Óskarsverðlaunin voru afhent í 79. sinn við hátíðlega athöfn nú fyrr í vikunni. Skemmst er frá því að segja að athöfnin hefur oftast verið betri.
Óhætt er að segja að ekkert á athöfninni hafi komið á óvart, engin grét með tilþrifum eins og og þær stöllur Gwyneth Paltrhrow og Hallie Berry, engum datt í hug að hoppa með öskrum og látum uppá sviðið líkt og Cuba Gooding Jr og Roberto Benigni, og meira að segja hafði enginn hugmyndaflugið í að mæta í svanakjól eða einhverju álíka eftirminnilegu líkt og Björk Guðmundsdóttir gerði forðum daga.
Engin af svokölluðum stóru verðlaunum komu á óvart og voru flestir verðlaunahafar búnir að vinna alla undanfara Óskarsins og því nokkuð ljóst í hvað stefndi. Þakkarræðurnar voru tilþrifalitlar; allir þökkuðu samstarfsfélögunum, makanum og guði.
Undantekning á þessu var ræða Jennifer Hudson sem fékk Óskar fyrir leik í aukahlutverki. Hún var sú eina sem bauð uppá alvöru Óskars-tár og flottheit, en hafði reyndar verið talin mjög sigurstrangleg í flokknum. Það er þó eðlilegt að verðlaunin hafi haft mikil áhrif á hana því fram að þessu hafði hún unnið sér það helst til frægðar að tapa í American Idol-sjónvarpsþáttunum.
Allt var eitthvað svo óvenju langt og leiðinlegt. Til að mynda voru heiðursverðlaunin veitt ítalska tónskáldinu Ennio Morricone, sem í sjálfu sér var gott og blessað. Hins vegar flutti hann mjög langa þakkarræðu sína á ítölsku sem gerði það að verkum að Clint Eastwood, sem afhenti verðlaunin, þurfti að lesa upp þýðingu á ræðunni jafnóðum og flýtti það ekki fyrir. Til að fólk geri sér betur grein fyrir atriðinu þá er samanlagður aldur Morricone og Eastwood rétt tæplega tvö hundruð ár, þannig að ekki mátti kannski búist við miklum hressleika í þeim félögum.
Strax í kjölfarið flutti Celine Dion lag eftir Morricone sem bætti afskaplega litlu við það sem áður hafði verið sagt og jók einungis enn frekar á væmnina, eins og henni er einni lagið.
Á sömu nótum tók söngsyrpa úr Dreamgirls afskaplega langan tíma, þó það sé kannski skiljanlegt þar sem myndin átti þrjár tilnefningar af fimm í flokki besta frumsamda lags. Þrátt fyrir það tapaði myndin þeim verðlaunum til miðaldra konu sem braut að öllum líkindum blað í 79 ára sögu hátíðarinnar þegar hún þakkaði eiginkonu sinni stuðninginn í gegnum tíðina. Þar hafið þið það; óvæntasta atriði kvöldsins var þegar samkynhneigð sveitasöngkona vann Beyonce Knowles. Það er aldeilis hápunktur.
Gleðitíðindi kvöldsins hljóta að hafa verið þegar Martin Scorsese vann loksins Óskarsverðlaun eftir að hafa verið tilnefndur fimm sinnum áður. Það var þó fyrirsjáanlegt enda röðin löngu komin að honum, myndavélarnar og athyglin á honum allt kvöldið og þrír af stærstu leikstjórum samtímans fengnir til að afhenda verðlaunin, augljóslega til að votta honum virðingu sína. Engu að síður verður að teljast sérstakt að Scorsese vinni Óskarinn fyrir Departed, mynd sem er engan veginn hans besta verk.
Þrátt fyrir allan glamúrinn og athyglina sem hátíðinni fylgir má þó ekki líta framhjá þeirri staðreynd að langflestir hafa aldrei séð þær myndir sem tilnefndar eru. Sárafáar myndir komast á lista yfir aðsóknarmestu myndir ársins, og sem dæmi má nefna að aðeins 7% Bandaríkjamanna höfðu fyrir hátíðina séð allar myndirnar fimm sem tilnefndar voru.
Því má fullyrða að til að halda athygli áhorfanda þarf hún að höfða til fjöldans á annan hátt, til að mynda með frumlegri verðlaunathöfn, fjölbreyttum skemmtiatriðum og líflegum uppákomum. Það mistókst hrapalega þetta árið og hlýtur maður því að velta fyrir sér hvort andvökunóttin sé þess virði að ári liðnu.
- Piparprinsar – Nú fer hver að verða síðust - 25. júlí 2008
- Óspennandi Óskar - 28. febrúar 2007
- Að verðmeta fólk - 11. febrúar 2007