Sú ákvörðun félagsmálaráðherra að hækka lánshlutfall íbúðalána upp í 90% og hækka auk þess hámarkslán sjóðsins er fráleit. Ákvörðunin, sem tekur gildi í dag, gengur í berhögg við markmið ríkisstjórnarinnar um að draga úr þenslu í efnahagslífinu og gæti haft áhrif á vaxtalækkunarferli Seðlabankans til hins verra.
Í tilkynningu frá félagsmálaráðuneytinu, sem send var út í gær, segir að með þessari ákvörðun séu lánshlutfallið og hámarksfjárhæðin færð í sama horf og þau voru áður en ríkisstjórnin greip til aðgerða í efnahagsmálum í lok júnímánaðar 2006. Þær aðgerðir voru árangursríkar og áttu vafalítið sinn þátt í að vinna gegn þenslunni sem þá var að nálgast hættumörk. Komið var í veg fyrir að verðbólgan færi á flug og að undanförnu hefur verðbólga lækkað í takt við væntingar ríkisstjórnarinnar þar að lútandi.
Raunar mætti halda því fram að þetta kosningaloforð Framsóknarflokksins um 90% lán hafi ásamt öðrum þáttum stuðlað að þeirri þenslu varð. Það var því gæfuspor þegar ríkisstjórnin ákvað að lækka lánshlutfallið og sporna þannig við verðbólguhættunni. Nú er aftur snúið inn á ranga braut. Þessi ákvörðun félagsmálaráðherra er óskynsamleg í efnahagslegu tilliti og einungis er hægt að vona að hún verði ekki til þess að kynda undir þensluna á nýjan leik.
Ýmsir hafa talið að afnám stimpilgjalds gæti virkað þensluhvetjandi og kann það að skýra tregðu fjármálaráðherra við að fella það niður. Niðurfelling stimpilgjaldsins myndi hins vegar hafa þau áhrif að samkeppni bankanna um íbúðalán yrði miklu virkari, þar sem kostnaður við að færa lánin á milli banka myndi hverfa að verulegu leyti. Virkari samkeppni með fasteignalán myndi leiða til betri kjara fyrir lántakendur, eins og virk samkeppni með lífeyrissparnað hefur gjörbreytt kjörum viðskiptavina. Stimpilgjaldið hefur staðið í vegi fyrir virkri samkeppni með fasteignalán.
Ef menn telja að hagkerfið þoli nú þá innspýtingu sem felst í hækkun hámarkslána Íbúðalánasjóðs og hækkun lánshlutfallsins, þá hefði svigrúmið fyrir afnámi stimpilgjalda vafalaust verið svipað, ef ekki meira. Ávinningurinn fyrir neytendur af afnámi stimpilgjalda hefði auk þess vafalítið verið mun meiri en af hækkun lánshlutfallsins. Í öllu falli er ólíklegt að svigrúm verði fyrir afnám stimpilgjalda þegar áhrifa þessarar ráðstöfunar félagsmálaráðherra fer að gæta.
Það er ekki nýtt að umsvif Íbúðalánasjóðs gangi í berhögg við efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar og þau sameiginlegu markmið hennar og Seðlabankans að halda verðbólgu í skefjum. Í ágúst í fyrra sagði framkvæmdastjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að fyrirkomulag Íbúðalánasjóðs hamlaði peningastefnu Seðlabankans. Nýjustu ráðstafanir félagsmálaráðherra gefa þessari gagnrýni byr undir báða vængi.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021