Fyrir þingkosningar 1999 heimsótti ég kosningaskrifstofur allra flokkanna. Fékk epli hjá vinstri grænum. Spurði þá hvert þeir hentu lífræna ruslinu. Var bent á að setja kjarnann í vaskinn en ég varð satt að segja ekkert allt of sannfærður um að kjarninn mundi verða að heimilisáburði innan nokkurra vikna.
Vinstri grænir eru auðvitað fyrst og fremst vinstri og miklu síður grænir. Græningjastefna þeirra felst nánast einungis í andstöðu við vondar erlendar stóriðjuframkvæmdir. Eitthvað segir mér að andstæðan við innlendar ríkisreknar stóriðjuframkvæmdir yrði töluvert minni.
Þeir vinstri grænir sem ég þekki ná venjulegum Meðal-Þjóðverja úr Hannover ekki uppi nös þegar kemur að umhverfisvænu líferni. Þeir taka ekki strætó fremur en aðrir Íslendingar, þeir hjóla ekki fremur en aðrir Íslendingar, þeir flokka ekki ruslið sitt sérstaklega nema kannski dósirnar og þeir fara út úr húsi með öll ljósin kveikt.
Það er auðvitað mun auðveldara að espa menn til baráttu gegn vondu útlendu stórfyrirtæki heldur en að láta þá fórna eigin þægindum í þágu umhverfisins. Þingmenn vinstri grænna hafa þannig ítrekað lýst efasemdum gegn hugmyndum um gjaldtöku vegna notkunar af umferðarmannvirkjum, sem er algjörlega fáranleg afstaða af flokk sem á að heita grænn.
Í umræðu um ný vegalög sagði Þuríður Backman meðal annars:
„Við höfum eingöngu þekkt gjaldtökuna frá Hvalfjarðargöngunum. Á sínum tíma rúmaðist sú mikla framkvæmd engan veginn innan fjárlagarammans eða möguleika þess að fara samkvæmt hefðbundnu leiðum í þá framkvæmd, en ég man svo vel eftir öðrum rökum sem voru látin gilda og þau eru, ég tel að þau séu alveg jafngild í dag, að það sé valkvætt. Hægt er að keyra áfram Hvalfjörðinn. Þetta er ekki eina leiðin vestur eða norður, hægt er að fara Hvalfjörðinn.“
Já, sko menn geta ennþá keyrt Hvalfjörðinn. Gjaldtaka á brúnni við Selfoss er þá væntanlega í lagi, því menn geta enn valið um að fara „hina leiðina“.
Þegar kemur að málefnum almenningssamgangna hefur stefna flokksins varla farið mikið út fyrir setninguna „efla beri almenningssamgöngur“. Til samanburðar má nefna að vefritið sem þessi orð eru skrifuð á hefur gegnum tíðina birt þrefalt fleiri greinar um strætó og almenningssamgöngur en vefur vinstri grænna. Ég veit reyndar ekki hvort orðin „strætó“ og „almenningssamgöngur“ koma einu sinni fyrir í nýrri landsfundarályktun flokksins. Ég finn þau allavega ekki. Rétt fyrir seinustu kosningar lagði Árni Þór reyndar til að Strætó bs. yrði lagt niður og SVR komið á aftur. Frábær hugmynd: að láta ganga til baka eina af fáum virkilega góðum ákvörðunum í málefnum strætisvagna höfuðborgarsvæðisins seinustu ára.
Sjálfur á ég ekki bíl, heldur ýmist hjóla ég í i vinnuna eða tek strætó. Mér hefur ég fundist vera hálfgerður fugl með þessa afstöðu, miðað við staðsetningu mína á stjórnmálasviðinu. En það kemur í ljós að ég mundi þykja ekki síðra fyrirbæri ef ég léti sjá mig á hjólinu á seinasta landsfundi vinstrigrænna. Því eins og einn annar hjólreiðarmaður á fundinum benti á, þá voru fundarmenn svo sannarlega úti að aka þessa helgi.
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021