Í gær var virðisauki á matvælum og fleiri vörum lækkaður. Einhver mesta kjarabót sem Íslenskir neytendur hafa fengið í mörg ár, ekki síst stórar fjölskyldur sem þurfa að kaupa mikið inn fyrir heimilin. Ýmsir hafa verið að tala þetta niður sérstaklega stjórnandstaðan og bent á að fyrirtæki muni taka þetta til sín.
Raunin hefur verið allt önnur, þvert á móti hafa verslanir og þjónustu fyrirtæki ráðist í kynningar átök í kringum þetta. Bónus lækkaði virðisaukaskattinn strax viku fyrr en gaf í rauninni bara afslátt. Aðrar lágvörubúðir fylgdu með. Veitingastaðir auglýstu einnig lækkaðan virðisauka.
Það hefur verið algjör samstaða á öllum stöðum að þetta verði raunveruleg lækkun sem skili sér til neytenda. Það stefnir því í að þetta verði mjög góð aðgerð hjá ríkisstjórninni sem mun skila sér til allra, ekki síst þeirra sem virkilega þurfa á því halda, fjölskyldufólks með stórar fjölskyldur.
Strax í gær fóru neytendur að benda á fyrirtæki sem lækkuðu ekki, var gengið svo langt að litlir söluskálar út á landi voru sérstaklega tilkynntir til Morgunblaðsins fyrir að hafa ekki lækkað súpu dagsins. Þetta var þó skyndilega lagað og munu gestir staðarins fá ódýrari súpu í dag en í gær.
Íslendingar hafa ekki verið þekktir fyrir neytendavitund, og hafa Neytendasamtökin nánast talað út í vindinn þegar þau hafa verið að benda neytendum á misferli. Nánast einu aðilarnir sem hafa tekist að fá fólk til þess að versla ekki á ákveðnum stöðum voru rasistarnir sem gáfu út „svarta listann sinn“ á netinu og bentu öðrum rasistum á að versla ekki á ákveðnum stöðum, sem betur fer entist það þó ekki lengi.
Verði þessi breyting til þess að neytendavitund aukist á Íslandi, væri það öllum neytendum til góða. Samstöðuleysi neytenda á Íslandi er ein ástæðan fyrir háu vöruverði á landinu og að það eru kaupmenn sem ráða ferðinni frekar en neytendur. Maður efast þó um að þessi mikla neytendavakning lifi langt fram yfir helgi.
- Það er njósnað um þig - 24. febrúar 2021
- Nútímamaður - 11. júlí 2020
- Langa dimma vetur - 10. júlí 2020