Stjórnmálaflokkarnir hafa nú ákveðið að ekki duga minna til en ályktun frá löggjafanum til að lýsa vanþóknun á samkomuhaldi framleiðenda kláms hér á landi. Þessi þverpólitíska samstaða um popúlisma kemur ekki á óvart, korteri fyrir kosningar. Það er þó ákveðinn léttir að menn hafi þó náð þeirri lendingu að lýsa andúð sinni með þessum hætti, í stað þess að beita opinberu valdi til að koma í veg fyrir fyrirhugað samkomuhald, eins og kröfur ýmissa hópa hljóðuðu upp á.
Það er bæði erfitt og vandasamt að taka skynsamlega afstöðu í þessu máli. Þeir sem ekki stökkva á popúlista-lestina og vilja taka afstöðu til málsins út af frá grundvallar prinsippum eiga það mjög á hættu að vera úthrópaðir fylgismenn kláms, vændis, mansals og jafnvel barnamisnotkunar. Ef horft er í gegnum alla hysteríuna sem einkennir þetta mál og rýnt í þau grundvallaratriði sem málið snýst um, þá er það í rauninni mjög einfalt. Ríkisvaldið á að láta fólk í friði svo lengi sem athafnir þess skaða ekki aðra.
Sá mælikvarði sem réttarríkið notar til að segja til um hvenær athafnir einstaklinga eru skaðlegar er löghlýðni. Fylgi einstaklingar lögum eiga þeir að geta treyst því fá að vera í friði fyrir afskiptum ríkisvaldsins. Fáir glæpir eru verri en þegar opinberu valdi er að tilefnislausu og án lagaheimildar beitt gegn einstaklingum. Til að koma í veg fyrir slíka valdbeitingu hefur almenn samstaða verið um það í siðuðum samfélögum að einstaklingar njóti mannréttinda sem gangi fram öðrum lögum. Í þessum tilgangi eru mannréttindaákvæði um fundafrelsi, skoðanafrelsi og fleira sett í stjórnarskrá.
Þessi vernd mannréttinda á einmitt að tryggja að ríkisvaldið beiti sér ekki gegn fólki á grundvelli geðþótta eða vegna þess að þeim sem fara með opinbert vald misbjóði háttsemi einstaklinga eða tiltekinna hópa. Mannréttindi eru þannig ofar gildismati löggjafans á hverjum tíma. Þótt ýmsum hópum og jafnvel stórum hluta almennings misbjóði einhver háttsemi einstaklinga eða hópa í samfélaginu, þá má það ekki eitt og sér verða til fordæmingar eða valdbeitingar af hálfu ríkisvaldsins, að því gefnu að háttsemin sé ekki brot á lögum.
Fulltrúar okkar á Alþingi hafa nú sameinast um að lýsa vanþóknun sinni á fyrirhuguðu samkomuhaldi. Að mínu viti er of langt gengið með því, þótt vissulega megi anda léttar að hysterían hafi ekki leitt til beinnar íhlutunar ríkisvaldsins í þessi mál.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021