórnast af markaðshvötum og miðar ávallt að því að hámarka eigin nytjar. En hver er þessi Homo Economicus?

Nokkur nytjaföllHomo Economicus – hinn eigingjarni nytjahámarkari – hefur tíu fingur og tíu tær rétt eins og aðrir prímatar, og er ekki sérstaklega óvenjulegur í útliti. Það sem einkennir hinn eigingjarna nytjahámarkara er nytjafallið, lítil stærðfræðiformúla djúpt í sál hans. Inn í formúluna fer ytra umhverfi nytjahámarkarans og út spýtast heildarnytjar hans.

Þegar nytjahámarkarinn veltir fyrir sér hvernig hann á að bregðast við tilteknum aðstæðum er aðeins eitt sem skiptir máli: Hvernig lítur nytjafall hans út, og hvaða áhrif hafa gjörðir hans á þá þætti umhverfisins sem munu enda inni í nytjafalli hans í framtíðinni (dæmi um nokkur einföld nytjaföll má sjá á meðfylgjandi mynd). Ef óvissa ríkir um afleiðingarnar þarf hann að ákvarða líkindadreifingu þessara afleiðinga og hámarka svo væntar heildarnytjar. Nytjafall annarra einstaklinga hefur ekki áhrif á gjörðir eigingjarna nytjahámarkarans, nema að því leyti sem það er líklegt til að hafa áhrif á þeirra hegðun í framtíðinni, sem aftur gæti breytt umhverfi nytjahámarkarans til hins betra eða verra, og þar með haft óbein áhrif á hans væntu framtíðarnytjar.

Hvað þýðir þetta í raun og veru? Eigingjarnir nytjahámarkarar gera margt á nákvæmlega sama hátt og aðrir, en sumt geira þeir ekki. Þeir hjálpa til dæmis ekki samstarfsmönnum sínum nema það styðji við þeirra eigin starfsframa, þeir taka ekki upp tyggjóbréf upp af götunni, þeir borga ekki skattana sína ef þeir komast upp með að gera það ekki, og þeir gefa ekki til góðgerðarmála. Engu að síður eru þetta hlutir sem venjulegt fólk gerir á hverjum degi, og sem óumdeilanlega bæta samfélagið sem við búum í.

Nú kann að vera að einhver velti fyrir sér hvaða máli þetta skipti eiginlega? Eigingjarni nytjahámarkarinn er jú einfaldlega líkan – rétt eins og viðnámslausir fletir og óendanlegar línur – sem ekki er til í raunveruleikanum. Ef fólk hegðar sér að nokkru leyti samræmi við líkanið þá er skynsamlegt að nota það, annars ekki.

Þar sem hagfræði gengur út á að fólk hegði sér eins og eigingjarnir nytjahámarkarar er athyglisvert að velta fyrir sér hverjir það eru sem hegða sér þannig í raun og veru. Og í ljós kemur að hagfræðingar sjálfir virðast eiga mun meira sameiginlegt með eigingjarna nytjahámarkaranum en meðalmaðurinn, og nám í hagfræði virðist auka eigingirni fólks.

Sem dæmi má nefna að hagfræðiprófessorar eru ólíklegri til að gefa til góðgerðarmála en aðrir háskólaprófessorar. Í tilraunum eru nemendur í hagfræði líka ólíklegri en aðrir háskólanemar til að velja samstarf og líklegri til að hegða sér á eigingjarnan hátt. Þeir eru ólíklegri til að segjast ætla að skila týndu peningaveski, og það sem meira er, líkurnar minnka eftir því sem þeir læra meiri hagfræði.

Þessar niðurstöður eru að sjálfsögðu ekki algildar, og margir hagfræðingar eru óeigingjarnir og hjálpsamir, rétt eins og annað fólk. En vísbendingarnar eru flestar á sama veg, og gefa til kynna að við það að læra kenningar um eigingjarna nytjahámörkun verði fólk ólíklegra til að láta gott af sér leiða í samfélaginu á óeigingjarnan hátt.

Þetta er að sjálfsögðu nokkuð vandamál, þar sem hvatar hafa oft mjög jákvæð áhrif á hegðun fólks, og þekking á hagfræði getur forðað fólki frá mjög heimskulegu athæfi, eins og bent hefur verið ítrekað á hér á Deiglunni. Aukin eigingirni hagfræðinga virðist engu að síður vera dæmi um neikvæð ytri áhrif af hagfræðinámi, sem ætti samkvæmt hefðbundnum hagfræðikenningum að taka tillit til þegar metið er hvort hagfræðimenntun eigi að vera skattlögð eða niðurgreidd.

Hér verður ekki lagt til að taka upp slíka skattlagningu, enda er það mat pistlahöfundar að jákvæðu ytri áhrifin af hagfræðimenntun séu stórum meiri en þau neikvæðu. Engu að síður er þetta nokkuð sem gott er að hafa í huga þegar hagfræðingar og aðrir standa frammi fyrir aðstæðum þar sem þeir þurfa að meta hverjar þeirra skyldur eru gagnvart samfélaginu og samborgurunum.


Heimildir: Frank, Robert H., Thomas Gilovich, et al. (1993). „Does Studying Economics Inhibit Cooperation?“ The Journal of Economic Perspectives 7(2): 159-171.

Latest posts by Magnús Þór Torfason (see all)