Oft er því haldið fram að lögfræði sem fræðigrein sé innilokuð í beinhvítum fílabeinsturni og lögfræðingar séu ekkert annað en firrt fólk sem vitni til laga og fordæma og venja í stað þess bara að taka undir með samfélaginu um hvernig beita beri lögum og hvað eigi að vera lög. Er að sjálfsögðu tekið undir þetta án nokkurs einasta fyrirvara!
Sú gagnrýni á oftast rætur að rekja til þess að í stað þess að beita aðferðum lögfræðinnar sem meira eru almennar og hlutlægar til þess að komast að niðurstöðu, er beitt öðrum huglægari og einstaklingsbundnari mælikvarða á réttláta og sanngjarna niðurstöðu.
Helgarnestið er því á lagalegum nótum í dag og mun fara vítt og breitt um nokkur atriði bótaréttar sem lesendur gætu haft áhuga á.
Möguleiki á tilvist skaðabótaskyldu heillar marga, og er tungunni það tamast sem hjartanu er kærast. En útreikningur og fjárhæð skaðabóta geta verið misjöfn eftir því hvaða mælikvarða er beitt við matið. Ekki hjálpar almenningi við slíkt mat að skaðabætur í bandarískum lagaþáttum eru annars og veglegri eðlis heldur en þær naglskornu skaðabætur sem tíðkast að íslensku réttarfari.
Minnist helgarnestið í þessu sambandi þess þegar ónefndur tannlæknir var með dólgslæti í flugvél á leiðinni yfir hafið til Bandaríkjanna með þeim afleiðingum að hann var afhentur bandarískum yfirvöldum til varðveislu. Í viðtali við sjónvarp lýsti hann því yfir að hann hygðist stefna flugfélaginu og markmið málsóknarinnar væri tvíþætt. Í fyrsta lagi vildi hann réttlæti og í annan stað vildi hann skaðabætur. En þær skaðabætur áttu ekki að vera skornar við nögl heldur áttu að nema milljónum króna. Þurfti því ekki að ræða málið frekar. Ekki fréttist meira af málsókn tannlæknisins góðglaða eða hvort hann hafi hlotið skaðabætur.
En áfram með bótarétt. Í dönskum skaðabótarétti, sem síðar hefur orðið íslenskur, finnst hugtak sem íslenskað hefur verið sem selskapstjón. Er hér í stuttu máli sagt um að ræða tjón sem gestir valda í heimsóknum hjá öðrum og hvernig fer með bótaskyldu. Myndi hér undir falla meðal annars þegar ölvaður eldri frændi slær niður mæðradagsplatta af vegg í ógáti, eða þegar þrifaleg frænka í efri þyngdarflokki missir jafnvægið og dettur á borð hlaðið af mávastellsbollum og diskum. Í báðum tilfellum væri ekki um hægt að krefjast skaðabóta af þessum ættingjum sínum, þar sem talið er að með því að bjóða gestum inn taki gestgjafi ákveðna áhættu í tengslum við að gestir valdi tjóni fyrir ógát eða klaufaskap. Án slíkrar reglu væri einnig hætta á að fólk hætti að heimsækja hvert annað, eða hætti að vera vinir út af bótaglöðum gestgjöfum. Slíkt er almennt óæskilegt í samfélagi. Ofangreind regla gildir hins vegar ekki ef gestur fer óumbeðinn að hjálpa til við húsverkin svo sem að varta eða vaska upp. Þannig er ekkert því til fyrirstöðu að sækja bætur til tengdamóður sem missir niður rauðvínskaröflu í nýkeypt kókosteppi!
Að lokum þetta:
Ekki hafa menn verið sammála um hvort notendur getnaðarvarnar sem haldinn er galla geti fengið miskabætur hjá framleiðanda hennar vegna ótímabærrar þungunar. Annars vegar gætu þeir fengið bætur fyrir þau óþægindi og miska sem þungunin hefur haft í för með sér og hins vegar fjárhagslegar bætur þar sem áætluð væri útgjöld af uppeldi barns til 18 ára aldurs, að frádregnu hagræði sem hafa mætti af barni og því að skaðabætur eru greiddar í eingreiðslu. Flestir hafa fræðimenn hallast að því að þetta sé ekki bótaskylt.
En fyrir áhugamenn um skaðabótarétt er áhugavert álitmál uppi. Lögreglan stöðvaði í gær ökumann fyrir of hraðan akstur. Ökumaðurinn kannaðist við að hafa ekið of hratt en gat trauðla leynt vonbrigðum sínum með að radarvari sem hann hafði fest kaup á fyrr um daginn virkaði augljóslega ekki. Ökumaðurinn ætlaði sér að fara og rifta þessum kjarakaupum.
Vakna þá einhverjar spurningar sem vert er að spyrja lesendur Deiglunnar:
1) Getur hinn óheppni kaupandi radarsins krafið seljandann um skaðabætur?
2) Ef það er mögulegt hvernig á að ákvarða þær bætur?
3) Ef seljandinn er bótaskyldur getur hinn óheppni kaupandi komið sviptingu ökuleyfisins yfir á seljandann?
Svar má senda Helgarnestinu sem mun birta niðurstöður einhvern tíma síðar þegar vel stendur á.
Góða helgi!
- Kveikt er ljós við ljós – burt er sortans svið - 24. desember 2020
- Hæstivirtur forseti,Royal Straight Flush! - 21. febrúar 2008
- Má Kaupþing þetta? - 7. nóvember 2007