Það er búið að bíða lengi eftir nýja náttúruverndarframboðinu og enn er beðið. Ef marka má umræður á blog-síðum og yfirlýsingar Ómars Ragnarssonar og Margrétar Sverrisdóttur, þá styttist óðum í að tilkynnt verði formlega um framboðið – því hefur meira að segja verið valið nafn.
Það hljómaði afskaplega spennandi í haust þegar Framtíðarlandið var að leggja á ráðin um náttúruverndarframboð enda þar innanborðs fullt af fólki með mikinn áhuga á íslenskri náttúruvernd og að því er virðist einlæga hugsjón í þeim málum. Framtíðarlandið tók hins vegar formlega þá ákvörðun á fundi í febrúar að fara ekki í framboð. Hið nýja meinta náttúruverndarframboð verður því ekki undir merkjum hugsjónarhópsins Framtíðarlandsins.
Það dregur óneitanlega úr vægi framboðsins og það verður að viðurkennast að náttúruverndarsjarminn er ekki mikill fyrirfram miðað við fyrstu fréttir um hverjir koma til með skipa sæti á listunum, Margrét Frímannsdóttir, Jón Baldvin Hannibalsson og Jakob Frímann.
Ef það skyldi dyljast einhverjum þá eru þetta landflótta stjórnmálamenn úr öðrum flokkum; samfylkingu og frjálslyndum. Fólk sem hingað til hefur ekkert sérstaklega gefið sig út fyrir að vera náttúruverndarsinnar, en virðist grípa hér tækifæri til að fara í framboð. Þau hefðu allt eins getað farið í framboð undir formerkjum aldraðra og öryrkja og það hefði að mörgu leyti verið trúverðugra, sérstaklega fyrir Margréti.
Það er líka nákvæmlega hér sem skilur á milli þess að þetta verði framboð um eitt mál „náttúruvernd“ líkt og kvennalistinn var á sínum tíma um „kvennfrelsi og jafnréttismál“. Margrét, Jón og Jakob eru ekkert að fara á þing bara fyrir náttúruverndarmálin – þau hafa miklar skoðanir á svo mörgu fleiru.
En það verður óneitanlega mjög spennandi að sjá hver stefnumál þessa framboðs verða og þá um leið til hvaða kjósendahóps þau eru að fara að höfða. Fyrirfram má gera ráð fyrir að Jón Baldvin og Jakob munu hafa með sér fylgi frá samfylkingunni, Margrét frá frjálslyndum og Ómar sennilega mest frá vinstri grænum.
Miðað við þann stutta tíma sem er fram að kosningum verður hópurinn að halda gríðarlega vel á spöðunum, sérstaklega ef bjóða á fram í öllum kjördæmum. Ef vel tekst til með náttúruverndarstefnu flokksins og önnur mál þá verður það fagnaðarefni fyrir alla sem láta sig náttúruvernd varða. Framboð undir merkjum Framtíðarlandsins með einlæga náttúruverndasinna í fararbroddi hefði þó fyrirfram verið meira spennandi.
- Farsæld barna - 28. apríl 2021
- Barnavernd og efnahagskreppur - 23. mars 2021
- 165 lögverndaðar starfsgreinar - 25. nóvember 2020