Á fyrstu tveimur mánuðum ársins hefur svifryksmengun á höfuðborgarsvæðinu farið yfir heilsuverndarmörk fimm sinnum. Það þýðir að þessa fimm daga hefur magn svifryks í hverjum rúmmeter andrúmsslofts verið meira en sem nemur 50 míkrógrömmum í sólarhringsmeðaltali. Og í sumum tilfellum hefur magnið farið vel yfir þessi mörk. Mánudaginn 26. febrúar fór þetta gildi upp í 186 míkrógrömm á rúmmeter á háannatíma á mælistöð við Grensásveg. Ársmeðaltalið er 29 dagar sem svifryksmengun fer yfir heilsuverndarmörk, eða tólfta hvern dag á árinu.
Meginorsök þessarar svifryksmengunar er almenn notkun nagladekkja, en ríflega helmingur svifryks eru uppspændar malbiksagnir frá þeim 50% bílaflotans sem kýs nota nagladekk sem öryggistæki við vetraraðstæður, Einungis 25% svifryks eru af náttúrulegum orsökum.
Svifryksmengunin – og önnur mengun frá bílaumferð – eru sennilega orðin eitt helsta heilsufars- og umhverfisvandamálið sem við er að glíma á höfuðborgarsvæðinu. Afleiðingar á formi öndunarfærissjúkdóma og veikinda eru öllum ljósar í dag. Hið gula mengunarský – sem leggst eins og mara yfir borgina á stillum vetrardögum – stendur mengunarmistri stórborga Evrópu og Bandaríkjanna lítt að baki. Gamla sannfæringin um að Reykjavík sem hreinasta höfuðborg í heimi er orðin að tálsýn. Hún er augljóslega löngu brostin.
Við þessu á að bregðast. Og viðbrögðin eiga ekki að einskorðast við Reykjavíkurborg, því hún er í dag einungis eitt sveitarfélag af mörgum sem í dag mynda borgarsvæði upp á tæplega 200 þúsund manns. Sá tími þarf að líða undir lok að nágrannasveitarfélögin drattist með Reykjavíkurborg eins og dauðar hundslappir í málum sem varða heildarhagsmuni höfuðborgarsvæðisins.
Það er augljóst hvað myndi skila fljótvirkustum árangri í baráttunni gegn svifryksmenguninni. Ef hægt væri að sannfæra þann helming ökumanna sem í dag notar nagladekk undir bílum sínum á veturna til að skipta yfir í aðrar lausnir á vetraröryggi sínu strax á morgun, væri mjög mikill sigur unninn. Þannig mætti rýra svifryksmyndun um heil 55% og nokkuð ljóst að stórlega myndi draga úr tíðni mengunardaga tengdum svifryki, þótt önnur menginarvandamál tengd útblæstri bílvéla stæðu enn sem áður eftir.
En þessi umræddu 50% ökumanna eru ekki að fara að skipta yfir í aðrar gerðir af vetrardekkjum á morgun. Og það eru mjög góðar líkur til þess að þeir geri ekkert í sínum málum það sem eftir lifir vetrar. Og sennilega mun mikill meirihluti þeirra áfram setja sömu nagladekkin undir næsta haust. Og næsta. Og næsta. Og næsta.
Staðreyndin er sú að mjög hægt hefur þokast í að sannfæra fólk um að skipta yfir í aðrar sambærilega öruggar tegundir vetrarhjólbarða. Jafnvel þrátt fyrir þá staðreynd að þær skila sambærilegu öruggi við nánast allar aðstæður og í raun mun betra öryggi við mun algengari aðstæður. Hlutfall ökutækja á negldum dekkjum var 60% árið 2003, eða 10% fleiri en í dag. Þetta þýðir að síðustu fjögur árin hefur hlutfallið lækkað um 2,5% á ári. Fljótt á litið gæti þetta táknað að einn af hverjum tuttugu sem áður notaði nagladekk væri að skipta yfir í óneglda tegund í upphafi nýs vetrar. En það er villandi að líta þannig á málið.
En jafnvel það sem virðist vera hógvær árangur er villandi. Á þessu sama tímabili fjölgaði fólksbílum á landsvísu um 11%, eða einu prósentustigi meira en sem nemur fækkun bíla á nagladekkjum. Líkur eru á að fjölgun bíla á höfuðborgarsvæðinu hafi numið meiru en sem nemur þessum 11%, enda fjölgaði íbúum þar hlutfallslega meira, og efnahagsleg velmegun mest þar. Fjöldi bíla á nagladekkjum er því í raun ekki að breytast sem neinu nemur.
Áframhaldandi siðferðisvitundarherferð Reykjavíkurborgar og Umhverfissviðs hennar gegn notkun nagladekkja mun eflaust áfram stuðla að því að hluti þeirra sem í dag notar nagladekk skiptir yfir í óneglda tegund næsta vetur. Og veturna sem fylgja í kjölfarið. En það er afskaplega ólíklegt að árangurinn verði nægilega mikill til að hafa áhrif á tíðni þeirra daga sem svifryksmengun fer yfir heilsuverndarmörk. Ekki fyrr en eftir mörg mörg ár.
Það er tími til kominn að skoða aðra hvata en siðferðishvatann til að fá fram æskilega breytingu á umræddri markaðshegðun. Sá hvati, sem er augljóslega nærtækastur eðlilegastur, er hagræni hvatinn. Að taka upp sértæka gjaldtöku á notkun nagladekkja á höfuðborgarsvæðinu í því skyni að lækka hlutfall nagladekkja nægilega mikið til að marktækur ávinningur verði fyrir svifryksmyndun í borginni.
Árangur af innleiðingu sértækrar gjaldtöku af notkun nagladekkja í borgum í Noregi gefur til kynna að þar sé komin leið sem líkleg sé til að skila skjótum árangri í að draga verulega úr notkun nagladekkja. Norskar borgir áttu í sambærilegum vanda og við er að glíma í dag á höfuðborgarsvæðinu, nefnilega óhóflega svifryksmengun á köldum þurrum vetrardögum. Þar var rannsakað hversu mikil slík gjaldtaka þyrfti að vera til að lækka hlutfall negldra dekkja niður í 20%, en það var álitið hlutfall sem telja mætti heppilegt. Það væri nægilega lítið til að halda vegsliti og svifryksmengun í lágmarki, en nægilega mikil til að nagladekkinn hjálpuðu enn til við að rífa upp snjó og klaka saman með vegsöltun. Í mars á síðasta ári náðist það markmið, en þá fór hlutfallið niður í 19,3% í Osló.
Bein sértæk gjaldtaka af notkun nagladekkja á höfuðborgarsvæðinu er þjóðþrifamál sem íhuga ætti vandlega að ráðast í á næstu misserum. Fordæmin eru fyrir hendi og þau sýna hvernig unnt er að ná skjótum árangri með tiltölulega einföldum gjaldtökuleiðum.
Bein sértæk gjaldtaka er í samræmi við forskrift sjálbærrar þróunar sem kveður á um að settur sé hæfilegur verðmiði á afleiddar hliðarafurðir markaðshegðunar eins og þeirrar sem hér um ræðir. Ekki síst ef þær hafa neikvæð umhverfisáhrif. Það er beinlínis samfélagslegt réttlætismál að þeir, sem eru ábyrgir fyrir því heilsufars-, umhverfis- og vegslitsvandamáli sem hér um ræðir, greiði sjálfir fyrir þann kostnað sem þeir valda, í stað þess að velta honum yfir á samfélagið í heild sinni og búa sjálfkrafa um hnútana að það skapist arðránshegðun markaðarins á vanprísaðri vöru. Hér er gullið tækifæri fyrir Íslendinga að láta reyna á sjálfbæra og markaðsvæna nálgun á mikilvægu og aðkallandi vandamáli. Nálgun, sem þarf að verða leiðarljós fyrir komandi kynslóðir ef Ísland ætlar sér að verða leiðandi aðili á sviði umhverfismála og sjálfbærrar þróunar. Og það er verkefni sem er þess virði að leggja eilítið blóð, svita og tár í. Og ekki seinna en strax.
- Hálendisfrumvarpið er dautt, lengi lifi hálendisfrumvarpið - 10. júní 2021
- Gamalt vín á nýjum belgjum - 7. apríl 2021
- Borgarlína á toppnum - 20. febrúar 2021