Upphlaup varð á Alþingi í gærmorgun þegar að stjórnarandstöðuþingmenn nokkrir ætluðu ekki á sér heilum að taka eftir ummæli Péturs Blöndal, þingmanns Sjálfstæðisflokksins. Atvikið átti sér stað í umræðum um meðferðarstofnunina SÁÁ.
Sú ósvinna sem Pétur gerðist sekur um var að bera saman stjórnskipulega stöðu yfirlæknis SÁÁ við þá stöðu fyrrverandi forstöðumanns Byrgisins. Sagði Pétur einn og sama manninn vera yfirlækni, formann framkvæmdastjórnar og stjórnarformann sem uppfylli þannig öll sömu skilyrði og voru hjá Byrginu.
Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins og sameiginlegum hádegisfréttatíma Bylgjunnar og Stöðvar tvö var ítarlega greint frá þessu atviki. Í fréttum RÚV mátti heyra frammíköll úr þingsalnum eftir að Pétur hafði látið þessa bombu falla. Og í báðum fréttatímunum voru spiluð viðbrögð stjórnarandstöðuþingmanna sem kvöddu sér hljóðs í ræðustól til að lýsa hneykslun sinni.
Hinn orðvari Össur Skarphéðinsson, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, lagði til að þingforseti myndi ávíta Pétur fyrir “munnsöfnuð og orðavaðal.” Til þess kom þó ekki þar sem Pétur steig aftur í ræðustól og baðst afsökunar á orðum sínum.
Það eina sem Pétur gerði rangt í þessu atviki var að biðjast afsökunar. Hann kom með málefnalegan punkt inn í umræðuna þar sem hann var að gagnrýna það sem hann telur óeðlilega stöðu forstöðumanns stofnunar.
Þessi líking sem átti fullkomnlega rétt á sér var skotin niður á ómálefnalegan hátt af stjórnarandstöðuþingmönnum sem í hysteríu sinni sneru út úr orðum Péturs á þann máta að ætla mætti að hann hefði verið að líkja saman persónuleikum Þórarins Tyrfingssonar, yfirlæknis SÁÁ, og Guðmundar Jónssonar í Byrginu.
Það er ekki von að hægt sé að ræða mál af viti ef búast má við slíkum viðbrögðum sem er lýðskrum af verstu sort og virðast alþingismenn þurfa að stíga varlega til jarðar á því jarðsprengjusvæði sem ræðustóll Alþingis verður í aðdraganda kosninga.
- Vinnum upp mannfagnaði - 11. maí 2021
- Sameiginlegir hagsmunir - 6. apríl 2021
- Draumaverksmiðju-kryddið - 9. mars 2021